Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:44:57 (4552)

1996-04-11 12:44:57# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:44]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Ég vil byrja á því, hæstv. forseti, að þakka biðlundina sem er sýnd með því að bíða þar til málið kemur til nefndar og fá svar þar. En mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að þjónustusamningar eru tvenns konar: Þeir eru annars vegar samningar sem kenndir eru við samningsstjórnun og eru þá samningar á milli ráðuneyta og stofnana sem heyra undir ráðuneytið. Slíkir samningar hafa verið gerðir í tilraunaskyni á undanförnum árum og hafa að mínu mati reynst vel, hafa krafist þess af hálfu stjórnvalda að verkefnin séu skilgreind og það hefur vakið upp spurningar sem eru mjög hollar og hafa leitt til hagræðingar í rekstri.

Hinir samningarnir eru við aðila utan ríkiskerfisins og þar hefur sjálfsagt talsverðu verið áfátt á undanförnum árum og meira að segja varla verið hægt að tala um samninga í vissum tilvikum. Til að mynda hefur það oft gerist að aðilar utan ríkiskerfisins fái fjármuni úr ríkissjóði með ákvörðun Alþingis án þess að leggja fram bleðil um það hvernig þeir ætli að standa að því að verja viðkomandi fjármunum. Það er auðvitað lítt verjandi.

Varðandi hagræðinguna liggur það í augum uppi að innan ríkisrekstrarins má ná verulegri hagræðingu með sveigjanleika sem felst t.d. í því að vissar stofnanir, kannski vegna landfræðilegrar legu sinnar, taki að sér verkefni sem tilheyri öðrum stofnunum. Þá þarf að gera slíkt með samningi og það getur skilað sér í hagræðingu. Því ber að líta á heiti frv. með tilliti til þess að hér er verið að fjalla um nokkra þætti og sumir þeirra geta haft veruleg áhrif á hagræðingu í ríkisrekstri.