Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:21:12 (4591)

1996-04-11 19:21:12# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:21]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. reyndi að svara nokkrum af þeim spurningum sem var beint til hans en ég vil vekja athygli á þremur atriðum. Það liggur fyrir álit um að byggingarvísitala gæti hækkað um 3-3,5%. Ég vek athygli á því að sé þetta rétt, og er þá fyrsta verk nefndarinnar að gera á þessu ítarlega könnun, hefur það geysivíðtækar afleiðingar í okkar hagkerfi. Miklu meira en hér er hægt að lýsa í stuttu máli. Þetta er ein af meginröksemdunum fyrir vondri aðferðafræði við þetta frv.

Annað er að lækka endurgreiðsluna niður í 60%. Það er ekki bara að það muni hvetja menn til að taka upp nótulaus viðskipti. Það mun líka hvetja menn til að hækka upp reikninga til að fá meiri endurgreiðslu, öll ,,trikkin`` eru til. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á að á meðan talið er að 11--14 milljarðar tapist vegna skattsvika er alveg út í hött að búa til fleiri holur í það kerfi eins og hér er gert ráð fyrir.

Í þriðja lagi eru það magngjöldin. Hæstv. ráðherra tók undir það þegar ég benti á galla þess að hækka magngjöld. Það stuðlar einfaldlega að hækkuðu vöruverði í landinu. Allt þetta kemur niður á launafólki. Vöruverð hækkar, það er gengið að þessu fólki varðandi húsnæðismálin með lækkun á endurgreiðslu og því er íþyngt með því að hækka byggingarvísitölu sem hefur áhrif á lánskjör og lánveitingar. Þetta er fráleit aðferðafræði og það þýðir ekki, hæstv. fjmrh., að skjóta sér á bak við tillögu nefndarinnar. Þetta er stjfrv. sem hann ber fulla ábyrgð á. Mér er alveg sama hvaða starfshópur leggur til einhverja vitleysu. Það er ekkert réttara fyrir það, alveg sama hvort að því koma menn úr Vinnuveitendasambandinu, iðnaðinum eða launþegasamtökunum. Það verður ekkert réttara í mínum huga fyrir það. Hér er slæm aðferðafræði á ferðinni.

Ég vil að lokum benda á, eins og ég gerði fyrr í dag, herra forseti, að þessi umræða er satt best að segja til skammar. Við erum að ræða háflókið mál og það er enginn viðstaddur nema hæstv. fjmrh. Það er enginn úr efh.- og viðskn., aðeins þrír stjórnarandstæðingar sem eru vel inni í málinu. Formaður hv. nefndarinnar hefur ekki sést hér í þinginu í allan vetur. Þessi vinnubrögð ganga ekki. Ég er seinþreyttur til vandræða varðandi svona mál en nú er mér nóg boðið. Ég tók vel í það að reyna að afgreiða þetta mál því ég sé álitshnekki blasa við okkur en þegar virðingarleysið er með þessum hætti er ekki nokkur ástæða til að reyna að greiða götu þessa máls eða annarra fyrir hæstv. ríkisstjórn.