Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:31:23 (4595)

1996-04-11 19:31:23# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:31]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er loksins ljóst hver er niðurstaða þessarar umræðu. Hún minnir á eina af frægu þöglu myndunum hjá Chaplin. Sú mynd byrjaði þannig að fegurðardrottning myndarinnar kom fram á svolítið rifnu kjólgopafati og textinn sagði: ,,Everything in my life is second hand.`` Allt í mínu lífi er notað og nýtt. Það er eins í lífi hæstv. fjmrh. greinilega, hann staðfesti það: Ég á eiginlega ekkert í þessu. Þetta er allt saman ,,notað og nýtt``, frá öðrum komið.

Að því er varðar spurninguna um frumkvæði hæstv. fjmrh. sjálfs fyrir utan að vera fórnarlamb einhverra annarra afla þá minni ég hann á að ef við hefðum nú komið hér að ónumdu landi, eins og er t.d. að gerast sums staðar í löndunum í kringum okkur og þá er ég með í huga land eins og Eistland, mundum við alls ekki hafa skattkerfið á Íslandi eins og það er. Eistar eru að búa sig undir að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Þeir hafa leitað víða fanga að góðu skatt- og tollakerfi og niðurstaða þeirra er þessi: Þeir hafa enga tolla. Þeir hafa engar niðurgreiðslur og enga ríkisstyrki. Þeir hafa einfalt 29% tekjuskattskerfi í einu þrepi og þeir hafa einfaldan virðisaukaskatt 14% undanþágulausan á breiðum stofni. Ég er alveg sannfærður um að ef hæstv. fjmrh. beitti sér af alefli innan ríkisstjórnarinnar og af því að hann hefur haft svo góðan tíma, fimm ár, til þess að móta þróun skattkerfisins, væri hann í hjarta sínu alveg sannfærður um að það kerfi sem við höfum er í allt of ríkum mæli orðið eins og gömul flík, notað og nýtt, með bótum héðan og þaðan og skemmdarverkum frá hinum og þessum sérhagsmunaaðilum. Ef við vildum raunverulega koma upp skilvirku og einföldu skattkerfi, mundum við ekki hafa það eins og það er.