Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 11:41:46 (4618)

1996-04-12 11:41:46# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[11:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir framlagningu þessa frv. til lögreglulaga og reyndar einnig þess frv. sem líka er á dagskrá um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála.

Hér er á ferðinni mjög umfangsmikið mál sem felur í sér viðamiklar breytingar á skipulagi lögreglumála. Hér er um að ræða mjög róttækar breytingar og mjög mikilvægt að vel sé vandað til þessarar lagasetningar og að hv. Alþingi og þingmenn geri sér sem best grein fyrir áhrifum af þessari breytingu. Það er ljóst og kom reyndar fram í þessum ræðustól hjá síðasta hv. þm., stjórnarþingmanni, að ekki er alls kostar sátt um þetta mál milli stjórnarliða og greinilegt að enn greinir á um ýmis efnisatriði þessa frv. Og eftir því sem ég best veit er ekki sátt um þetta mál innan lögregluyfirvalda, en það er mikilvægt að málið fái ítarlega skoðun vegna þess að í frv. eru mjög mikilvæg ákvæði sem ég tel að horfi til bóta.

Frumvarpið er því allrar athygli vert og markmiðin sem að er stefnt eru skynsamleg. Ekki síst nefni ég það markmið að gera rannsóknir afbrota hraðari og skilvirkari og að ferill mála á rannsóknar- og ákærustigi verði einfaldaður. Þar nefni ég ekki síst til ýmis efnahags- og skattalagabrot, en í því skyni að gera rannsóknir á skattsvikamálum skilvirkari og hraðari og sektarmeðferð vegna slíkra brota áhrifaríkari hef ég á undanförnum árum flutt ýmis þingmál, m.a. um að komið yrði á fót sérstökum skattsvikadómstól er einbeitti sér að skatta- og bókhaldsbrotum og nú á þessu þingi hef ég flutt þáltill. ásamt hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur um sérstakan ákæranda í efnahagsbrotum.

Í frv. um meðferð opinberra mála er vísað til þeirrar þáltill. sem við höfum flutt og þar segir að með breytingum sem lagðar eru til í frv., þ.e. frv. til laga um meðferð opinberra mála, sé lagður grundvöllur að þessari sérstöku saksóknarastöðu og því væntanlega ekki þörf á sérstöku embætti ákæranda í efnahagsbrotum. Það er vissulega rétt, að það er að nokkru leyti komið til móts við þau sjónarmið sem við hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir höfum sett fram í þessu máli, en ég tel það alls ekki vera fullnægjandi og vil gera grein fyrir ástæðum þess í þeirri von að sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar skoði þetta sérstaka atriði sem ég ætla að gera grein fyrir.

Ástæður þess að við lögðum til þessa breytingu eru margar, m.a. að baráttan við efnahagsbrotin hefur verið alþjóðleg hin síðari ár og reyndin í öðrum löndum verið sú að hinar hefðbundnu leiðir refsivörslukerfisins hafa ekki dugað og hefur þurft að fara aðrar leiðir. Víða í löndunum í kringum okkur hefur verið talin sérstök þörf á aðgerðum til að takast á við efnahagsbrotin, svo sem með virkari og sérhæfðari löggæslu, sérþjálfuðum löggæslumönnum og ákærendum og sérstakri þjálfun dómara, greiðari upplýsingasamskiptum hjá yfirvöldum sem við málin fást, hraðari málsmeðferð og hertum refsingum. Hér á landi er reyndin hin sama og annars staðar að refsivörslukerfið hefur ekki tekið á þessum brotum sem skyldi þrátt fyrir aukinn áhuga á þeim í seinni tíð. Það var vegna þessa að við settum fram tillöguna um sérstakan ákæranda í efnahagsbrotum.

[11:45]

Með tillögunni var markmiðið að skapa meiri og skýrari almenn varnaðaráhrif gegn skattsvikum og að ríka nauðsyn beri til til að málsmeðferð skattsvikamála verði sýnilegri en verið hefur og sæti í miklu ríkara mæli opinberri meðferð. Það er margt sem þykir mæla með að ákvörðun um saksókn verði tekin fyrr en verið hefur með því að hafa ákæruvald og rannsókn á sömu hendi í slíkum málum, enda krefst hvort tveggja mikillar sérþekkingar vegna flókins eðlis brotanna. Það finnst mér ekki koma nægilega skýrt fram í þessum frumvörpum tveimur að varðandi efnahagsbrotin sé ákæruvaldið og rannsókn á sömu hendi og hefði ég viljað fá það skýrar fram en mér sýnist að fram komi í frv. Ég tel þó að efnahagsbrotin og skattalagabrotin fái ákveðna vigt í frv. og komi vissulega til móts við þau sjónarmið sem sett voru fram í þáltill. okkar hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur með því að ríkislögreglustjóra verði falið ákæruvald með skatta- og efnahagsbrotum og dómsmrh. fái heimild til að skipa sérstakan saksóknara við embætti ríkislögreglustjóra til þess að annast rannsókn og málflutning slíkra mála.

Það er mín skoðun að heppilegra hefði verið að fela skattrannsóknarstjóra ákæruvaldið í þessu efni. Ég rökstuddi það nokkuð þegar við vorum að ræða þessa umræddu tillögu. Við bentum á það í okkar þáltill. að það væri ekki markmiðið í sjálfu sér að koma á sérstöku nýju embætti ákæranda í efnahagsbrotum. Markmiðið væri að gera alla rannsókn hraðari og skilvirkari og að rannsókn og ákæruvald væri á sömu hendi.

Við höfum sett á fót embætti skattrannsóknarstjóra sem á að hafa með hendi og hefur með hendi skattrannsóknir. Ég hygg að flestir séu um það sammála að starf þessa sérstaka embættis, sem einbeitir sér að skattsvikamálum, hefur gefist mjög vel og ég tel að eðlilegra hefði verið að fara þá leið að fela því embætti ákæruvaldið að því er varðar skattsvikamálin.

Ég vil nefna það og hef reyndar gert það áður að ég tel að reynslan sýni að á mörgum undanförnum árum hefur verið valin sú leið að senda flest mál til meðferðar yfirskattanefndar, en ekki til opinberrar meðferðar dómsmála. Það eru tiltölulega fá, og til um það tölur, skattsvikamál sem hafa verið send til opinberrar rannsóknar og til dómsmála, en yfirleitt er þeim lokið hjá yfirskattanefnd með venjulegri sektarmeðferð. Það er eðlilegra að kveða á um í lögum að meginreglan sé sú að skattsvikamál sæti opinberri rannsókn. Það má ætla að miklu fleiri mál en æskilegt hafi verið á umliðnum árum hafi verið send til einfaldrar sektarmeðferðar en ekki til opinberrar meðferðar dómstóla. Ég sé ekki að á þessu verði nein breyting með þessu umfangsmikla frv. að því er þetta sérstaka atriði varðar, sem ég tel brotalöm, að ekki skuli fleiri skattsvikamál sæta opinberri rannsókn. Og ég spyr hæstv. dómsmrh. um hvort það sé rétt að þau ákvæði sem kveðið er á um í þessum tveimur frumvörpum sem hann mælir fyrir hafi nokkur áhrif á það að fleiri skattsvikamál verði send til opinberrar rannsóknar heldur en verið hefur.

Varðandi frv. til lögreglulaga í heild sinni, þá nefndi ég í upphafi máls míns að ég teldi mikilvægt að þingmenn gerðu sér grein fyrir hvaða áhrif frv. hefur. Það er verið að leggja niður Rannsóknarlögreglu ríkisins og eins og segir á bls. 13: ,,Þar sem stærsti hluti þeirra rannsókna sem Rannsóknarlögregla ríkisins hefur farið með tengist umdæmi lögreglustjórans í Reykjavík er fyrirsjáanlegt að verkefni embættisins munu stóraukast.`` Síðan er talað um að leitast verði við að flytja til stöðugildi í samræmi við tilflutning verkefna.

Síðan segir að því er þennan þátt varðar, það er reyndar í frv. um meðferð opinberra mála en þetta tengist þannig að ég tel rétt að vitna í það, með leyfi forseta: ,,Embætti ríkislögreglustjóra eru ekki ætlaðar lögreglurannsóknir í sama mæli og Rannsóknarlögreglu ríkisins.`` Því velti ég því fyrir mér hvort það hafi farið fram fagleg úttekt á því hvaða áhrif þessar breytingar hafi, þessi mikla tilfærsla á verkefnum, hvað snertir þörf á stöðugildum. Mér sýnist að miðað við þau stórauknu verkefni sem lögreglustjóranum í Reykjavík er ætlað með niðurlagningu á verkefnum Rannsóknarlögreglu ríkisins, þá séu þau nýju stöðugildi sem Rannsóknarlögreglan fær í engu samræmi við þau verkefni sem lögreglan í Reykjavík á að fá. Hér er um að ræða ef ég man rétt 21 stöðugildi sem kemur þarna til viðbótar og um 58 millj. sem koma í hlut lögreglunnar í Reykjavík með þessum tilfærslum sem fer að verulegu leyti líka í launakostnað. Ég spyr hæstv. dómsmrh. hvort hann óttist það ekki þar sem rannsóknirnar eiga að vera áfram hjá lögreglustjóranum en ekki ríkislögreglustjóranum í sama mæli og Rannsóknarlögreglan hefur haft, hvort hann óttist ekki að þetta muni rýra verulega rannsóknarþáttinn sem lögreglustjóraembættið hefur haft með höndum og mun aukast enn með því að Rannsóknarlögreglan er lögð niður.

Þess vegna spyr ég: Hefur verið gerð fagleg úttekt á þessu? Ef svo er: Hverjir gerðu það? Hverjir lögðu mat á þessa tilfærslu á stöðugildum? Mér sýnist t.d. að það sé vel í lagt varðandi þetta nýja embætti ríkislögreglustjóra sem á að fá samtals 126 millj. kr. í sinn hlut og þar er talinn upp fjöldi stöðugilda sem koma í hlut ríkislögreglustjóra og sýnist mér þar mjög vel í lagt t.d. miðað við hlut lögreglunnar í Reykjavík. Það er því ástæða til að spyrja hvort þessi faglega úttekt hafi farið fram og hverjir hafi þá lagt mat á það. Ég held að nefndin sem fær þetta til skoðunar þurfi að skoða þennan þátt sérstaklega, hvort vægið að því er varðar mannaflann í heild hjá lögreglunni sé rétt og eðlilega skipt á milli þessara embætta.

Síðan er rætt um það í umsögn fjmrn. að þessu nýja embætti sé ætlað að taka við ýmsum verkefnum sem fram til þessa hafa heyrt undir löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Er hugmyndin þá að fækka eitthvað í dómsmrn.? Ég hef ekki fundið svar við því í þessari umsögn. Athugasemd mín lýtur að því, virðulegi forseti, að ég tel að ekki hafi verið gaumgæft eins og skyldi hvernig þeim mannafla sem við höfum yfir að ráða almennt til lögreglumála í landinu sé rétt og eðlilega skipt milli þessara embætta og tel ástæðu til að spyrja ráðherrann að því sérstaklega.

Í lokin vil ég spyrja um 11. gr. frv. sem ég tel mjög mikilvæga. Þar er talað um að lögregla og önnur stjórnvöld og stofnanir skuli hafa gagnkvæmt samstarf varðandi verkefni sem tengjast löggæslu, svo sem forvarnir. Sérstaklega skal lögregla vinna með félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra. Þetta tel ég mjög mikilvægt, að skipulögð samvinna sé í gangi milli þessara aðila, ekki síst, svo ég nefni mikilvægt dæmi, að því er varðar fíkniefnamálin. Ég spyr hæstv. dómsmrh. að því af því mér finnst það ekki koma fram í þessu frv. og hefði viljað sjá það skýrar í frv. sjálfu hvernig skipulagi á slíku samstarfi eigi að vera háttað, hvort það sé þá líkt og verið hefur eða hvort hér séu fyrirhugaðar einhverjar breytingar á þessari samvinnu og skipulagi hennar sem ég tel mjög mikilvæga.

Virðulegi forseti. Það er ekki tími til að ræða ítarlega um þetta umfangsmikla mál. Ég kaus að drepa á þeim helstu atriðum sem komu upp í huga minn eftir að hafa lesið þetta frv. yfir. Ég á sæti sem áheyrnarfultrúi í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar og þar mun ég þá frekar koma mínum athugasemdum á framfæri. En ég vænti þess að hæstv. dómsmrh. svari þeim spurningum sem ég hef fyrir hann lagt í þessari umræðu.