Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 14:30:37 (4632)

1996-04-12 14:30:37# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er afskaplega ánægður yfir því frv. sem hér liggur frammi og ánægður með þessa umræðu. Enn meira gleðst ég þegar ég horfi yfir þennan sal og sé hann þéttskipaðan góðum þingmönnum sem allir hafa mikið vit á þessum málum. Sérstaklega gleðst ég yfir að sjá hér menn eins og hv. þm. Hjálmar Árnason og ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er staddur hér einhvers staðar nálægt þessum þingsal. Það vantar eiginlega engan nema hæstv. forsrh. til að kórinn sé kominn hér allur sem núna syngur fyrir dyrum hæstv. sjútvrh.: Aukum kvótann. Það er ekki hægt að ræða hér frv. um stjórn fiskveiða öðruvísi en að það knýjandi mál sé með einhverjum hætti tekið inn í þá umræðu eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði með réttu.

Það hafa gengið gusurnar yfir hæstv. stjútvrh. sökum þess kjarks sem hann hefur sýnt með þessu frv. Þeir sem áður voru honum harðastir haukar í horni reyna nú að kroppa hann í hælana vegna þess að hann hefur tekið þetta frumkvæði. Það er hins vegar svo að við erum stödd á sérstökum tímum. Nú eru ekki nema örfáir dagar sem lifa þar til upp rennur 15. apríl, síðasti dagurinn samkvæmt gildandi lögum um stjórn fiskveiða sem hæstv. stjútvrh. getur notað til að breyta kvótanum.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það eru merk pólitísk tíðindi þegar það gerist að fjórir hv. þm. stjórnarliðsins ganga fram fyrir skjöldu, ekki bara hér í þinginu heldur hasla þeir sér vettvang í fjölmiðlum, til að lýsa því yfir að þeir séu ósammála stefnu hæstv. sjútvrh. varðandi úthlutun aflaheimilda, þeir séu ósammála því að ekki verði farið í að auka heildarkvóta í þorski. Þó keyrir um þverbak þegar hæstv. forsrh. bókstaflega gefur hæstv. sjútvrh. fyrirmæli um það í Morgunblaðinu í dag að nú sé kominn tími til að auka kvótann. Það er óhjákvæmilegt sökum þeirrar hefðar sem skapast hefur innan ríkisstjórnarinnar að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann hyggist ekki verða við skipunum hæstv. forsrh. Við höfum á allra síðustu tímum séð það rifjað upp í fjölmiðlum að hæstv. forsrh. hefur skapað vinnuhefð. Hann segir einfaldlega við sína ráðherra: Annaðhvort hlýðið þið því sem ég vil eða þið getið tekið pokann ykkar og hunskast. Það var efnislega það sem hann sagði við hæstv. fjmrh. eins og rakið var í einu dagblaðinu í gær. Það er óhjákvæmilegt annað en að þetta mál verði með einhverjum hætti til lykta leitt. Það er ekki hægt að búa við þá óvissu sem ríkir í þessu máli þegar stjórnarliðið er búið að skapa væntingar um að það sé samstaða í þeirra hópi um að auka kvótann. Þetta skiptir miklu máli fyrir atvinnugreinina. Þegar menn sem eiga sæti í sjútvn. fyrir stjórnarliðið og sjálfur hæstv. forsrh. talar með þessum hætti er það beinlínis skylda hæstv. sjútvrh. að taka af skarið.

Ég tel rétt í upphafi þessarar umræðu, herra forseti, að greina frá því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur farið fram á við hæstv. sjútvrh. að efnt verði til utandagskrárumræðu um það hvort hann hyggist auka þorskkvótann. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson óskaði eftir þeirri umræðu í dag. Hæstv. ráðherra færðist undan því sökum þess að hann átti eftir að hafa lögboðið samráð við hagsmunaaðila og á því er fullur skilningur innan þingflokks Alþfl. En þessi umræða fer fram á mánudaginn. Ég tel að rétt sé að það komi fram að hæstv. sjútvrh. hefur fallist á hana og hún mun verða um þetta mál. Á þeim degi eru síðustu forvöð fyrir hæstv. sjútvrh. að taka ákvörðunina sem ég tel þó að hæstv. forsrh. sé að mestu leyti búinn að taka fyrir hann. Hins vegar tel ég líka nauðsynlegt að þeir hv. þingmenn sem hafa kvatt sér hljóðs opinberlega um þessi mál geri grein fyrir sínum skoðunum í þessu efni. Þeir geri t.d. grein fyrir því hvort þeir muni styðja þá tillögu sem hluti stjórnarandstöðunnar, tveir hv. þm. Alþb., hafa lagt fram og verður mælt fyrir hér síðar í dag um að auka þennan frest þannig að hæstv. sjútvrh. geti þá e.t.v. yfirvegað málið lengur ef hann kýs. Enda eru mörg rök sem hníga að því að sá frestur verði lengdur eða afnuminn enda er þorskur eina tegundin sem um gilda sérstök tímaákvæði. Ég tel líka nauðsynlegt að hv. þm. Hjálmar Árnason komi og skýri mál sitt út fyrir okkur en við höfum fylgst með því af mikilli athygli í fjölmiðlum síðustu daga. Hann hefur t.d. lýst því yfir að það eigi að auka kvótann um 10 þús. tonn. Ég hygg að ég standi hv. þm. e.t.v. jafnfætis í þeim fræðum sem lúta að fiskum og ég er honum ekki ósammála um þetta. En það er auðvitað nauðsynlegt að hann leggi fyrir okkur hvernig stendur á því að hann kýs töluna 10 þús. tonn.

Þetta er annars orðið bögglauppboð hjá hæstv. ríkisstjórn því annar þingmaður, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem auðvitað tekur hv. þm. Hjálmari Árnasyni fram að öllu leyti eins og sést á því að hann hefur boðið 40--50 þús. tonn. Hins vegar hefur hv. þm. Hjálmar Árnason ákveðna framtíðarsýn vegna þess að hann er búinn að bjóða 40--50 þús. tonn á næsta ári ofan á 10 þús. tonnin. Þá á hv. þm. Hjálmar Árnason bara eftir að skýra af hverju hann telur að þessi 10 þús. tonn sem hann boðar núna séu nægileg tugga upp í bátaflotann sem hann kallar gleymdu skipin, gleymda flotann. Það voru nefnilega hv. þm. Hjálmar Árnason og félagar hans í Reykjanesi sem sögðu fyrir kosningarnar að togaraflotinn ætti bara að fá 15% en afganginn ætti bátaflotinn og ísfiskflotinn að fá. Þetta er óhjákvæmilegt finnst mér að komi fram við þessa umræðu.

Þessi umræða hefur spunnist að verulegu leyti vegna þessa frv. sem hefur komið fram úr samráði milli hæstv. sjútvrh. annars vegar og hins vegar Landssambands smábátaeigenda. Útgerðarmenn víða um land hafa sýnt og sannað síðustu daga að þeir eru sennilega best skipulagði smáþrýstihópurinn og sá öflugasti í landinu. Þeim hefur tekist að gera gríðarlegan usla með fundarhöldum og ályktunum. En þó er að sjá að hæstv. sjútvrh. hafi nú ekki undan látið gagnvart þeim hvað svo sem verður þegar hæstv. forsrh. fer að taka á honum með heildarkvótann. Staðreyndin er hins vegar sú að það frv. sem hér liggur fyrir þarf ekki að koma nokkrum manni á óvart.

Eins og hæstv. ráðherra gat réttilega um í máli sínu þá er meginefni þess fyrst og fremst að það er verið að setja tengingu á milli þess aflamagns sem smábátar, krókabátarnir, mega veiða annars vegar og hins vegar heildarþorskkvótans yfir fiskveiðiárið. Enginn þarf að undrast að hæstv. ráðherra setji þetta frv. fram og hann hefði ekki þurft að hafa sérstakt samráð við Landssamband smábátaeigenda um það. Ég rifja það upp, herra forseti, að það var hv. þm. Árni R. Árnason sem lýsti því yfir fyrir hönd meiri hlutans í sjútvn. hér á síðasta vori að stjórnarliðið mundi beita sér fyrir því að þetta yrði gert innan tíðar. Það var raunar forsenda þess að settar voru niður deilur innan stjórnarliðsins sem tengdust þáv. afstöðu hæstv. sjútvrh. En nú hefur sem sagt hæstv. ráðherra orðið fyrir því sama og Sál á leiðinni til Damaskus, eldingu skilningsins hefur lostið niður í höfuð honum og hann sér að það er ekki rétt stefna sem áður var fylgt og við mörg í þessum sölum töldum að beindist beinlínis að því að afleggja krókaflotann. Ég tel að þessi tenging sem nú liggur fyrir í frv. sé gífurlega mikilvæg. En ég þakka það ekki sérstaklega þó að stjórnarliðið haldi þau orð sem það gaf hér á síðasta vori. Ég held að sá sigur sem í þessu sannarlega felst fyrir krókabátana tryggi endanlega að það verði ekki hægt að ganga af þeim flota dauðum. Að þessu leyti er þetta afskaplega mikilvægt.

Með þessu frv. eru hinir föstu banndagar afnumdir. En auðvitað er sitthvað sem mætti breyta í frv. til hins betra. Vandinn er ekki alveg að fullu leystur. Ég sé að í þessu frv. eins og það hefur verið kynnt er inni reikniregla sem fækkar sóknardögum þó það verði að vísu ekki fyrr en fiskveiðiárið 1998 en þá fækkar sóknardögum hjá þeim sem fara fram úr. Það er að vísu svo að þorskaflahámarkið hafa valið alls 403 bátar og þeir sem eru eftir í sóknardagakerfinu eru meiri hlutinn, 680 bátar. Það er hins vegar ekki mikið sem þeir hafa til ráðstöfunar. Ég held að þeir hafi til ráðstöfunar innan við 7 þús. tonn. Það er eitthvað u.þ.b. 10 tonn á bát að meðaltali. Þess vegna held ég að afkoma margra þeirra verði afskaplega erfið í framtíðinni. Það er því mikilvægt að það sé ekki þrengt of mikið að þessum flota. Ég geri mér grein fyrir að með þessu kerfi sem þingið samþykkti í fyrra sé óhjákvæmilegt að svigrúm þeirra verður miklu minna en áður var.

Menn geta að vísu valið aftur upp á nýtt ef þetta frv. verður að lögum og þá getur vel verið að þessi hlutföll sem ég lýsti áðan raskist eitthvað. En sóknardagakerfið samkvæmt þessu frv. skiptist nánast í tvö kerfi þar sem annars vegar er byggt á línu og handfærum en hins vegar á handfærum eingöngu. Það hefur sína kosti og galla. Handfærin veiða bara þorsk og þau takmarkast í ríkari mæli af veðri og vondum sjóum en með línu geta menn róið í verra veðri og geta líka veitt talsvert af öðrum tegundum eins og steinbít. Mér skilst líka að reiknireglan sé þannig að ef menn nota línu við veiðarnar þá reiknast hver sóknardagur upp með stuðli sem er 1,35 yfir veturinn og 1,90 yfir sumarið. Mér sýnist að með þessu sé verið að þrýsta mönnum yfir í handfæri. Ég hef engar sérstakar skoðanir á því. En það sem ég sé hins vegar er ákveðið misræmi á milli þeirra sem eru á þorskaflahámarkinu annars vegar og hins vegar þeirra sem verða á sóknardagakerfinu og það tengist tegundunum utan kvóta. Í dag er það svo að þeir sem eru á aflahámarkinu geta veitt eins mikið af tegundum sem eru utan kvóta eins og steinbít án þess að það með nokkrum móti skerði afkomumöguleika þeirra. Þannig á það að vera. Þess vegna finnst mér líka að það ætti að vera svo að þeir sem eru á sóknardagkerfinu ættu líka að fá að stunda veiðar á utankvótategundum án þess að þeir sóknardagar teljist með. Það er svo að við vissar aðstæður á vissum árstímum er hægt að veiða ákveðnar tegundir eins og steinbít hreinar án þess að þar sé þorskur sem meðafli. Þetta vita menn. Ég tel ekki sanngjarnt gagnvart þessum hluta krókaflotans, sem á nú nógu erfitt hvort sem er innan sóknardagakerfisins, að reikna þetta til frádráttar sóknardögunum. Það er hægt að taka dæmi úr raunveruleikanum um þetta. Til að mynda þekki ég dæmi úr kjördæmi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um trillu sem veiddi yfir árið 200 tonn og notaði eingöngu línu við veiðarnar. Aflinn skiptist í 120 tonn af þorski og 80 tonn af öðrum tegundum og það var mest steinbítur. Nú er þannig komið fyrir þessum manni að ef hann ætlar að stunda línuveiðarnar eingöngu eins og hann gerði þá hefur hann í krafti reiknireglunnar ekki heimild til að veiða nema 62 daga yfir veturinn. Þessi maður mun búa við verulega breytt skilyrði og miklu erfiðari afkomu þegar svo stór hluti af heildarveiðinni sem saman stóð af utankvótategundunum kemur til frádráttar. Þetta finnst mér óréttlæti, herra forseti. Og mér finnst að þetta sé það sem menn eigi að reyna að kanna vel þegar kemur að umfjöllun um málið í þingnefndinni.

En, herra forseti, ég tel nauðsynlegt þegar við ræðum mál eins og þetta að við tökum líka á því hvort ekki sé rétt, eins og lagt er til í frv. sem Alþb. leggur fram og rætt verður hér síðar í dag, að breyta þeim tímamörkum sem tengjast ákvörðun veiðikvóta fyrir þorsk. Í dag er það þannig að það verður að taka ákvörðun um breytingu á honum fyrir 15. apríl og 15. apríl er á mánudaginn. Það var eingöngu vegna áskorunar þingnefndarinnar, fagnefndarinnar, að Hafrannsóknarstofnun lagði fram fyrr en eða a.m.k. í fyrra gögn sín úr togararallinu og þau sýna og sanna alveg eins og í fyrra að þorskstofninn er á góðri uppleið. Ég held að það sé alveg klárt að það eru full föng til þess núna að taka ákvörðun um að hækka kvótann án þess að það sé með einhverju móti hægt að segja að það sé verið að svipta stoðum undan stofninum. Það er algjörlega klárt.

[14:45]

Ég minni líka á að þegar togararallið var í fyrra birtu menn í fréttatilkynningu frá stofnuninni gögn sem sýndu svart á hvítu að þorskstofninn væri þá að aukast um 30%. Það vildi svo til að eini praktíski mælikvarðinn á það, krókaveiðarnar, sýndu líka aukningu um 30% á þessum tíma og ég er alveg sannfærður um að þarna var verið að mæla raunverulega aukningu. Þegar búið var að fara í það mál af Hafró þá var þessi aukning reiknuð niður. Ég skildi það aldrei. Það var farið yfir það í sjútvn. þar sem ég sat sem varamaður en ég skildi aldrei hvernig sérfræðingar Hafró fóru að því og nú er aftur verið að gefa til kynna að þorskstofninn, veiðistofninn, sé á uppleið. Ég held hann sé kominn í rösk 700.000 tonn sem er u.þ.b. eins og menn voru að reikna fyrir nokkrum árum. En mér finnst er samt ótrúlega merkilegt þegar menn skoða tölurnar að það er svo margt sem fellur ekki saman. Ég minni t.d. á árgangana frá 1989 og 1990 sem voru slakir. Samt voru þetta árgangarnir sem stóðu undir drjúgri veiði á árunum frá 1993 og 1994 og ég minni á það að í einstaklingum talið árið 1993 held ég að það hafi verið 23% þeirra þorska sem voru veiddir sem voru samkvæmt skilgreiningu undirmálsfiskur sem voru ekki orðnir fullra þriggja ára gamlir. Hvaðan kom allt þetta ungviði? Ég dró bara eina ályktun af því þegar ég sá þetta í gögnunum. Það hlaut að vera að sá árgangur, sem stóð undir veiðinni á þessum ungþorski, hafi verið gróflega vanmetinn. En það var ekki fyrr en í fyrra sem Hafrannsóknastofnunin gaf það upp að árgangarnir frá 1989 og 1990 hefðu verið vanmetnir um 55 millj. þorska. Ég veit að hæstv. sjútvrh. er glöggur maður og hann gerir sér grein fyrir því að 55 millj. þorskar eru nokkuð margir fiskar og nokkuð mörg kíló. Miðað við meðalþyngd eins og hún hefur verið að koma hefur þetta legið einhvers staðar í tonnum talið á milli 100.000 og 150.000 tonn. Það er nákvæmlega sem vantaði upp á þegar þeir voru að reikna þetta niður í fyrra. Þá var það svo að þeir töldu að veiðistofninn væri ekki nema 510.000 tonn þegar upphaflegu gögnin höfðu gefið til kynna að hann væri yfir 700.000 tonn. Auðvitað er hægt að benda á meira en þetta. Tökum nýlegt dæmi sem er árgangurinn frá 1993. Hann var sagður slakur við mælingu 1994, 180 millj. þorska. Hann var þó ekki slakari en svo að hann óx jafnhratt á sex mánuðum og hæstv. forsrh. yngdist á síðustu þremur mánuðum því að hann var við næsta mat orðinn 220 millj. þorska. Það munaði 40 millj. Ég er ekki að álasa Hafrannsóknastofnun fyrir það að hafa ekki reiknað rétt. Þetta eru bara óviss fræði og það sem mér hefur alltaf fundist vanta inn í fræði hennar er hin náttúrulega afkoma, afkoman í hafinu, náttúruaðstæðurnar. Nú er alveg ljóst að mér sýnist af gögnum og því sem sjómenn segja, og menn eiga að hlusta á þá, að það sé talsvert meiri þorskur og hafi verið á grunnunum en Hafrannsóknastofnun hefur reiknað út. Og af hverju er það? Það er vegna þess að þeir hafa ekki tekið tillit til afkomu náttúrunnar og árferðis í sjónum. Það þýðir að ef það er gott í sjóinn verða minni afföll og fiskarnir vaxa betur og vegna þess að stærri þorskarnir eru færri þá er minna um kannibalisma, þeir éta minna undan sér. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli og þetta er partur af því sem þeir hafa a.m.k. fram á þessa síðustu daga ekki tekið með í reikninginn. Það þurfi alþjóðlega ráðstefnu fiskifræðinga fyrir nokkrum árum til þess að þeir færu að hugsa í þessa veru.

Herra forseti. Ég tel að hæstv. sjútvrh. skuldi þinginu það og hann skuldi þjóðinni að segja hvort hann ætlar að verða við kröfum eigin stjórnarliðs, sinna eigin manna um að auka þorskkvótann, hvort hann ætlar að ganga gegn hæstv. forsrh. sem hefur bókstaflega gefið honum opinbera skipun um að auka þorskkvótann í ár.