Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:33:49 (4603)

1996-04-12 10:33:49# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:33]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þessa viku hefur farið fram að mestu leyti 1. umr. um stjórnarfrumvörp. Í gær voru rædd málefni fjmrn. frá kl. hálfellefu til tæplega átta í gærkvöldi, flókin mál og sum mjög brýn. Stjórnarþingmenn sinntu þessari umræðu nær ekkert. Þannig var, herra forseti, tímunum saman auk stjórnarandstæðinga aðeins hæstv. fjmrh. í salnum og í umræðunni. Þetta eru algjörlega óviðunandi vinnubrögð. Við 1. umr. eru dregnar fram útlínur mála, spurningum varpað fram og ábendingar gefnar fyrir nefndarstarf. Nær allan tímann í gær var enginn stjórnarsinni í salnum úr hv. efh.- og viðskn. sem fær málin til meðferðar. Það greiðir ekki fyrir störfum í nefndum þegar nefndarmenn stjórnarliðsins vita nær ekkert um 1. umr. málsins. Í gær voru nokkrir stjórnarþingmenn við upphaf umræðunnar en síðan hurfu þeir allir þegar á leið utan hæstv. fjmrh.

Ég veit að hæstv. fjmrh. getur staðfest að hér var um málefnalega umræðu að ræða og ekkert málþóf. Stjórnarandstaðan var vel undirbúin. Með þessum vinnubrögðum eru stjórnarþingflokkarnir að sýna stjórnarandstöðunni lítilsvirðingu svo og sinni eigin ríkisstjórn. En það sem verst er: Stjórnarliðar eru að sýna hinu háa Alþingi lítilsvirðingu.

Það er skylda þingmanna og þingflokka að taka þátt í störfum þingsins en vitaskuld er verkaskipting þannig að í það minnsta ættu einn til tveir úr hverjum þingflokki auk einhverra nefndarmanna úr viðkomandi fagnefnd að fylgjast með og taka þátt í umræðunni, einkum þar sem hér er um stjórnarfrumvörp að ræða. Mér reyndari þingmenn hafa sagt að þetta hafi aldrei verið eins slæmt og núna í vetur. Þingmenn ríkisstjórnarinnar eru einfaldlega ekki að stunda sína vinnu og lítilsvirða þing og þjóð. Þessi framkoma, herra forseti, er ekki til þess fallin að greiða fyrir vandaðri umfjöllun við lagasetningu á hinu háa Alþingi. Ég fer þess á leit við hæstv. forseta að forsætisnefnd og formenn þingflokka verði kallaðir saman og ræði þessi mál.