Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:19:33 (4651)

1996-04-12 16:19:33# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:19]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ágæt áminning sem hér kemur aftur og aftur fram í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að það sem menn gera á hv. Alþingi í lagasetningu og síðan þeir ráðherrar í ráðuneytum varðandi reglugerðir skiptir vissulega máli um þá þróun sem hér verður, bæði hvað varðar stærð flotans og byggðamunstur í landinu. Þess vegna eiga menn ekki að vaða í hlutina undirbúningslítið eins og mér sýnist að hér sé því miður verið að gera eina ferðina enn.

Hv. þm. virðist binda miklar vonir við að smábátaflotinn muni minnka svo á næstunni að þessir hlutir munu allir virka með öðrum hætti en verið hefur. En ég segi bara: Fyrst lögin um Þróunarsjóðinn eins og þau eru núna eru svo sáralítið farin að bíta, af hverju biðu menn þá ekki a.m.k. til þess að athuga hver áhrif þeirra yrðu áður en menn fóru í þessar breytingar? Af hverju lá svona á? Gátu menn ekki beðið einu sinni og skoðað afleiðingar gerða sinna áður en farið var í að byggja nýjar breytingar á því sem áður hafði verið ákvarðað? Mér hefðu fundist það mun eðlilegri vinnubrögð.

Síðan aðeins vegna þess að hv. þm. virðist finnast það einkennilegt að það séu gerðar einhverjar aðrar kröfur til hans en annarra hér varðandi það að hann fái að hafa skoðun á hlutunum, þá er það nú einu sinni svo að við ætlumst til þess að þegar stjórnarþingmenn eru að veifa sínum skoðunum fylgi þeir þeim eftir. Á það hefur hugsanlega skort.