Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:01:31 (4665)

1996-04-12 18:01:31# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:01]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Samkvæmt þeim reglum sem við erum nú að vinna eftir, er ákveðið lágmark sem við eigum að ætla okkur í þorskveiðarnar. Það eru 155 þúsund tonn. Við höfum reiknað með því og ríkisstjórnin hefur sett sér það mark að veiða aðeins 25% af áætlaðri stofnstærð þorsks, þó aldrei lægra eins og segir í þeirra samþykktum. Við erum því í dag að veiða botninn. Við erum að veiða lágmarkið sem er 155 þús. tonn og við erum einnig með í lögum 21 þús. tonn fyrir krókaleyfisbátana sem er líka lágmark, 13,9% af heildarafla. Það er því mjög rangt sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich heldur fram að með þessu frv. sem nú er lagt fram eigi krókabátar bara að hækka en geta ekki lækkað. Þetta er óskiljanlegt. (Gripið fram í: Ekki niður fyrir gólfið.) Við lækkum heldur ekki hitt gólfið, 155 þúsund, samkvæmt þeim reglum sem við höfum myndað okkur og ríkisstjórnin er að vinna eftir. Bæði gólfin eru því til staðar þannig að það liggur fyrir og hver maður getur skilið það sem vill að með þessu frv. er ætlast til þess að heimildir krókabáta hreyfist bæði upp og niður svo sem aðrar aflaheimildir þannig að hér er um algeran misskilng að ræða hjá hv. þm.

Ég hjó eftir því líka í ræðu hans sem mér fannst heldur bágt að hann vill meina að stuðningur við frv. hljóti að fara að einhverju leyti eða miklu eftir landshlutum. Þetta tel ég mjög hæpna ályktun hjá honum og vil minna á það eins og hefur komið fram í þessum umræðum að krókabátar eru skip sem eru færanleg. Þeir færa sig frá einu landshorni til annars, leita eftir bestun í sinn útgerð. Þeir gera það. Það er það dínamíska í kerfinu að þeir geta það. (Gripið fram í: Og selja á markaði.) Og selja á markaði eða selja hverjum sem er. Það er hin frjálsa verðmyndun á fiski. Það getur komið einum til góða og öðrum ekki. Það kemur þeim til góða sem hefur mest efni á að kaupa fisk.

Það getur færst til hvar afli er á Íslandi, það þekkjum við úr sögunni. Á umliðnum árum hefur hagað svo til að það hefur verið tiltölulega mjög góð veiði á grunnslóð fyrir vestanverðu landinu. Það hefur hagað þannig til. En svo hefur aldeilis ekki alltaf verið. Úr sögunni þekkjum við það að grunnslóðarafli hefur oft og tíðum verið mjög góður við norðaustanvert landið þannig að það er að nú að fara í hæpna hluti þegar menn fara að metast um það í dag hvaða landshluta það kemur best, hvort við erum að efla krókaleyfi eða ekki. Það er mjög hæpið vegna þess að ég hélt, herra forseti, að a.m.k. við allir sem værum þingmenn dreifbýlisins ættum að geta staðið saman að því og ættum að vera okkur vel meðvitandi um að það er sama fyrir hvaða kjördæmi við erum að vinna. Ekkert kjördæmi á sér neina lífsvon til framtíðar nema við höfum það sem markmið og sýn að fá að njóta landgæða sinna hverju sinni, alveg sama hvaða kjördæmi það eru, hvort sem það er fyrir norðan, sunnan, austan eða vestan. Slík ummæli held ég því að hljóti að vera ákaflega vafasöm og ekki til góðs fyrir okkur. Þó það fiskist vel í Grindavíkursjó í dag, þá getur það verið breytt á morgun. Besta dæmi sem ég veit um er Húnaflói. Í 40 ár var Húnaflói næstum því þorsklaus. Nú bregður svo við fyrir nokkrum árum að það er að aukast þorskgengd til mikilla muna, enda var Húnaflói mikið útgerðarsvæði áður fyrr á öldum. Nú er það að koma aftur þannig að við vitum aldrei til lengdar hverjum við erum að hygla og hverjum ekki. Við eigum því ekki að horfa svona á þetta, herra forseti, eins og hv. þm. gerir.

Ég vil líka minna á að þegar ákveðnir þingmenn eru að tala um að nú eigi að fullnægja réttlætinu, finnst mér það ekki viturlegt vegna þess að ef við ætlum að fara að rifja upp hvað hefur gerst síðustu 12 árin, þá gæti það orðið ansi löng umræða og það hefur ekki alltaf verið að menn hafi verið að gæta þessa réttlætis. Þeir stóðu ekki og hrópuðu og kölluðu sem núna hrópa hæst þegar t.d. Alþingi ákvað norður-suður línuna. Þeir stóðu ekki og hrópuðu þegar Alþingi ákvað hina kostulegu úthlutun á grálúðu. Nei, það heyrðist bara ekki múkk frá því fólki, ekki múkk, þannig að við getum lengi farið í þá sálma að deila um það. En ég hef ákveðið fyrir mína parta og segi það, herra forseti, og hef alltaf sagt það: Ég ætla ekki og ótilneyddur á Alþingi að fara að rifja upp og deila við menn um þessa sögu. En hún er hörmuleg. (Gripið fram í: Hún er liðin.) Hún er liðin og við skulum reyna að gleyma henni. Það er því mjög bágt þegar einstakir menn fara að telja sig sérstaka handhafa réttlætisins í því hvernig við úthlutum þessu.

Ég lít þannig á, herra forseti, að þetta stjfrv. sem hæstv. sjútvrh. er að flytja, sé ákveðin sátt. Það er ákveðin sátt. Hæstv. ráðherra er að gera það sem honum ber, að sjá svo til þess að flotinn við Ísland, hinn löglega tilkomni fiskveiðifloti geti nokkurn veginn unað við þessar aðstæður. Og ég spyr enn og aftur: Þegar kemur til aukningar á þorskveiðum, hver ætlar að standa fyrir því að einn sitji eftir en aðrir ekki? Hver ætlar hér á hv. þingi að standa fyrir því að nú skuli allir hækka nema einhver einn? Ég trúi því ekki að nokkur maður hafi í reynd hugsað þá hugsun. Ég trúi því ekki. Við eigum ekki annarra kosta völ þegar kemur til aukningarinnar en að aukningin gangi yfir alla, hlutfallslega og það er verið að gera það með þessu frv. og tryggja það með lögum.