Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 15:48:49 (4640)

1996-04-12 15:48:49# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:48]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir á sér langan aðdraganda. Hefur verið tekist töluvert á um þetta í þjóðfélaginu fyrr og þarf þarf því ekki að koma á óvart þó það valdi óróa. Ég held að það sé samt þörf á því að rekja dálítið aðdraganda þessa máls og reyna að átta sig á því í hvaða umhverfi við höfum verið að lifa og starfa. Vegna þess að ég lít þannig á að þær breytingar á lögunum um fiskveiðistjórn sem voru samþykktar á vorþinginu í fyrra hafi verið algjör lykill að því að nú tókst að ná samkomulagi við þennan bátaflokk um það hvernig að veiðunum skyldi staðið. Það er staðreynd sem allir vita að þrátt fyrir að við tækjum upp núgildandi stjórnarkerfi á fiskveiðunum, aflahlutdeildarkerfið, þá var það látið viðgangast í meira en tíu ár að þessum flokki útgerðar var heimil stækkun. Það var lokað fyrir endurnýjunina að stærstum hluta gagnvart flotanum. Menn gátu ekki stækkað flotann nema þennan flokk, hann stóð opinn á annan áratug. Einhverjir hljóta að bera á byrgð á þessari þróun, það hlýtur þingið að gera og löggjafinn, það hljóta ráðherrarnir að gera sem fóru með þessa málaflokka og forusta þeirra ríkisstjórna sem hér voru þennan tíma meðan þetta var látið viðgangast.

Herra forseti. Ég minni á það að ég held að bæði í tíma og ótíma, sýknt og heilagt, bæði vakinn og sofinn hafi ég reynt í öllum tilvikum þegar við ræddum um stjórn fiskveiða að benda mönnum á þá þörf að við yrðum að stjórna flotastærðinni í öllu tilliti, alltaf. Það væri og er lykillinn að því að við getum náð einhverjum árangri í stjórn fiskveiðanna. Einhverjir bera á því ábyrgð að það gerðist að flotinn, afkastageta krókabátanna var að vaxa stöðugt ár frá ári og það á sama tíma og aflaheimildirnar, heildaraflaheimildirnar voru að minnka ár frá ári. Það er því augljóst að þarna varð mikill árekstur. Það varð mikill árekstur og stjórnvöld hljóta að bera ábyrgð á því. Það sem var gert hér á vorþinginu í fyrra var að þessi þróun var stöðvuð. Það var komið í veg fyrir að þessi floti gæti haldið áfram að vaxa stöðugt. Það voru settar mjög háar endurnýjunarreglur þannig að það hefur sýnt sig síðan að afkastageta flotans getur ekki haldið áfram að aukast. Jafnframt var þá gengið þannig frá hnútum að smábátaflotinn, þ.e. krókabátarnir fengu aðgang að Þróunarsjóðnum og það var endurbætt á haustþinginu, þannig að það var jafnframt tryggt og hefur verið tryggt af hálfu löggjafans að þessi floti getur nú farið minnkandi og hann fer minnkandi. Við getum vonast til að allt að 200 skip fari inn í Þróunarsjóðinn og þar með er hann núna, öfugt við það sem var fyrir ári síðan þegar hann var að stækka en nú sjáum við fram á að hann er heldur að dragast saman. Það sama gerist að við höfum mátt lifa við að þorskveiðiheimildirnar væru sífellt að minnka en nú horfum við fram á að þær fara að vaxa. Þannig að nú hefur þetta snúist við. Í stað þess að við værum að fara í öfuga átt þá sjáum við nú fram á að þetta er að nálgast hvort annað, afkastagetan og það sem við ættum að veiða. Þannig að nú hefur skapast hér það umhverfi sem gerði það kleift að það var hægt að setjast niður og semja á bærilegan hátt. Það hefur verið gert og sá samningur liggur hér fyrir í frv. sem þingið hefur til meðferðar. Sá rammi er grundvöllur þess að við gátum flutt þetta frv. og getum staðið hér og rætt það. (ÖS: Við hefðum getað það í fyrra.) Við gátum það ekki. Það var ekki möguleiki, herra forseti, og það var margreynt að á meðan flotinn var stöðugt að vaxa þá var slík tortryggni í garð hans og hún var eðlileg. Það var eðlilegt að það væri mikil tortryggni þegar menn sáu fram á að afköstin voru alltaf að aukast. Það að stoppa þennan vöxt var grundvöllur þess að menn gætu sest niður og séð fram á lausn sem gæti verið til frambúðar. Það er í þessu ljósi sem ég tel að við verðum að horfa á þetta frv. Þarna er verið að leita að lausn sem er í anda þess sem menn eiga að vinna að mínum dómi, herra forseti. Það hlýtur að vera löggjafans að setja þann ramma þannig að fiskveiðiflotinn geti sæmilega unað við og fundið sér lífsrými innan þeirra marka sem við höfum út að deila.

Ég get ekki með nokkru móti séð að sú gagnrýni sem fram hefur komið á þetta frv. af hendi félaga minna í Landssambandi íslenskra útvegsmanna eigi við rök að styðjast. Ég get ekki séð að þetta frv. sé neitt að taka frá þeim. Alls ekki. Vegna þess að þeir máttu vita að sá vilji meiri hluta sjútvn. lá fyrir sem þáv. talsmaður nefnarinnar, hv. þm. Árni R. Árnason lýsti hér í þinginu í fyrravor að það var vilji og ætlun manna að binda þetta við þann þorskafla sem í framtíðinni yrði. Hér er því ekki um neitt nýtt að ræða, það var öllum kunnugt um þann vilja og hæstv. ráðherra tók mjög undir það eins og hér hefur verið getið um á sl. vori. Þetta sem þá var lofað hefur nú verið sett í frumvarpsdrög og við erum að ræða það.

Hins vegar var flutt hér í fyrra brtt. frá stjórnarandstöðunni um að færa mark krókabátanna úr 21 þús. tonni upp í 31 þús. tonn. Ég, herra forseti, greiddi atkvæði gegn því og mátti þola þó nokkur köpuryrði fyrir. En ég taldi ekki hægt að styðja slíka tillögu vegna þess að hún var á kostnað aflamarksskipanna. Það var á kostnað aflamarksskipanna og þess vegna greiddi ég atkvæði gegn henni. (ÖS: Ég var upphafsmaðurinn að því.) Ég greiddi atkvæði gegn því að fara í 31 þús. tonn. Það sem við erum að gera núna er að við erum í því umhverfi að við sjáum fram á það að við getum náð jafnvægi. Við vitum að vísu ekki með neinni nákvæmni hversu mikið flotinn muni minnka og hversu hratt krókaleyfisbátaflotinn minnkar en við vonum að hann minnki þó nokkuð og höfum rökstudda ályktun um það. Við vitum heldur ekki hversu miklar aflaheimildirnar verða auknar. Vonandi verður það verulega. Ég persónulega trúi því að það sé grundvöllur til að auka þær verulega upp í eðlilegt þorskveiðimagn sem við Íslendingar eigum að veiða hér, 300 þús. tonn, mjög fljótlega.

Að vísu getum við ekki sagt um það hvort þetta jafnvægi skapist t.d. á næstu tólf mánuðum. Við vitum það ekki en við getum ályktað sem svo að á næstu árum, einu, tveimur eða þremur, skapist þetta jafnvægi. Og hvað gerist þá núna í þessu tilfelli? Jú, við vitum að bátarnir raða sér í þrjá flokka. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig þeir gera það en ástæða er til að ætla, eins og fram hefur komið áður, að þorskaflahámarkið verði yfirgnæfandi. Við erum búin að búa til lítinn flokk fyrir skakarana sem vilja vera á sumrin og þeir komast þar vel af. Það er trúlegt að flokkurinn sem er samsettur bæði af handfærum og línu kunni á næsta fiskveiðiári að fara eitthvað fram yfir. Þannig met ég það. Það er trúlegt. Og hvað gerist þá?

Herra forseti. Mín skoðun er sú að þó að þessi bátafloti fari eitthvað yfir 1.000, 2.000 eða 3.000 tonn þá er ég algjörlega sannfærður um að það getur ekki skipt nokkru máli, hvorki fyrir lífið í sjónum né afkomu þeirra manna sem stunda veiðar samkvæmt aflamarkskerfinu. Það skiptir engu máli. Þannig getur reiði þeirra sem nú hamast gegn þessu frv. ekki verið á rökum reist. Það er ekki verið að taka neitt frá þeim. Þeir hafa sitt aflamark og þeir munu njóta þess áfram þegar þorskveiðiheimildirnar stækka. Því að mér hefur þótt þessi umræða dálítið kynleg sérstaklega með tilliti til þess að ég þekki suma þá einstaklinga sem hæst hafa haft núna undanfarna daga og minnist þess ekki á umliðnum árum að þeir hafi hrópað og kallað þegar öðrum þótti á sig hallað. Nei, þeir voru nú bara ánægðir, bara þokkalega ánægðir.

Herra forseti. Ég vonast til þess að frv. fái jákvæða og efnislega umfjöllun hér. Auðvitað er það svo eins og komið hefur fram í máli margra að ýmislegt orkar tvímælis. Um það má deila hvernig á að koma hinum einstöku hlutum fyrir. Það hlýtur að vera til umhugsunar á hverjum tíma --- og til breytingar ef mönnum þykir svo. En í heildina er það mikið fagnaðarefni að hæstv. sjútvrh. hefur tekist að ná bærilegri sátt við allan þann mikla fjölda sem stundar þessa krókaleyfisleið. Ég minni á það --- hvað sem menn vilja segja um það hverjir hafi tekið á sig skerðingar og hverjir ekki --- að þessi floti, krókaleyfisflotinn, er löglega inn í þetta land kominn. Það var leyfilegt að stækka flotann.

[16:00]

Hverjir eru að róa þessum skipum? Halda menn að það sé einhver venjulegur Jón Jónsson sem kannski hefði áður stundað einhver minni háttar skrifstofustörf? Ó, nei. Auðvitað eru þetta afrekssjómenn þessa lands sem færa sig úr einu skiprúmi í annað. (Gripið fram í: Hverjir eru á hinum bátunum?) Ætli það séu ekki afrekssjómenn líka? En mega menn ekki flytja sig á milli? Var ekki eðlilegt að menn veldu þann kost úr því að hann var opinn samkvæmt lögum? Þeim var leyfilegt að kaupa skip og koma hér að veiða. Var nokkuð óeðlilegt við það þótt menn nýttu sér það sem lögin leyfðu? Þeir nýttu sér það. Og ég spyr bara aftur að því: Hvernig stóð á því að þessu gati var ekki lokað fyrir tíu árum? Það þjónar ekki tilgangi, herra forseti, að deila um það hverjum það sé að kenna. En það er rétt að minna á að því var þó lokað í fyrra og þar með er þetta gat úr sögunni. Það verður að byrja á byrjuninni. Ef menn ætla að fara áfram þá er náttúrlega upphafið að hætta að fara aftur á bak og það gerðum við í fyrra með löggjöf.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara út í það að ræða efnisatriði þessa frv. Þess gerist kannski ekki þörf. Þau skýra sig að flestu leyti sjálf. Ég tel þó rétt úr því að ég stend hér að fara nokkrum orðum um þorskveiðiheimildirnar af því að eins og réttilega hefur verið getið rennur út á mánudaginn sá frestur sem lögin gefa ráðherra til að ákvarða, ef hann vill ákvarða, hækkun á þorskaflahámarki.

Ég get ekki skilið, herra forseti, hvernig stendur á því að menn hafa á orði að efnt hafi verið til einhvers bögglauppboðs og menn séu í einhverri keppni um að sýna sig í því hvað þeir vilji varðandi þorskveiðar. Ég verð að segja eins og er að mér finnst ekkert óeðlilegt að ég hafi á þessu skoðun og alls ekkert óeðlilegt að ég láti hana í ljós þegar ég er spurður. Ég hef lengi haldið því fram og sagt frá því í hreinskilni að sú fiskveiðistjórnun sem við búum við, þ.e. hvernig við förum að því að ákvarða þorskaflahámark, hefur valdið mér verulegum áhyggjum vegna þess að það hefur alls ekki fallið saman við reynsluheim þeirra fjölmörgu sjómanna sem ég þekki og hef þekkt alla ævi mína. Þetta hefur því ætíð valdið mér verulegum heilabrotum og ég verð að viðurkenna að ég hef alls ekki trúað því að svo illa væri komið fyrir þessum þorskstofni og sumir vísindamenn hafa viljað vera láta. Ég get nefnt sem dæmi um það sem sumir kalla vandkvæði út af smábátunum að afli á grunnslóð við vestanvert landið hefur verið mjög mikill og afli á sóknareiningu hefur sannarlega verið vaxandi þótt fiskifræðingar hafi ekki getað mælt það. Það er t.d. einn hluti.

Í öðru lagi veit ég að allt frá haustinu 1993 hefur verið mikil þorskveiði á djúpslóð Vestfjarða þótt fáir hafi komist til að fiska þannig að þetta hefur allt verið í hrópandi mótsögn við reynsluna. Þess vegna hef ég lengi verið þeirrar skoðunar og tel mig geta fært rök fyrir því að það er alls ekki og getur ekki verið nein líffræðileg hætta varðandi það að auka þorskveiðarnar nú þegar. Það getur alls ekki verið. Ríkisstjórnin setti sér reglu um 25%. Ég veit ekki hvernig hún var tilkomin. Við höfum mörg dæmi um það að við höfum veitt 30%, 45% og allt upp í 50% og ekki borið skaða af. Skekkjumörkin eru allt frá 170--200 þús. tonnum og því skil ég ekki hvað veldur því að menn eru hræddir við að auka þetta um einhver tug þúsunda tonna núna strax. Rök mín fyrir því að gera það eru efnahagsleg. Við höfum mjög mikla þörf fyrir það efnahagslega núna, íslenska þjóðarbúið, að auka þorskveiðarnar. Við vitum hver niðurstaða Þjóðhagsstofnunar er um afkomu bolfiskveiðanna og vinnslunnar. Það er verulegt tap. Aukning á þorskveiðunum hefði veruleg áhrif til bóta. Við þurfum að hafa nóg framboð á þorski og við þurfum að hafa efni á að bjóða fram þorsk inn á markaðinn hvort sem það er seljanda- eða kaupendamarkaður. Það er kaupendamarkaður í dag. Verðið er á niðurleið og við verðum að hafa efni á því að bjóða fram og framleiða fisk líka þegar kaupendamarkaðurinn er og það er mikil þörf á því núna. Það mundi hjálpa bolfiskveiðum og vinnslunni verulega ef við mundum auka þorskveiðarnar nún þegar. En auðvitað er það hæstv. ráðherra að ákvarða það. Hann mun gera það og auðvitað munum við hlíta því, hann hefur sannarlega öll lög með sér í því. Það er honum sem er falið það vald.