Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 13:01:28 (4623)

1996-04-12 13:01:28# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[13:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka stuðning minn við þær meginbreytingar sem er að finna í frv. Ég þakka líka hæstv. ráðherra fyrir afar greinargóð svör. Hann svaraði flestum þeim atriðum vel sem til hans var beint og það greiðir auðvitað fyrir framgangi þessa máls. Það er eitt atriði sem ég vil hnykkja sérstaklega á sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Það varðar 32. gr. sem fjallar um aukastörf lögreglumanna. Nú er það ljóst að stuðningur við frv. helgast m.a. af því að ekki verði gengið á rétt löggæslumannanna eins og hann er nú. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að hæstv. ráðherra tók undir að sérstakar aðstæður væru hér á landi og öðruvísi en í öðrum löndum. Þess vegna kæmi það mjög til greina að þingnefndin skoðaði málið sérstaklega. Ég tel að hæstv. ráðherra sé með þessu að lýsa því yfir að það komi vel til greina að fallast á það af hálfu meiri hlutans að þessu verði breytt. Ég vísa til þess, herra forseti, að það var gerð könnun hjá nokkrum deildum lögregluliðsins í Reykjavík. Þar kom í ljós að á síðustu tveimur árum hafði meiri hluti lögreglumannanna haft með höndum einhvers konar aukastörf og það voru nokkrir sem höfðu meiri hluta sinna tekna af slíkum störfum. Ég held að ef þessu yrði breytt eins og hér er lagt til og mér finnst afleitt, þá mundi það leiða til þess að margir mundu væntanlega hrökklast úr starfi, leita sér viðfangs annars staðar og að reikningur ríkisvaldsins af því yrði nokkuð hár vegna þess að það tekur tvö kostnaðarsöm ár að mennta nýja lögreglumenn.

Herra forseti. Er þetta sú grein frv. sem er hvað nauðsynlegast að við tökum upp og breytum? Ef það tekst bærilega er ég sannfærður um þetta frv. mun fara með fljúgandi byr hér í gegn.