Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:42:34 (4607)

1996-04-12 10:42:34# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:42]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða um fjarveru þingmanna á þingfundum og það er að sjálfsögðu ekki nýtt umræðuefni á hv. Alþingi. En ég get sagt það að mér finnst það í sjálfu sér sanngjörn ósk að mælast til þess að þingmenn sitji betur þingfundi og þá sérstaklega þeir hv. þm. sem sitja í viðkomandi fagnefnd. Og ef það gæti orðið til þess að greiða fyrir þingstörfum, þá er ég tilbúin til að beita mér fyrir því að vinna að því í mínum þingflokki að svo verði.

Ég tek þó undir ýmislegt af því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl., Guðjóns Guðmundssonar, að þær aðstæður eru fyrir hendi hér á hv. Alþingi að það er hægt að fylgjast með umræðum héðan án þess að vera í þingsalnum og mér er kunnugt um að ýmsir gera það. Svo vil ég líka benda á það að auðvitað geta þingmenn lesið umræður síðar áður en umfjöllun hefst í viðkomandi nefnd.

Ég vil hins vegar mótmæla því sem fram kom í upphafi í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar að þingmenn stundi ekki sína vinnu. Það finnst mér að við eigum ekki að tala um hér því að við vitum það öll, að við vinnum mikið og erum að stunda okkar vinnu þó að við sitjum ekki í þingsalnum.