Fjáröflun til vegagerðar

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 16:26:17 (4569)

1996-04-11 16:26:17# 120. lþ. 116.7 fundur 442. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 68/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:26]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem hér hefur átt sér stað og víkja fyrst máli mínu til síðasta hv. ræðumanns, Jóns Baldvins Hannibalssonar. Fyrst held ég að þegar menn eru að lýsa skattkerfinu hér á landi, kemur í ljós --- ég er ekki að mæla gegn sjónarmiðum hans um að skattar eigi að taka tillit til jafnræðisreglunnar, þeir eigi að vera sanngjarnir, einfaldir og auðveldir, ekki síst í landi eins og Íslandi --- að auðvitað hefur jafnræðisreglan það í för með sér að stundum verða lögin flókin. Það þarf að setja ítarlegar reglur um það hvernig framkvæmdin skuli vera til þess að hún geti talist vera þannig að ekki sé brotið á jafnræðisreglunni.

Í öðru lagi vegna orða hv. þm. þá vil ég segja að ég er honum hjartanlega sammála og höfundi textans í greinargerð frv. um að í raun og veru er þungaskatturinn mjög vondur skattur og hefur reynst illa. Hér er einungis verið að gera breytingar á lögum sem sett voru 1987 og eiga aðeins að gilda í tvö ár. Þær breytingar sem verið er að gera eru fyrst og fremst breytingar sem nauðsynlegar eru til þess að ná skattinum inn, en líka af öðrum ástæðum eins og þeim að það sé ekki sami aðilinn sem kom að álagningunni og síðan að úrskurðum á síðari stigum sem er brot á nútímalegum háttum í þessu sambandi. Ég vil því undirstrika að ég er sammála hv. þm. um það að því fyrr sem okkur tekst að breyta yfir í gjald af olíu, þeim mun betra.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. um undirbúninginn fyrir 1998, vil ég láta það koma fram að nefndin sem vann að framkvæmd þeirra laga sem sett voru snemma á árinu 1995 vinnur áfram. Ég vil geta þess sérstaklega að það voru einkum fulltrúar olíufélaganna sem beittu sér fyrir þessari frestun á gildistöku þeirra laga. Þess vegna er siðferðileg ábyrgð þeirra nokkur í málinu því að þeir telja að nú sé komin tækni fram sem hægt er að nota við litun á olíu sem er mun ódýrari en hin sem höfð var í huga þegar lögin voru sett á sínum tíma fyrir um það bil ári síðan.

Ég get líka tekið undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að málsmeðferðin virðist a.m.k. klaufaleg. Það er slæmt að þurfa að hringla með lög eins og hér hefur verið gert en stundum er það skynsamlegra en ana út í foraðið þegar maður sér að betri hlutir geti gerst ef maður bíður um sinn. Það er stundum betra að bíða af sér flóðið og komast yfir heilu og höldnu.

[16:30]

Ég vil mótmæla því sem kom fram hjá hv. þm. að framkvæmdir í vegamálum sem hlutfall af tekjum af umferð hafi verið minni á undanförnum árum en áður. Það er enginn vandi að sýna fram á hið gagnstæða og hefur margoft verið gert. Hitt er svo annað mál að það má deila um hvort það háa hlutfall sem hefur ríkt á undanförnum árum sé flýting á framkvæmdum sem síðan eigi að greiða til baka. Verði það gert eins og efni stóðu til, sem ég get ekki fullyrt að verði, lækkar hlutfallið með tilliti til þess. En það er mjög auðvelt að sýna fram á að frá 1992 hafa framkvæmdir aukist einkum og sér í lagi vegna svokallaðra atvinnuátaka, ef nota má svo slæmt orð, sem orðið hafa til í tengslum við kjarasamninga þar sem nokkrir milljarðar króna hafa farið í ný verkefni í vegamálum. Fyrst var það greitt úr ríkissjóði eða með því að hækka hlutfallið af tekjum af bifreiðum en síðan með því að afla sérstakra tekna sem þó er aflað síðar en framkvæmdirnar eiga sér stað eins og hér á við í Reykjavík og til annarra framkvæmda sem þá var ákveðið að færu fram út um landið. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að frá því að sú ákvörðun var tekin hefur verið skorið aðeins í þær framkvæmdir. Það er hárrétt. En eftir sem áður er hlutfallið hærra en það var frá 1990 og fyrir þann tíma.

Ég rakst á það að það er slæm prentvilla á bls. 11. Ég tek undir með hv. þm. að það er ófyrirgefanlegt að skilja slíkt eftir í texta eins og þessum sem á að vera skýr.

Hv. þm. sagði síðan að landsbyggðin yrði ugglaust meira fyrir barðinu á þessum skatti en aðrir vegna þess að flutningarnir fara gjarnan frá Reykjavík, hugsanlega frá Akureyri eða þéttbýlisstöðunum en mest frá Reykjavík, út á land og þá bættist við vöruverð sá kostnaður sem atvinnutæki þurfa að bera sem flytja þessar birgðir til neytenda. Hv. þm. kann að þykja fróðlegt að kjósendur þess sem stendur hér kvarta undan hinu gagnstæða og segja að það sé ófyrirgefanlegt að þingmenn Reykvíkinga séu að beita sér fyrri því að leggja gjöld á dísilbifreiðar í Reykjavík sem aka nánast eingöngu á vegum sem Reykvíkingar greiða einir og svo fari þessir peningar til að byggja upp vegi sem séu nánast eingöngu notaðir fyrir þungaflutninga út á land. Þannig að málið er ekki eins einfalt og það virðist vera þegar þetta er sagt vegna þess að allt vegakerfi í þéttbýli er notað af bifreiðum sem leggja tekjur til vegasjóðs ef ég má nota hugtakið vegasjóður sem reyndar er ekki til nema í höfðinu á ... (JBH: Samgrh.) Að minnsta kosti samgrh. og kannski einhverjum fleirum. Vegasjóður er bara hluti af ríkissjóði eins og allir fyrrv. fjmrh. vita að sjálfsögðu.

Hv. þm. benti síðan á þróun sem á sér stað í nágrannalöndunum, einkum og sér í lagi í Evrópusambandslöndunum. Ég hygg að það sé rétt hjá honum að þar hefur farið fram nokkur umræða, bæði í Evrópusambandinu, innan OECD og á Norðurlöndum, um það hvort ekki eigi að taka tilliti til umhverfisins. Nýir stjórnmálaflokkar hafa haft talsverð áhrif í þessu sambandi með því að leggja skatta á efni sem hleypt er út í andrúmsloftið. Í því sambandi hefur verið minnst á níturoxíð sem notað er í atvinnurekstri. Það hefur ferið fjallað um brennisteinssambönd eða brennisteinstvíoxíðsambönd, sem ég veit að hv. þm. þekkir vel og mun betur en ég, í sambandi við útstreymi frá t.d. álverum og öðrum iðjuverum og veldur það m.a. súru regni. Hvað umferðina varðar hefur verið gerð tilraun til að leggja skatt á koltvísýring og það hefur oftast verið gert með þeim hætti að leggja skatt á eldsneyti bifreiða. Í dag er sænska ríkisstjórnin að segja frá því hvernig hún ætlar að ná inn tekjum með þessum svokölluðu umhverfissköttum. Reyndar hafa Svíar hælt sér mjög af því að hafa t.d. lagt skatt á sambönd köfnunarefnis og súrefnis og náð þeim árangri að draga verulega úr útstreymi í andrúmsloftið. Ég vil eingöngu af þessu tilefni staðfesta að það hafa farið fram viðræður milli fjmrn. og umhvrn. um þetta mál. Umhvrn. og fjmrn. undir forustu umhvrn. hafa tekið þátt í norrænu samstarfsverkefni um þessi mál. Þó hefur það samstarf kannski meira beinst að þeirri mengun sem hefur orðið til í fyrrum sovésku lýðveldunum einkum Eystrasaltslöndunum og á nærsvæðunum í Rússlandi. Jafnframt hefur samstarf orðið um það til hvaða ráða hægt væri að grípa til að koma í veg fyrir þetta útstreymi. Allir vita að talið er að koltvísýringurinn leiði til svokallaðra gróðurhúsáhrifa. Þessi umræða milli ráðuneytanna hefur enn ekki skilað sér í neinum beinhörðum tillögum. Við teljum þó eðlilegt að taka þátt í þessari umræðu ekki síst vegna þess að í framhaldi af Ríó-ráðstefnunni hafa þjóðir, og þá einkum þjóðirnar í OECD og Evrópusambandinu, látið þessi mál meira til sín taka en áður og talið þetta vera lið í því að vera fyrirmynd annarra þjóða í þessum efnum. Á ráðstefnum sem haldnar hafa verið í framhaldi af Ríó-sáttmálanum eða Conference on Sustainable Development eins og það er kallað, er þessi umræða einmitt þessa dagana mjög áberandi. Síðar í mánuðinum verður fundur sem ræðir sérstaklega fjárhagsmálefni þess verkefnis sem Ríó-ráðstefnan lét til sín taka. Þá verður þetta mál á dagskrá og mér er kunnugt um að Svíar hafa flutt á þeim vettvangi ræður um þetta tiltekna atriði.

Hér á landi gilda nokkuð önnur sjónarmið en víða annars staðar vegna þess að hér eru ekki járnbrautir. Og þar sem járnbrautir hafa sums staðar verið knúnar orkugjöfum sem koma úr sjálfbærum orkuverum hefur verið tilhneiging til að skattleggja umferðina með þeim hætti að beina þungaflutningum á járnbrautir sem teljast valda minni skaða. Þær eru ekki hér á landi og það er sérstaða okkar víðáttumikla lands miðað við fólksfjölda. Ég sé líka fyrir mér í framtíðinni atriði sem getur verið liður í umræðunni um þetta að hér á landi eins og annars staðar verði meira af einkafjármagni notað til vegagerðar án þess að draga úr sköttum á umferðina. Það þýðir að þeir skattar munu einkennast meira af vilja þjóðanna til að leggja á umhverfisskatta fremur en umferðarskatta því að auki yrðu þá menn að greiða fyrir tiltekin not á vegaköflum eins og t.d. ætlunin er að gera ef verður af Hvalfjarðargöngum. Þetta er gert í öðrum löndum eins og t.d. í Noregi og í Bretlandi eru þegar hafnar umræður um að setja í bíla rafeindakubba þannig að menn þurfi ekki að stoppa á tilteknum stöðum til að greiða slíkt gjald heldur sé hægt að haga málum þannig að menn aka bara fram hjá móttökutæki og eru svo rukkaðir einu sinni í mánuði eða einu sinni á ári fyrir notkun á vegunum og tefjast þess vegna ekki af þeim sökum.

Þetta eru allt atriði sem eru uppi og ég fagna því að hv. þm. sem er alþekktur umhverfissinni, ég ætla nú ekki að segja alræmdur en alþekktur er hann, það mætti kannski segja hvort tveggja, skilur að þetta eru atriði sem þarf að taka tillit til í þessu máli. Ég tel sjálfur að það sé til mikils gagns fyrir málið að koma gjaldinu í olíuna sjálfa. Það er besta ráðið til að koma í veg fyrir undanskotin og einnig til að draga úr notkun á orkugjafanum. Ég minni á að dísilbílar geta í vissum tilvikum verið betri kostur umhverfisins vegna en bensínbílar vegna þess að dísilvélar eyða mun færri lítrum en bensínbílarnir.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég ekki að hætta mér frekar út í þessa umræðu hér sem ég tel þó að hafi verið gagnleg og vel þess virði að eyða nokkrum mínútum á þinginu í umræður af þessu tagi. Ég þakka það sem ég kalla undirtektir við málið.