Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:11:42 (4557)

1996-04-11 15:11:42# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að það er erfitt að skilja hvað vakir fyrir hæstv. fjmrh. þegar hann leggur þetta fram núna. Ég hefði einmitt talið að þessa dagana væri mjög farsælt fyrir hæstv. ráðherra að hafa hljótt um sig og skapa ekki miklar öldur því enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Hins vegar tel ég rétt og ekki síst á þessum síðustu dögum að lofa hæstv. ráðherra fyrir það sem hann hefur vel gert. Eitt af því sem hæstv. fjmrh. hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum eru ný viðhorf og ný hugsun í ríkisrekstrinum. Ég er að ýmsu leyti sammála mörgu því sem þar hefur komið fram.

Hæstv. ráðherra beitti sér t.d. fyrir rammafjárlögum sem var ný aðferð til að reka ríkissjóð og ráðuneytin. Og þó að ég hafi sem ráðherra í ríkisstjórn með honum kvartað talsvert undan þeim, því að mér fundust þau að vissu marki ekki uppfylla þær væntingar sem hann hafði í upphafi um aukið svigrúm ráðuneytanna, tel ég samt sem áður að þar hafi verið farið yfir á farsæla braut sem gæti, ef rammafjárlögunum væri beitt betur, leitt til aukins hagræðis og leyft frumkvæði starfsmanna og jafnvel einstakra ráðherra að blómstra örlítið betur. Þarna tel ég að hæstv. ráðherra hafi verið á réttri braut.

Hann hefur líka eins og sést í þessu frv. verið að styrkja útboðsstefnu ríkisins. Mér finnst að þar hafi ríkisstjórninni, síðustu og þessari, og þá sér í lagi fyrir frumkvæði hæstv. ráðherra tekist vel upp. Ég tel að útboðsstefnan sem hann hefur barist fyrir á síðustu árum og hrint í framkvæmd sé mjög jákvæð. Og ég hegg eftir því að þetta frumkvæði ríkisstjórnarinnar hefur smitað frá sér út í einkageirann. Kannski er það rangt hjá mér. Ég tek eftir því að stórfyrirtæki eru farin að beita útboðum í miklu ríkari mæli. Þetta hefur hjálpað neytendunum með tvennum hætti. Þetta hefur leitt til aukins sparnaðar í ríkisrekstrinum, en hefur líka orðið til þess að upp hafa komið nýir útsjónarsamir aðilar í einkageiranum, sem hefur leitt til þess að vöruverð hefur lækkað. Þetta er jákvætt.

Ég er þeirrar skoðunar að verkefnastjórnun og þjónustusamningar séu jákvæðir. Mig greinir á við ýmsa í stjórnarandstöðunni eins og t.d. hv. þm. Ögmund Jónasson og hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um það hvernig eigi að hafa þessa þjónustusamninga og hverjar verði afleiðingar þeirra. Ég tel að ríkisgeirinn þurfi að geta keppt við einkageirann um góða starfsmenn. Og hvernig gera menn það? Þeir gera það með auknu svigrúmi í launamálum. Ég vil hins vegar hlusta á rökin. Ef það er svo sem hv. þm. Ögmundur Jónasson segir að þetta hafi leitt til aukins launamisréttis --- það hefur komið fram áður í umræðum í þessum sal að það hafi leitt til aukins misræmis í launum milli kynjanna --- þá eru það hlutir sem þarf að skoða mjög vel.

[15:15]

Það er annað mál hvort ég sé sammála þessum viðhorfum hæstv. ráðherra. Það sem ég er ósammála honum um er það að menn fari einhverja ,,fjallabaksleið`` til að ná fram markmiðum sínum og ég tel að með þeim opnu heimildum t.d.sem hæstv. ráðherrum þessarar stjórnar verða gefnar, verði þetta frv. að lögum þá kunni ýmsum mikilvægum hlutum að vera stefnt í voða. Ég tel, hæstv. ráðherra, að áður en menn geta samþykkt frv. af þessu tagi verði þeir að taka prinsippumræðu um einkavæðingu ýmissa mjög mikilvægra geira. Ég sé strax á frv. að sá geiri sem ég kem að í þinginu, sem eru heilbrigðismálin, er algjörlega opinn fyrir einkavæðingu og ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki rétt hjá mér að ef frv. yrði að lögum væri t.d. hægt fyrir heilbrrh. eða Tryggingastofnun að semja við einkareknar læknastöðvar um mjög mikilvæga málaflokka sem eru nú innan hins opinbera geira? Væri t.d. ekki hægt fyrir Tryggingastofnun ríksins að semja við einkareknar læknastöðvar um að sjá um allar röntgenskoðanir? Nú er ég ekki með þessu að taka afstöðu gegn því að með einhverju móti verði reynt að beita lögmálum einkamarkaðarins til að hagræða í ríkisrekstrinum en ég er algjörlega á móti því að við samþykkjum frv. sem getur leitt einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu og innan skólakerfisins áður en við höfum farið í gegnum prinsippumræðuna um það hvort við viljum það eða ekki. Þarna finnst mér að við séum að fara rangt að hlutunum. Ég hef reyndar í umræðu um hagræðingu í ríkisrekstrinum bent á að áður en við getum farið að velta fyrir okkur þeim tækjum sem frv. af þessu tagi veitir ríkisvaldinu verðum við að gera það upp við okkur hvað er það sem við viljum einkavæða.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði áðan að hún væri ekki á móti einkavæðingu að ákveðnum forsendum gefnum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur í umræðu um umdeilda einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum á síðustu árum lýst því yfir oftar en einu sinni að auðvitað þurfi að vera til aðferð til þess að einkavæða ríkisfyrirtæki þannig að samkvæmt þessu tel ég að sé samhljómur í þinginu og að það sé samstaða um að það sé nauðsynlegt að hafa tæki til þess að einkavæða. Áður en þau tæki eru búin til verðum við að gera það upp við okkur hvaða geira ríkisins viljum við einkavæða. Ég ítreka þá spurningu sem ég hef varpað fram til hæstv. ráðherra: Gerir þetta ekki kleift að einkavæða stóran hluta úr heilbrigðisgeiranum og gerir þetta ekki líka kleift fyrir okkur að einkavæða stóran hluta í skólakerfinu? Þetta eru mikilvægar spurningar og ef svarið við þeim er já finnst mér ekki með nokkru móti hægt að samþykkja frv. fyrr en þingið hefur gert upp við sig hvort það vilji t.d. selja í hendur einkaaðila hluta af skólakerfinu. Vill t.d. hinn brosmildi ritstjóri Tímans, hv. þm. Jón Kristjánsson, sem hérna situr keikur, beita sér fyrir því að Menntaskólinn á Egilsstöðum verði boðinn út? Nú veit ég að hv. þm. hefur sennilega ekki gert þessa spurningu upp við sig fremur en margt annað sem Framsfl. á eftir að gera upp við sig en ég hygg að hann vildi gjarnan vera búinn að ræða slík mál innan síns flokks áður en hann gefur hæstv. ráðherra auða, óútfyllta ávísun á að einkavæða t.d. Menntaskólann á Egilsstöðum. Mér sýnist að þetta frv. geri það mögulegt. Þessum spurningum, herra forseti, tel ég nauðsynlegt að okkar ágæti hæstv. fjmrh. svari áður en umræðunni lýkur og endilega áður en hann yfirgefur okkur e.t.v. að fullu og öllu.