Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:15:07 (4647)

1996-04-12 16:15:07# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:15]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar til að gera athugasemd við í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Í fyrsta lagi snertir það stækkun smábátaflotans. Auðvitað var það allt saman með vitund stjórnvalda og þau eru ábyrg fyrir því. Það er ekkert spursmál að það var nauðsynlegt að stoppa í þetta gat.

En það sem spurningin snýst um er ekki þetta, hv. þm., heldur hitt hvort það er eðlilegt að aflamarksskip bæru allan kostnaðinn af þessu. Var ekki eðlilegt að þeir sem hafa verið að auka afla sinn mjög á þeim tíma, þ.e. krókabátarnir sjálfir, bæru einhvern hluta af kostnaðinum? Það er einmitt það sem verið er að gera hér núna. Það er verið að gera upp dæmið án þess að þeir taki þátt í þessum kostnaði.

Hitt er ekki síður mikilvægt atriði hjá hæstv. sjútvrh. og ég heyri að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson styður það sjónarmið að ekkert hafi verið tekið af aflamarksbátunum. En röksemdin er mjög athyglisverð. Það var ekkert tekið af þeim, segir hann, af því að hæstv. sjútvrh. og formaður sjútvn. tilkynntu fyrir fram að það yrði tekið af þeim. Það er sem sagt nóg að tilkynna fyrir fram að það verði tekið af þeim og það þýðir þá að það hefur ekki verið tekið af þeim. Ég hef ekki kynnst slíkri röksemdafærslu áður. Það er alltaf fróðlegt að kynnast nýjum flötum á röksemdafærslum.