Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:34:04 (4656)

1996-04-12 16:34:04# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:34]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Þegar fiskveiðiþjóð eins og við Íslendingar þarf að upplifa tímabil þar sem aflaheimildir á mikilvægum fisktegundum minnka úr 300 þús. lestum niður í 150 þús. lestir þarf engan að furða þó eitthvað láti undan, eitthvað bresti og ýmsir stynji. Það eru margir sem verða fyrir þessari skerðingu og það er fróðlegt að velta fyrir sér með hvaða hætti þjóðin hefur brugðist við þessum þrengingum. Það er ástæða til þess að líta á ýmsar jákvæðar hliðar þessa. Það má segja að þær þrengingar, neyðin hafi kennt naktri konu að spinna, þær þrengingar hafi neytt okkur til að skoða stöðu okkar í fiskveiðum og fiskvinnslu með öðrum hætti en við gerðum áður. Við höfum m.a. lagt út á úthöfin, við höfum að hluta til leyst það með því og aflað mikilla verðmæta inn í þjóðarbúið á þann hátt.

Þá er líka ástæða til þess að hugleiða með hvaða hætti fullvinnsla sjávarafla og aukin úrvinnsla á því sviði hefur aukið verðmætin. Þetta og ýmislegt annað er eitt af því sem ég hygg að þjóðin hafi lært af þeim þrengingum.

En það er líka annað sem hefur gerst. Samsetning fiskveiðiflota okkar hefur breyst. Menn hafa gripið til hagræðingar, menn hafa fært aflaheimildir, m.a. með þeim afleiðingum að ýmsir hefðbundnir verðtíðarbátar hafa horfið eða hanga nú nokkrir á horriminni. Segja má að gat hafi verið skilið eftir og það gat er hin mikla aukning sem varð í svokölluðum krókabátum. Sú aukning sem þar varð er ekki síst og líklega fyrst og síðast á ábyrgð stjórnvalda, á ábyrgð Alþingis og ríkisstjórnar, núverandi og fyrrverandi. Löggjafinn stendur því uppi með þessa ábyrgð. Ég bendi á að talsmenn Landssambands smábátaeigenda bentu stöðugt á þá ógnun sem gæti stafað af óheftri fjölgun smábáta en tillit til þeirra sjónarmiða var ekki tekið. Þess vegna lít ég svo á að það frv. sem nú er til meðferðar þingsins sé afleiðing þessa. Það er tilraun til þess að laga sig að raunveruleikanum og bregðast við þeirri ábyrgð. Ég vil því fagna frv. sérstaklega og ekki síst þeim efnislegu atriðum nokkrum sem þar má sjá inni. Fyrst og fremst vil ég fagna því að hið alræmda banndagakerfi er nú kvatt og hygg ég að söknuður sé ekki mikill. Í stað þess kemur það sem er hyggilegra og skynsamlegra að sjómenn sjálfir fái að velja hvenær gefur í stað þess að um það sé tekin miðstýrð ákvörðun ár fram í tímann.

Ég fagna því líka að smábátasjómenn skuli fá hlutdeild í þeirri aukningu sem virðist í augsýn í aflaheimildum á þorski. Ég fagna því líka að smábátasjómenn skuli í ljósi þessa eiga möguleika á að endurvelja hvort þeir vilja vera innan aflamarkskerfis eða annars staðar. Meginatriðið tel ég þó vera það að hér er fengin niðurstaða í sátt við krókakarla. Eins og kunnugt er hefur á síðustu árum ekki tekist að halda uppi stjórnun á fiskveiðum þar sem krókabátar hafa stöðugt farið fram úr og ekki skal ég mæla því bót að lög séu brotin. Hins vegar tel ég skiljanlegt hvað gerst hefur einmitt með þeim rökum sem ég nefndi að framan. Einnig það að þau lög sem áður voru sett og hafa verið gildandi voru sett þvert gegn vilja þeirra sem hagsmuna hafa af. Nú er þetta gert í sátt þannig að ég lít svo á að Landssamband smábátaeigenda muni axla þá ábyrgð sem því fylgir enda er þetta gert í fullri sátt við þá.

Þá víkur, herra forseti, sögunni að öðrum tegundum fiskiskipa í flota okkar. Hver er staða þeirra? Til allrar hamingju má segja að flestar tegundir þeirra séu vel settar. Rækjuflotinn hefur til allrar hamingju verið vel settur. Hjá nótaskipum er verulega bjart fram undan með síldar- og loðnuveiði. Hagur fullvinnsluskipa hefur vænkast. Þau hafa annars vegar keypt til sín aflaheimildir en þá er ekki síst mikilvægt fyrir þau það sem er að gerast á úthöfum og skal ekki fullyrt um frekar og nú bætast krókabátar í þennan skulum við segja tiltölulega ánægða hóp. En eftir stendur þá það sem ástæða er til að kalla hinn gleymda flota, þ.e. hinn hefðbundna vertíðarflota og ísfiskstogarana. Ég tel ástæðu og reyndar eitt það brýnasta verkefni sem bíður þessa þings að skoða stöðu þess flota sérstaklega og ég nefni aðeins tvö einföld dæmi. Annað er ísfisktogari með 300 lesta aflaheimildir. Það segir sig sjálft að sá togari getur ekki með nokkru móti staðið undir sér. Ég nefni líka hefðbundinn vertíðarbát og nokkra slíka sem verið hafa í eigu sömu fjölskyldna áratugum saman og sitja uppi með um 40 lesta aflaheimildir. Þessi floti hefur þar að auki átt sitt þátt í því að skapa grundvöll fyrir fullvinnsluskipin að sækja út á úthöfin og sækja þar á ný mið með því að leigja aflaheimildir af fullvinnsluskipunum. Þess vegna tel ég að þessi floti, hinn gleymdi floti, sé sá sem eigi núna að hafa forgang í fiskveiðistjórnun okkar og aflaúthlutun.

Þá kemur að því sem aðalmálið snýst e.t.v. um og stærsta málið. Það er um stærð fiskstofna. Hefðum við 300 þús. lesta aflaheimildir í dag eins og við höfðum fyrir ekki svo mörgum árum hygg ég að vandamálin væru lítil. En hver er stærð stofnsins og er hann að stækka? Því getur enginn svarað með fullri vissu, e.t.v. til allrar hamingju, en flestir munu þó sammála um að nú bendi margt og flest til þess að fiskstofnar, þorskstofninn fari stækkandi. Spurningin er þá: Hversu mikið og hvenær er eðlilegt að auka aflaheimildir?

Það ber að fagna því að Hafrannsóknastofnun hefur nú tekið upp netarall til þess að auka nákvæmni í mælingum sínum á fiskstofnum. Það ber líka að fagna því að niðurstöður af nýafstöðnu togararalli og netaralli Hafrannsóknastofnunar staðfesta það sem sjómenn hafa haldið fram um langt bil að fiskgengd sé að aukast. En ég tel vert að minna á það sem fram hefur komið hjá sjómönnum og öðrum vísindamönnum, þar á meðal nokkrum doktorum í stofnmælingum í náttúrunni. Þar hafa mennt bent á að ýmislegt er mjög svo ónákvæmt við stofnmælingar Hafrannsóknastofnunar. Ég bendi m.a. á það að sjómenn fullyrða að töluvert sé um það að afla sé landað fram hjá vigt. Ég bendi líka á að sjómenn fullyrða að úrkast sé verulegt, mun meira en Fiskistofa vill vera láta. Meðal annars vegna þessa má færa fyrir því rök að forsendur fyrir mælingum á stofnstærð séu rangar, stofninn sé í raun vanáætlaður.

Í öðru lagi bendi ég á það sem vísindamenn á sviði náttúrufræðanna hafa líka bent á að það séu e.t.v. ekki veiðar mannanna sem ráði sveiflum í fiskstofnum, það séu náttúrulegar sveiflur sem þar ráði fyrst og síðast og nægir að benda á aflatölur og mælingar frá 1953 í því sambandi. Þá hafa líka þeir sömu vísindamenn bent á að afránið sé að öllum líkindum ofmetið í mælingum Hafrannsóknastofnunar.

Í þriðja lagi bendi ég á og vitna enn til vísindamanna annarra en þeirra sem starfa hjá Hafrannsóknastofnun að sú forsenda sem Hafrannsóknastofnun byggir á að því stærri sem stofninn er, þeim mun meiri verði nýliðunin. Það hafa ýmsir vísindamenn dregið mjög í efa. Sé sú forsenda rétt sem þeir hinir sömu vísindamenn benda á, erum við árlega að sleppa milljónum verðmæta.

Ég bendi líka á þá gagnrýni sem fram hefur komið á mælingaaðferðir Hafrannsóknastofnunar þar sem vísindamenn aðrir en þeir sem eru hjá Hafró hafa m.a. bent á að mælingar Hafrannsóknastofnunar hverju sinni mæli stærð stofnsins eins og hann var fyrir 2--4 árum en ekki hvernig hann er. Þess vegna bregst Hafrannsóknastofnun fullseint við þegar stofninn er að stækka með sama hætti og hún bregst fullseint við þegar hann fer minnkandi aftur.

[16:45]

Ég tel afskaplega brýnt fyrir Hafrannsóknastofnun, hæstv. sjútvrh. og þingið að mælingaaðferðir stofnunarinnar verði hið bráðasta teknar til gagngerrar endurskoðunar ekki síst í ljósi þeirrar gagnrýni sem komið hefur frá sjómönnum og vísindamönnum og þeim fleiri en einum. Þá bendi ég líka á og ítreka þær jákvæðu niðurstöður sem koma þó úr nýlegu ralli og bendi á þær jákvæðu fréttir sem sjómenn af landshornum öllum benda á um verulega aukna fiskgengd, meiri en þeir hafa upplifað árum saman. Allt þetta finnst mér benda til að óhætt sé að auka aflaheimildir um allt að 10 þús. tonn nú þegar á yfirstandandi fiskveiðiári og innan þess tíma sem hæstv. sjútvrh. hefur. Ég vísa því á bug sem fram hefur komið að hér sé um eitthvert bögglauppboð að ræða þó þingmenn lýsi slíkri skoðun sinni. Ég minni á að þetta snýst um að málið er hér í meðförum Alþingis og Alþingi á að hafa sjálfstæða skoðun. Þess vegna hljóta þingmenn að lýsa þeim skoðunum sínum sem þeir og hafa gert.

Ég tel að 10 þús. tonna aukning í ljósi þess sem hér hefur verið sagt sé á engan hátt ógnun við veiðistofna okkar. Ég tel að það megi færa fyrir því enn frekari rök. Spurningin er hins vegar sú hvernig á svo að útdeila þessum 10 þús. tonna kvóta. Ég hef áður viðrað þá skoðun mína og í ljósi þess sem hér að framan hefur verið sagt um hinn gleymda flota, þá teldi ég vel koma til greina að þessum 10 þús. tonnum yrði á yfirstandandi fiskveiðiári útdeilt til hins gleymda flota. Með því móti væri búið að skapa jöfnuð á milli flestra tegunda í veiðiflota okkar Íslendinga. Ég vil færa nokkur rök fyrir því af hverju ég nefni gleymda flota. Ég hef áður farið yfir stöðu annarra veiðiskipa í flota okkar en ég nefni auk þeirra réttlætisraka sem hér hefur verið minnst á, atvinnuleg rök þar sem hinir hefðbundnu vertíðarbátar skapa atvinnu og þeir munu skapa atvinnu. Sum byggðarlög landsins eru verulega háð þessum hefðbundnu vertíðarbátum og minni ísfisktogurum. Ég nefni líka efnahagsleg rök þar sem 10 þús. tonna aukning færir aukin verðmæti inn í þjóðarbúið og veitir sannarlega ekki af. Að auki munu þau leiða til lækkunar á hinum umdeilda leigukvóta og síðast en ekki síst mun að öllum líkindum hráefnisverð til fiskvinnslustöðva þar með fara lækkandi og staða fiskvinnslustöðva styrkjast. Meginatriðið er þó að hinn gleymdi floti væri þar með styrktur og þá gæti skapast e.t.v. í fyrsta sinn í langan tíma jöfnuður með ólíkum gerðum fiskskipa í flota okkar. Síðan við upphaf næsta fiskveiðiárs bendir margt til þess eins og hér hefur verið nefnt að aukningin verði enn meiri og skal ég ekki nefna neinar sérstakar tölur í þeim efnum. En ég tel að hún geti orðið veruleg.

Herra forseti. Rétt að lokum af því að hér er sérstaklega til umræðu breyting á lögum um fiskveiðistjórnun er snerta krókakarla þá vil ég ítreka stuðning minn og lýsa sérlegri ánægju með framkomið frv. og vonast til að það megi renna ljúflega í gegnum þingið.