Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 17:24:10 (4659)

1996-04-12 17:24:10# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, TIO
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:24]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Það virðist þvælast eitthvað fyrir sumum hv. þm. að með þessu frv. er ekki verið að koma á einu aflahlutdeildarkerfi fyrir smábátana. Það er í raun verið að búa til ,,tvöfalt aflahlutdeildarkerfi`` sem við mundum setja innan gæsalappa. Ef það er þetta sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson á við með því að búa til dínamískt aflamarkskefli, svo dínamískt að það getur farið til allra átta, þá hefur það tekist því að hvað mun gerast með þessu kerfi? Eigum við að bera saman hvers konar bátar verða þar hlið við hlið? Eigum við að sjá hvernig þetta dínamíska kerfi virkar og hversu vel þessu virðist ætla að verða stjórnað? Annars vegar verða aflamarksbátar af öllum stærðum, trillur og vertíðarbátar, ísfiskstogarar og aðrir slíkir. Þessir bátar verða háðir takmörkunum á þorskveiðum og öðrum þeim tegundum sem kvótabundnar eru. Við hliðina á þeim verða aflahámarksbátar sem eru óháðir takmörkunum á öðrum tegundum en þorski. Þannig verður þetta því að hér segir í frv.:

,,Eitt veigamikið atriði til viðbótar sem fallist var á að kröfu Landssambands smábátaeigenda er að allir fastir banndagar, sem nú eru 136 á ári, eru felldir burt samkvæmt þessum tillögum.``

Það þýðir að þeir sem stunda veiðar á þorskaflahámarki eru ekki háðir neinum sérstökum takmörkunum öðrum en þeim að halda sig innan aflahámarksins varðandi þorskveiðar. Þarna er sem sagt búið að búa til tvo flokka aflamarksskipa sem menn vilja halda fram að sé innan dínamísks kerfis þar sem annar aðilinn verður að gæta takmarkana á kvótabundnum tegundum en hinir eru óháðir þessu og geta fiskað eins og þeim sýnist uns þeir hafa náð þorskaflahámarki sínu. Ef þeir gæta þess að ná því ekki hafa þeir frjálst veiðileyfi á hinar tegundirnar. Annars vegar eru aflamarksbátar sem hafa orðið að þola miskunnarlausan niðurskurð á undanförnum árum, svo mikinn niðurskurð að það lætur nærri 70% hjá mörgum aflamarksbátum. Þeir hafa orðið að mæta niðurskurði, ekki bara vegna heildarniðurskurðar aflaheimildanna, heldur líka sérstaklega vegna þess að það hafa verið fluttar aflaheimildir til krókabáta og í línutvöföldun og til annarra hluta einnig. Við hliðina á þeim eru bátar sem fá tryggða þá hámarksaflahlutdeild sem þeir hafa nú og þeir fá auk þess hlutdeild í aukningunni. Komi til þess að heildarafli verði skorinn niður aftur verða þeir ekki skornir niður fyrir það aflahámark sem þeir njóta sem hlutfalls af þessum 21.500 tonnum. Með öðrum orðum, hv. þm., höfundur hins dínamíska nafns, hafa þeir gólf. Þeir verða ekki píndir niður fyrir þetta gólf þó svo sumir þeirra hafi aukið á sl. árum afla sinn svo mikið að þess eru dæmi að hann sé orðinn 300 tonn á trillu. Samkvæmt þessari reglu gildir 50% reglan í þeim efnum þannig að slíkur útgerðaraðili mun hafa tryggt sér 150 tonna afla á meðan trillur af sömu stærð sem fylgja aflamarkskerfinu hafi verið skornar niður við trog, 70%. Þessir bátar verða hlið við hlið og þetta kalla menn kerfi. Þetta er réttlætið, vafalaust dínamískt, hv. þm., mjög dínamískt ranglæti.

Þessi flokkur báta, aflamarksbátarnir, þ.e. gömlu kvótabátarnir verða skertir í framtíðinni. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að segja að þeir verði ekki skertir því að auðvitað er hlutdeildin skert. Ég ætla ekki að minnast á þá skemmtilegu skilgreiningu sem kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að þeir misstu ekki hlutdeild vegna þess að það væri búið að tilkynna þeim að þeir misstu hana. Það fannst mér mjög athyglisvert. Auðvitað missa þeir hlutdeild vegna þess að þeir aðilar sem voru ekki inni í aflamarkskerfinu en höfðu tekið til sín síaukinn afla fara inn í hlutdeildina og minnka þar af leiðandi hlutdeild annarra þannig að þeir fá skerta aflahlutdeild í framtíðinni. Hins vegar fá þeir ávísun á að ef kemur til niðurskurðar aftur mun þeir þola allan niðurskurðinn en hinn hópurinn, þ.e. aflahámarksbátarnir, mun ekki þola þennan niðurskurð. Auðvitað er kerfi eins og þetta bastarður. Það getur vel verið, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að þessi bastarður sé dínamískur. Ég tel að það geti verið réttnefni en bastarður er hann og menn geta ekki lýst þessu kerfi sem svo að það sé einhver sátt um það eða það komi til móts við einhver réttlætissjónarmið, svo er ekki.

Hins vegar get ég viðurkennt að ef menn hefðu farið þá leið sem hefði verið sáttaleið að segja sem svo: Gott og vel. Við getum ekki staðið á því að krókabátarnir eigi enga hlutdeild um aldur og ævi í aukningu þorskkvótans. Þó svo að það sé réttlætismál að þeir sem hafa verið skornir niður á undanförnum árum fái fulla hlutdeild þegar hún kemur til úthlutunar hefði verið hægt að setja fram hugmyndir um það að þegar afli verður aukinn, og ég vona að það verði sem fyrst, fengju aflamarksbátarnir hlutfall sem væri meira en krókabátarnir fengju. Þá væri ekki verið að búa til neitt þak á þetta. Ég er í sjálfu sér ekki neitt hrifinn af að búa til slíkt þak en þá hefði verið hægt að búa til aðferð við að leyfa þeim að koma inn í þennan aukna kvóta sem væri þó aðferð sem tæki tillit til þess að aflamarksskipin hafa sífellt verið að missa hlutdeild á undanförnum árum. Ef menn hefðu einhvern snefil af réttlætiskennd þá hefðu þeir lagt þetta til en þetta er ekki lagt til hjá hæstv. sjútvrh., skrefið er stigið til fulls til móts við kröfur þeirra sem ekki hafa orðið að þola skerðingu á undanförnum árum heldur tekið til sín stóraukinn afla þannig að það er ekki hægt að lýsa því svo að hér sé verið að reyna að sætta menn. Þvert á móti. Ég vil hins vegar taka það fram að það eru ákveðnir hlutir í frv. sem ég er fyllilega sáttur við og það voru gerðar ráðstafanir í vor sem voru nauðsynlegar til þess að takmarka þennan bátaflota. Það er allt saman rétt og það breytir engu um það að ég tel að sú aðferð sem notuð er hér til þess að hleypa krókabátunum í hlutdeildina á sömu forsendum og aflamarksbátunum sé röng og óréttlát.

[17:30]

Síðan verð ég að taka fram að það er náttúrlega ekki hægt að halda því fram hér stöðugt eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerir rétt eina ferðina, að stórútgerðirnar hafi keypt kvótann. Hverjir eru þessir útgerðarmenn? Þeir eru ansi marglit hjörð. Það eru m.a. heilu sveitarfélögin sem eiga kvóta og hafa verið að styrkja fyrirtæki til þess að fjárfesta í aflahlutdeild. Þau eru ekki öll stór þessi sveitarfélög og þau eru ekki öll rík heldur. Þau eru sum sárafátæk en hafa verið að berjast í bökkum til að tryggja sinn hlut í þessu aflahlutdeildarkerfi með því að kaupa kvóta. Og hvaða tilgangi þjónar það að vera að setja einhvern stórútgerðarstimpil á svona fyrirtæki? Hvaða hlutverki þjónar það? Það er blekking. Það er blekking, hv. þm. og það er einmitt það sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið að leika sér að í þessu máli frá upphafi. Hvað á að segja þá um þá lífeyrissjóði sem hafa verið að fjárfesta í útgerðum og að sjálfsögðu í fullu trausti þess að aflahlutdeildarkerfi væri einhvers virði hér? Eru þeir stórútgerðir og sægreifar, lífeyrissjóðirnir? Ég veit ekki betur en lífeyrissjóðirnir eigi verulegan hlut í fjölmörgum útgerðarfyrirtækjum og víst er að menn geta staðfest það hér í þessum þingsal að svo er. Ég þekki að minnsta kosti útgerðarfyrirtæki sem hafa orðið fyrir þeirri ánægjulegu reynslu að lífeyrissjóðir hafa tekið þátt í atvinnulífinu með því að fjárfesta í þeim. Og þá verður að sjálfsögðu að fjárfesta í því fiskveiðistjórnunarkerfi sem þessi fyrirtæki búa við. Þannig að ég vil aðeins vara við því að menn tali um þessi mál á þessum nótum.

Ég hef í dag ekki komist að þeim kjarna málsins sem skiptir líka mjög miklu máli, þ.e. að með þessum tillögum er verið að flytja atvinnu landverkafólks og sjómanna frá einum landshluta til annars. Mér mun gefast tækifæri til að ræða það hér því það verða fleiri umræður um þetta mál og ég mun benda á það. Það hefur verið komið inn á það í ræðu að minnsta kosti tveggja þingmanna sem hafa bent réttilega á þetta. Ég er þeim þakklátur fyrir það en það ber að fjalla um það meira því þarna er um að ræða lykilinn að því hvers vegna samstaðan um þetta mál er nokkuð bundin landshlutum. Það er hreint og beint verið að flytja atvinnu landverkafólks og sjómanna og þeirra sem stunda þjónustu við fyrirtækin frá einum landshluta til annars. Og á þetta varpar ljósi skýrsla um þessi efni sem hefur verið gerð að tilhlutan Félags útgerðarmanna á Norðurlandi og er unnin af Háskólanum á Akureyri upp úr gögnum frá Fiskifélaginu.