Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:21:09 (4652)

1996-04-12 16:21:09# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:21]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að rökstuddar ályktanir hafi legið fyrir um það hver áhrif Þróunarsjóðsins yrðu. Það var búið að kanna það mjög ítarlega og menn höfðu gert um það áætlanir hvað við gætum tekið mörg svona skip út úr. Ég veit það bara frá sjóðstjórninni að þeir ætluðu að þessir peningar gætu virkað til þess að úrelda um 130 skip eða svo og sjóðstjórnin taldi að það væri mjög líklegt að þær heimildir yrði nýttar þannig að hér var verið að fara um hluti sem allir gátu kynnt sér.

Ég minni hv. þm. á það að það er ekki óeðlilegt að ég hafi skoðanir, t.d. á því hvað mætti veiða úr hafinu, en ég veit það og viðurkenni að það er hér ráðherra, það er ríkisstjórn og vald hennar er óskorað og lögin segja til um það hver það er sem getur gefið slíkan úrskurð. Það er enginn nema ráðherrann.