Fjáröflun til vegagerðar

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:59:03 (4567)

1996-04-11 15:59:03# 120. lþ. 116.7 fundur 442. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 68/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:59]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir getur í fljótu bragði virst snúast fyrst og fremst um tæknileg atriði og leiðréttingar sem eru nauðsynlegar á gildandi löggjöf sem ætlað var að taka við af lögum frá 1987. Nokkur atriði eru þó almenns eðlis sem ástæða er til að taka aðeins inn í þessa umræðu og mun ég koma að því á eftir.

Með frv. þessu er fyrst og fremst verið að fresta gildistöku ákvæða laga um fjáröflun til vegagerðar. (Fjmrh.: Það er búið.) Það var gert um áramót, en að útfæra nánar til ársloka 1997 hvernig með skuli farið. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ábendinguna en þannig er málið vaxið.

[16:00]

Gert er ráð fyrir því að búa við ákvæðin um þungaskatt nú um nokkurt skeið eða til loka árs 1997 og fresta um leið að taka upp það sem kallað er olíugjald í lögunum sem samþykkt voru 1995, lögum nr. 34, um vörugjald af olíu. Þar er um verulega kerfisbreytingu að ræða ef og þegar þau ákvæði taka gildi. Tekjuöflun til vegagerðar er mjög mikilvægt mál og þar hefur að verulegu leyti verið stuðst við markaða tekjustofna sem kunnugt er. Þegar vegáætlun var rædd fyrr á þinginu gagnrýndi ég þá málsmeðferð ásamt mörgum fleiri sem tóku þátt í þeirri umræðu að ríkisvaldið, ríkisstjórnin, hefur hlutast til um að verulega og í vaxandi mæli sé höggvið í markaða tekjustofna til vegagerðar og þeir færðir inn í ríkissjóð. Það mál ætla ég ekki að gera frekar að umræðuefni en minni þó á það að þar er um mjög veigamikla breytingu að ræða frá því sem almennt hefur verið á undanförnum árum og mjög neikvæð atriði að því er varðar fjármögnun til framkvæmda í vegamálum og afar slæmt ef haldið verður áfram á þeirri braut sem núv. hæstv. ríkisstjórn og raunar fyrrv. ríkisstjórn með sama hæstv. fjmrh. hefur markað fyrir sitt leyti. Það er afar brýnt að snúið verði frá því en jafnframt er auðvitað nauðsynlegt að þeir tekjustofnar sem gert er ráð fyrir að gangi til vegagerðar og markaðir hafa verið í því skyni skili sér til vegagerðarinnar til þess sem gert er ráð fyrir þegar þeir voru ákveðnir og á lagðir.

Með þessu frv. er leitast við eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir í framsögu sinni að tryggja það með betri hætti en verið hefur að álagður þungaskattur eða þungaskattur sem lög gera ráð fyrir að greiddur sé skili sér raunverulega í ríkissjóð. Ég geri ráð fyrir því að það sé rétt mat sem fram kemur í athugasemdum með frv. að verulega hafi skort á það að þungaskattur hafi í reynd skilað sér eins og lög kveða á um og því sé brýnt að bæta löggjöfina frá því sem verið hefur miðað við að þetta form sé haft á álagningu þungaflutninga í landinu á meðan ekki er gripið til annarra ráða. Satt að segja hefur málsmeðferðin hvað þessi mál varðar verið afar klúðursleg svo ekki sé fastar að orði kveðið. Um það ber raunar greinargerðin með frv. órækt vitni þar sem fram kemur hvernig að þessu hefur verið staðið og hvaða ástæður eru fyrir því að þetta frv. er flutt til þess að gera kleift í raun að koma í veg fyrir undanskot og tryggja samræmingu í málsmeðferð sem engan veginn hefur verið tryggð í gildandi lögum. Að því leyti sem þannig er að málum staðið er hægt að taka undir efni frv. og ég er ekki að mæla gegn því sem slíku vegna þess að það er auðvitað sjálfsagt að reyna að tryggja að fullrar sanngirni sé gætt og ekki sé raskað samkeppnisstöðu aðila sem þetta gjald er lagt á. Það verður auðvitað því aðeins gert að það skili sér með réttlátum og samræmdum hætti. Önnur atriði sýnast mér einnig horfa til bóta að því er varðar málsmeðferð, bæði að því er snertir aðgreiningu milli álagningaraðila og innheimtuaðila þannig að að því leyti stefnir þetta frv. í rétta átt.

Framsetningin í greinargerð og skýringar með frv. eru dálítið óskýrar að sumu leyti þar sem verið er að vísa fram og aftur milli gildandi löggjafar, löggjafar sem áður var í gildi og síðan þessa frv. sem hér er á ferðinni en ég vænti að það vefjist ekki fyrir hv. nefnd sem fær þetta mál til frekari vinnslu að lesa þar á milli en þetta gat boðið upp á ákveðinn misskilning við yfirlestur að ekki er alveg skýrt hvað verið er að tala hverju sinni. Dæmi um það er að finna efst á bls. 11 í í athugasemdum með frv. þar sem segir að gert sé ráð fyrir því að níu nýjar greinar bætist við frv. (Fjmrh.: Það er augljós prentvilla.) Það er aðeins dæmi en slíkar misvísanir er að finna að mér sýnist í greinargerðinni þó að ég hafi ekki merkt við það sérstaklega við yfirlestur.

Þá vil ég, virðulegur forseti, aðeins koma að almennum þætti sem snertir málið og það er spurningin í raun um framhald málsins. Eftir að ákvæði þessara laga ef frv. verður lögfest hætta að vera í gildi, frá ársbyrjun 1998, er gert ráð fyrir að ákvæði laga um vörugjald af olíu komi til framkvæmda, þ.e. að sú löggjöf verði virt. Ég tel að þungaskattskerfið, sem hér er verið að útfæra frekar, hafi auðvitað haft augljósa meinbugi í för með sér að því er varðar innheimtuna og meint undanskot frá kerfinu en hins vegar sé engan veginn hægt að taka undir það sem einhlít atriði að annað form sé betra eða sanngjarnara. Kannski varðar megináhyggjuefnið í sambandi við innheimtu í formi þungaskattskerfis það að það kann að leggjast ranglátlega á fólk á vissum svæðum á landinu, þ.e. landsbyggðin verði almennt meira fyrir barðinu á þessari gjaldheimtu vegna þess að flutningarnir beinast héðan frá höfuðborgarsvæðinu í allríkum mæli og út til annarra hluta á landinu þó að auðvitað sé einnig um að ræða dreifingu og flutninga frá öðrum höfnum innan einstakra svæða. Að þessu þarf vissulega að gæta þegar verið er að vega og meta þungaskattskerfið sem slíkt og e.t.v. að leita leiða til þess að draga úr þeirri mismunun að því er varðar byggðir í landinu. Ég vek athygli á því að á sama tíma og löggjöfin, sem hér er verið að fylla nánar út í sem gerir ráð fyrir olíugjaldi og breyttu kerfi, er sniðin að breytingum sem orðið hafa erlendis á undanförnum árum hef ég tekið eftir því við lestur heimilda fyrst og fremst á þessum vetri að það er komið annað hljóð í strokkinn á svæði heimsins sem menn bera sig allmikið við og við erum bundin við innan hins Evrópska efnahagssvæðis, í Evrópusambandinu sérstaklega, þ.e. að taka þessi mál öll til róttækrar og gagngerðrar endurskoðunar að því er varðar skattheimtu á vöruflutninga. Mér sýnist að hugmyndirnar sem þar eru uppi hnígi sérstaklega í þá átt að láta flutningana og þá sem standa fyrir þeim greiða í mun ríkari mæli reiknaðan kostnað vegna álags á vegakerfið hugsanlega vegna mengunar en verið hefur. Mér sýnist að það geti þurft að koma til a.m.k. að menn fari yfir þær breytingar sem þarna kunna að vera í uppsiglingu og það breytta mat sem þarna er á ferðinni. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því að hve miklu leyti ráðherrann og ráðuneyti fjármála hefur sett sig inn í þessi efni og hugsanlega tekið til athugunar þá stefnubreytingu sem virðist vera í uppsiglingu í Evrópusambandinu að því er snertir þessa skattlagningu. Ég held að mikil ástæða sé til þess að skoða það. Ég tel vissulega að það þurfi að líta á þessi mál einnig, ekki aðeins á kostnaðarhliðina að því er varðar vegakerfið, heldur þurfi líka að líta á þetta út frá umhverfisþættinum og þeirri megnun sem stafar af þungaflutningum. Ég vakti athygli á því þegar hér var verið að breyta um í sambandi við vöruflutninga frá sjóflutningum yfir í landflutninga í verulegum mæli á undanförnum árum, þar á meðal með því að leggja af Skipaútgerð ríkisins og beina flutningum af þeim sökum í auknum mæli inn á þjóðvegakerfið. Síðan hafa komið til mjög róttækar breytingar sem sumpart eru ekki komnar að fullu til framkvæmda en felast í vöruflutningum að og frá landinu og sem Eimskipafélag Íslands er m.a. gildur aðili að.

Þessi mál þarf að líta á mjög heildstætt að mínu mati og í almennu samhengi þegar verið er að fjalla um álagningu, skattlagningu á umferðina, sérstaklega á þungaflutningana.

Ég leyfði mér rétt fyrir páskahlé þingsins að beina fyrirspurnum til tveggja hæstv. ráðherra sem eru ekki viðstaddir hér og ég ætla ekki að draga þær fyrirspurnir inn í þessa umræðu að öðru leyti en því að vekja athygli á þeim vegna þess að þær tengjast því máli sem hér er til umræðu. Önnur fyrirspurnin, sem liggur fyrir á þskj. 742, er til sagmrh. um þungaflutninga á þjóðvegum þar sem verið er að leita eftir upplýsingum um þau efni að því er snýr að vegakerfinu og kostnað við vegakerfið. Öryggi vegfarenda er raunar einnig nefnt í því sambandi en um það efni hef ég beint sérstakri fyrirspurn til dómsmrh. á þskj. 743 til þess að draga fram fyrir Alþingi upplýsingar um slys sem má rekja sérstaklega til þungaflutninga og þar á meðal til þeirra ófullkomnu aðstæðna sem ríkja í vegamálum okkar til þess að taka við þeirri róttæku breytingu á flutningum um þjóðvegi landsins sem einnig eru mikið áhyggjuefni að mínu mati út frá því sjónarhorni.

[16:15]

Ég held í rauninni að ef við gerum ráð fyrir að sú þróun haldi áfram sem nú er í fullum gangi í þessum efnum verði ekki hjá því komist að ráðast í afar víðtækar og kostnaðarsamar framkvæmdir í þjóðvegakerfinu ef þetta gífurlega aukna álag þungaflutninganna, ekki aðeins með neytendavarning, heldur ekki síður í þágu atvinnurekstrar, sjávarútvegs með flutning á hráefni í fiskvinnslu landhlutanna á milli og í sambandi við flutning á daglegum afurðum landbúnaðarins til úrvinnslu eins og mjólk, fé til slátrunar og fleira af þeim toga þar sem farið er að taka upp allt aðra hætti en áður voru í nafni hagræðingar, með því að sameina t.d. sláturstöðvar, fækka sláturhúsum og keyra gripina landshorna á milli til aflífunar og síðan frekari úrvinnslu á því sem til fellur og þó í enn stórtækari mæli að sjálfsögðu þegar um er að ræða hráefni til fiskvinnslu. Þetta held ég að verði að líta á jafnhliða því sem menn eru að vega og meta kerfisbreytingar í þessum efnum á því hvað þarna er á ferðinni og hver framkvæmdaþörfin raunverulega er og þá líka spurninguna um það, hversu hátt þarf það gjald að vera sem eðlilegt er að ætla þessari tegund umferðar að bera í framtíðinni. Mér þætti vænt um ef hæstv. fjmrh. hefði afstöðu til þessara mála eða vildi segja sitt álit á þeim víðtæku breytingum sem þarna eru að verða og hvort ekki sé rétt að taka þær til athugunar í sambandi við álagningu gjalda og það kerfi gjaldheimtu sem varðar þungaflutninga á þjóðvegakerfi landsins og þar með fjáröflun til vegagerðar.

Þetta voru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri við 1. umr. málsins, virðulegur forseti. Mér sýnist að efni þessa sérstaka frv. varði eðlilega viðleitni til þess að stoppa í augljós göt þó að þar þurfi auðvitað að gaumgæfa hvernig að því er staðið. Og það verður verkefni þingnefndar að gaumgæfa þau efni. Ég ætla ekki að færa inn í þessa umræðu frekar spurninguna um aðra gjaldheimtu, þ.e. bensíngjald af fólkflutningabifreiðum þó að auðvitað sé þörf á að skoða þau mál í samhengi þegar menn fjalla heildstætt um skattheimtu á umferðina og fjáröflun til vegagerðar í því sambandi.