Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 17:55:13 (4582)

1996-04-11 17:55:13# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:55]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þau tvö frv. sem eru hér til umræðu byggjast, eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh. á þeirri niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, að gera athugasemd við álagningu vörugjalds.

Ég vil taka fram tvö atriði sem ég er sammála hæstv. fjmrh. um. Í fyrsta lagi að við þurfum að leysa það mál þannig að ekki komi til málshöfðunar á hendur Íslandi varðandi þá útfærslu okkar sem er í gildandi lögum. Það þarf að leysa. Í öðru lagi vil ég taka undir að ekki hefði komið til greina að fjármagna tekjutap ríkissjóðs vegna þessa með hækkun virðisaukaskatts. Þetta eru þau tvö atriði sem ég er sammála hæstv. fjmrh. um en síðan skilur á milli varðandi efnisatriði að öðru leyti í þessum frv.

Ég bendi á að til undirbúnings þessa máls sem hefur verið nokkuð lengi í gangi var settur á laggirnar starfshópur til að finna lausn á málinu. Hæstv. fjmrh. er fullkunnugt um það. Hv. alþm. hefur borist frá Samtökum iðnaðarins lýsing á ferli þeirrar vinnu og þar kemur mjög skýrt fram að starfshópurinn vann að einföldun og samræmingu á þessari gjaldtöku og tók þar mið af alþjóðlegri þróun. Í stað vörugjalds komi virðisaukaskattur. Það varð niðurstaðan í þessum starfshópi. Hins vegar má benda á að burt séð frá virðisaukaskattinum gerðu þeir ráð fyrir mun einfaldari útfærslu heldur en hér liggur fyrir.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. fjmrh.: Af hverju var ekki farið að tillögum starfshópsins og hverju svarar hann þeirri hörðu gagnrýni sem hefur komið fram frá Samtökum iðnaðarins? Ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, vitna beint:

,,Samtök iðnaðarins lýsa fullri andstöðu við þessi áform og skora á Alþingi að hafna þessum hugmyndum en lögfesta þess í stað þær tillögur sem víðtækt samkomulag hafði náðst um.``

Hér er verið að fjalla um hluti sem eru illa útfærðir. Eina ferðina enn kemur hæstv. fjmrh. með hugmyndafræði sem er ekki nógu góð og þá má benda á e.t.v. það veigamesta í þessu, því það er augljóst að við þurfum að ná inn 800 millj. kr. tekjum. Það er vandinn. Vandinn er 800 millj. kr. sem felst í því að við þurfum að mæta kröfum ESA. Þá er farin sú leið að breyta vörugjaldi úr verðgjaldi í magngjald. Þetta er mjög ámælisverð aðferðafræði vegna þess að eins og segir í greinargerð með frv. leggjast magngjöld af meiri þunga á ódýra vöru en dýra. Hér er verið að koma í veg fyrir að gerð séu hagkvæm innkaup og reynt að ná sem bestum kjörum fyrir Íslendinga með þessari aðferðafræði. Ég vil vitna til þess að Jóhannes kaupmaður í Bónus, sem hefur framar flestum öðrum lagt sig fram um að hafa ódýra vöru á boðstólum, telur þetta beinlínis spilla fyrir allri innkaupa- og verðlagningarstefnu og það er reyndar augljóst. Magngjöld eru þess eðlis. Þetta er ekki góð aðferðafræði.

Það segir líka í frv., og það víkur að hinu frv., að til að ná inn peningum til að mæta þessu þá er endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við húsnæði lækkuð. Þetta hefur hingað til að fullu verið endurgreitt en nú á að lækka endurgreiðsluna niður í 60% af virðisaukaskatti. Þessi útfærsla er enn meira ámælisverð, þ.e. tekjuöflunin, heldur en fyrra dæmið um að breyta magngjöldunum, breyta úr verðgjaldi í magngjöld en það er að hreyfa við endurgreiðslu á virðisaukaskatti á byggingarstað eins og þarna er gert ráð fyrir. Það er tvennt sem þar kemur til. Í álitsgerð frá Samtökunum iðnaðarins er bent á annað. Þar meta þeir það að þetta muni hækka byggingarvísitölu um 3--3,5% og ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur það verið metið hvaða áhrif slík hækkun á byggingarvísitölu hefur?

[18:00]

Annað sem tengist þessu er sýnu alvarlegra en það er að þetta mun leiða til aukinnar svartrar atvinnustarfsemi í tengslum við þessa útfærslu og ekki er á það bætandi að opna fyrir fleiri holur í skattkerfi okkar til að draga undan réttmætri skattlagningu hins opinbera. Það segir sig sjálft að þegar hlutfallið er orðið 60% í endurgreiðslu er aukin freisting að hækka þar reikninga til að fá hærri endurgreiðslu. Ég spyr hæstv. fjmrh. almennt í sambandi við eftirlit með endurgreiðslum á virðisaukaskatti í sambandi við vinnu manna á byggingarstað. Við þekkjum nýlegt dæmi um virðisaukaskattssvik í tengslum við útflutningsfyrirtæki, Vatnsberamálið svokallaða, þar sem mjög refsiverð starfsemi kom í ljós en einnig að eftirliti var mjög illa háttað. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvernig er eftirlit með þeirri endurgreiðslu sem hér á sér stað? Við erum að tala um að endurgreiðslur á árinu 1996 voru áætlaðar 1.100 millj. króna þannig að hér er ekki um neinar smátölur að ræða. Hér er verið að breyta, rýra endurgreiðsluna niður í 60% sem kallar á aukna svarta atvinnustarfsemi eins og reyndar er líka bent á í álitsgerð frá Samtökum iðnaðarins en liggur í augum uppi þegar menn hugsa um það mál.

Ég vil fá betri rökstuðning frá hæstv. fjmrh. fyrir þeirri útfærslu sem hann leggur til í þessum frv. vegna þess að þetta minnir á það að þarna hafi menn verið að reyna að berja saman tekjuöflun upp á 800 millj. Frv. nær reyndar ekki nema 450 millj. en það er ætlað að gera þetta í tveimur áföngum og það á síðustu stundu og reynt að finna einhvern þann skatt sem þeim fannst vera líklegur til að geta gefið það af sér.

Þessi þáttur tengist einnig húsbyggjendum. Þeir fá sem sagt minni endurgreiðslu sem þýðir að þeir munu greiða meira en nú er fyrir þá vinnu sem þeir þurfa að láta vinna. Það er ástæða til þess að hæstv. fjmrh. svari því til hvort hér endurspeglist loksins stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart húsbyggjendum því að mikið hefur verið talað um það og ég minnist þess í kosningabaráttunni að bæði flokkur hæstv. fjmrh. og ekki hvað síst Framsfl. voru býsna drjúgir að lofa úrbótum fyrir húsbyggjendur. Hér sjáum við úrræðin. Það eru minnkaðar endurgreiðslur til þessa hóps. Það er aukin skattlagning á húsbyggjendur og launafólk í landinu með þeirri útfærslu sem hér er lögð til. Hér endurspeglast stefna ríkisstjórnarinnar e.t.v. skýrar en nokkurs staðar annars staðar þegar hún leitar að breiðu bökunum. Hún finnur þau í þessu dæmi mjög skýrt hjá launafólki og húsbyggjendum. Vitaskuld, herra forseti, hefði mátt hugsa sér að spara því það þarf að ná inn þessum 800 millj., í ríkisrekstri á einhvern hátt eða finna nýja tekjustofna. Ef hæstv. fjmrh. er í vandræðum bendi ég honum á það að samkvæmt fjárlögum verjum við 6 milljörðum í landbúnaðarmál. Þar er borð fyrir báru. Við verjum 6 milljörðum í vegamál. Ég tel þar persónulega borð fyrir báru. Sjálfsagt eru ekki allir sammála um það. Við gætum hugsanlega tekið upp veiðileyfagjald sem við höfum lagt tillögur um sem gæti gefið eitthvert smáræði. Kannski ættum við að drífa í því að lögbinda vel útfærðan fjármagnstekjuskatt sem gæti gefið tekjur í ríkissjóð í stað þess að koma með svona skítaskatt eins og skattar sem voru kallaðir sem ekki þrauthugsaðir. Það hefði þá verið nær í þessari útfærslu.

Annað sem tengist þessu máli þarf líka að skoða. Við erum að lækka vörugjöld, gerum það með tiltekinni útfærslu og það kemur ákveðnum einstaklingum til góða. Vörugjöld eru lækkuð á tilteknum flokkum. Ég ætla ekki að fara út í þá tæknilegu útfærslu sem þarna er. Síðan er fjármögnunin eins og ég hef rakið gerð með því að minnka endurgreiðslu til húsbyggjenda. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort þetta er sami hópurinn. Hvað getur hann sagt mér um það? Er það sama fólkið, sami hópurinn sem er að fá lækkunina og þarf líka að bera hækkun sem er í sjálfu sér ekkert ósanngjarnt ef menn finna þá leið í því að útfæra það mál þannig að það lækki og hækki á sama aðila. Ég er býsna hræddur um að í þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin leggur fram séu lagðar auknar byrðar einmitt á það fólk sem e.t.v. má síst við því og stendur margt í þeim erfiðleikum varðandi fjármál sín sem tengjast húsnæðismálum. Það er náttúrlega alvarlegt á brot á þeim þáttum sem menn lofuðu fyrir síðustu kosningar.

Ég vil einnig gera síðari áfangann að umtalsefni því að þetta frv. er bara 450 millj. kr. útfærsla eins og fjmrh. veit. Hann á eftir að ná í 350 millj. til að klára dæmið gagnvart ESA. Það er inni í þessu 350 millj. sem á að ná með endurskipulagningu á tryggingagjaldi. (Fjmrh.: Það hefur ekkert með ESA að gera.) Gott, hefur ekkert með ESA að gera. Ég trúi ráðherra fullkomlega varðandi þann þátt. Hins vegar kemur fram í frv. að ríkisstjórnin stefnir að frekari lækkun vörugjalda um 350 milljónir króna í tengslum við samræmingu á tryggingagjaldi á milli atvinnugreina sem ríkisstjórnin mun undirbúa á næstunni og koma mun til framkvæmda á næstu árum. Þetta var bein tilvitnun í grg. frv. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. skýrði betur þetta skref vegna þess að Samtök iðnaðarins hafa m.a. mótmælt harðlega þessum síðari áfanga og gera það með því orðalagi að leggjast gegn hækkun á tryggingagjaldi og telja það vera í andstöðu við fyrri loforð. Ég ætla ekki að vitna nákvæmlega í það. Hæstv. fjmrh. þekkir þá gagnrýni og ég bið hæstv. ráðherra um að skýra betur út með hvaða hætti þessi áfangi kemur hér inn og hvernig þær breytingar á tryggingagjaldi verði gerðar og hvort að það séu þá uppi hugmyndir um að samræma gjaldið milli allra atvinnuvega hér eða með hvaða hætti sú úrfærsla á sér stað því að vitaskuld verður að ræða það í sambandi við þetta frv.

Herra forseti. Ég gat um í upphafi að það þyrfti að afgreiða þetta mál. Að vísu er hæstv. fjmrh. búinn að dengja það mörgum málum á hv. efh.- og viðskn., bæði í dag og reyndar áður, að sjálfsagt verður erfitt að verða við öllum óskum ráðherra en ég tek undir með honum að við getum ekki gengið frá þingi án þess að búið sé að leysa það mál. Hins vegar hefði ég kosið, herra forseti, að málið hefði fengið betri skoðun áður en það hefði verið lagt fram. Ég tel að mörgu í þessari útfærslu sem athugasemd ESA hefur í för með sér sé mjög ábótavant, magngjaldið, sem ég hef gert að umtalsefni, virðisaukaskattsbreytingin, sem kallar á meiri skattsvik og er íþyngjandi fyrir þá sem síst mega sín. Ég treysti því að hæstv. fjmrh. yrði þá opinn fyrir því að menn reyndu að finna betri útfærslu sem yrði þá líka meiri sátt um við þá aðila sem eiga m.a. að starfa eftir þessum nýju reglum. Ég legg áherslu á það líka að ekki verði mælt með hækkun virðisaukaskatts vegna þess að það tel ég ekki góða aðferðafræði þótt svo að starfshópurinn hafi lagt það til. Eins og ég gat um áðan bý ég yfir fjölmörgum hugmyndum um sparnað í opinberri þjónustu og þá nýja skattstofna ef menn vilja skoða það út frá þeim en þeir eru væntanlega ekki í anda hæstv. fjmrh. En þetta er eitt málið í viðbót frá honum sem getur ekki orðið að lögum í þessu formi.