Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:25:10 (4672)

1996-04-12 18:25:10# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:25]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram hjá þeim hv. þingmönnum sem talað hafa undir lok þessarar umræðu að hún hefur verið um margt gagnleg og fjörleg á köflum og málefnaleg. Ég skal ekki lengja þessa umræðu umfram það sem beint tilefni hefur verið gefið til. Mér heyrist að það hafi verið beint til mín þremur beinum spurningum. Í fyrsta lagi var spurt hvaða rök væru fyrir því að blanda saman króka- og línuveiðum. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að mönnum þótti ekki ástæða til að banna línuveiðibátunum að vera á handfærum, ef þeir kysu svo, sem eru ekki eins afkastamikil veiðarfæri. En það sjónarmið getur auðvitað komið upp í þessu efni að það getur verið erfiðleikum háð að hafa eftirlit með því hvort bátar eru með línu eða handfæri. En almennt þótti mönnum ekki ástæða til að meina þeim sem yfirleitt eru á línu að fara á handfæri.

Þá spurði hv. 15. þm. Reykv. að því hvort ég vildi breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og í grundvallaratriðum í samræmi við hugmyndir Kvennalistans. Ég get svarað því með einu orði: Nei. Ég tel ekki ástæðu til og mun ekki beita mér fyrir að breyta kerfinu í samræmi við þær hugmyndir.

Síðan spurði hv. 6. þm. Norðurl. e. hvort það væri efnahagslega æskilegt að æ stærri hluti þorskaflans færi til smábáta á sóknarmarki. Ef ég ætti að ráða þessum málum alfarið einn og sjálfur og þyrfti ekki að taka tillit til sjónarmiða annarra teldi ég eðlilegast að það væru öll skip, bæði stór og smá, undir sama kerfi, aflahlutdeildarkerfinu. Þá mundi markaðurinn leiða í ljós hvaða bátar eða skip hentuðu best á hverjum tíma því að það getur líka verið breytilegt eftir því hvernig fiskgengd er á ákveðnu árabili hvaða bátsstærðir eða skipsstærðir eru heppilegastar. Þess vegna er æskilegast að markaðurinn leysti þetta. Um þetta hefur ekki orðið samkomulag og þá verða menn að leita þeirra leiða sem skynsamlegastar eru. Ég hefði talið að það væri aðalmarkmið fiskveiðistjórnarinnar að kerfið lyti þeim lögmálum að menn næðu þeim markmiðum varðandi verndun og uppbyggingu stofnanna sem að er keppt og ég tel að það frv. sem hér liggur fyrir sé skref í þá átt að bæta fiskveiðistjórnunarkerfið að þessu leyti.

Þau sjónarmið sem hv. 5. þm. Norðurl. e. setti fram koma e.t.v. skýrast fram í þeirri setningu að menn geti ekki eftir þetta frv. treyst því að hlutdeild sé hlutdeild. Um þessa fullyrðingu vil ég aðeins segja að að sá hluti sem smábátunum er afmarkaður í dag í núgildandi fiskveiðistjórnunarlögum er 13,9% af heildaraflanum og kemur til frádráttar heildaraflanum áður en farið er að úthluta til annarra sem veiða samkvæmt aflahlutdeildarkerfinu. Það er verið að ákveða að þessi hlutdeild sé fest í sessi. Okkur getur auðvitað greint á um hvort þetta er sanngjörn niðurstaða eða ekki. Ég flyt þetta frv. vegna þess að ég tel að þetta sé sanngjörn niðurstaða í langvarandi deilum. Ég er auðvitað ekki að ætlast til þess að allir fallist á mína samkeppnismælikvarða. En ég held að hitt hljóti að liggja nokkuð í augum uppi að það er til styrktar aflahlutdeildarkerfinu þegar þessi hluti flotans er beint tengdur með hlutdeild við heildaraflamarkið en stendur ekki svona hálflausbeislaður fyrir utan kerfið eins og verið hefur með afmarkaðan hlut. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þetta styrki aflamarkskerfið og dragi úr líkum á því að menn komi fram með hugmyndir um að hræra í því fram og til baka. Ég er þess vegna ósammála hv. þm. um það að þetta veiki forsendur aflahlutdeildarkerfisins. Þvert á móti held ég að þetta styrki það en ég get ekki farið í ágreining við hv. þm. um það hvað er sanngjarnt og hvað er ósanngjarnt. Þar verður tilfinning manna auðvitað að ráða en mín tilfinning er á einn veg í þessu máli.

Ég vil svo að lokum þakka þeim hv. þm. sem lýst hafa yfir stuðningi við frv. og þau sjónarmið sem það er byggt á og vænti þess að hv. nefnd fari yfir þau sjónarmið sem hafa verið sett fram í umræðunni.