Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:53:43 (4612)

1996-04-12 10:53:43# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:53]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta er að mörgu leyti gagnleg umræða sem hér fer fram. Ég held að hún leiði til niðurstöðu um eitt atriði, sem allir geta verið sammála um, það er góð vinnuregla hér að viðkomandi nefndarmenn sitji í salnum á meðan þau mál eru rædd sem heyra undir þeirra nefndir. Ég held að allir geti verið sammála um þetta og ég tek undir að það ætti að vera vinnuregla.

Ég var á vettvangi í gær og var að bíða eftir að fjáraukalög kæmu fyrir. Þau komust að vísu ekki á dagskrá, en ég tek undir að það var ansi fámennt hérna. Ég vil eigi að síður vara við því að það komist út til þjóðarinnar að menn séu ekki að vinna þó þeir séu ekki í salnum. Það er ljóst að menn eru að ýmsum störfum. (JBH: Að skrifa leiðara í Tímann, ég tek undir það.) Jú, hv. þm. þekkir það sem gamall ritstjóri að menn nota ýmsar stundir til þess að skrifa langar greinar með smáu letri eins og áramótagrein hv. þm. var. Hann er mikill afkastamaður á því sviði. (GÁ: Það er misjafnt að gæðum.) Gæðin eru misjöfn auðvitað en hann er vel skrifandi.

Ég vil vara við því að það komist út til þjóðarinnar að menn séu ekki að vinna þó að þeir séu ekki hér inni, en ég vil taka undir eigi að síður að viðkomandi nefndarmenn fylgist með þeim málum sem undir þá heyra.