Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:39:50 (4678)

1996-04-12 18:39:50# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér erum við með þrjú mál undir í einu og hvert um sig sæmilegt að vöxtum. En það gefst tækifæri til þess bæði í hv. nefnd og einnig við 2. umr. að fara nánar í saumana á þeim efnisatriðum en hér gefst nú. Ég ætla aðeins að fara yfir þessi frv. þó og í þeirri röð sem þau eru á dagskránni. Það er í fyrsta lagi frv. til breytingar á lögum um Þróunarsjóðinn. Það hefur aðeins komið til umræðu í dag og þá einmitt vegna þess að menn höfðu bundið vonir við að þær breytingar ...

(Forseti (GÁS): Forseti verður að grípa inn í ræðu hv. þm. vegna orða hans. Hér er fjallað um 12. og 14. dagskrármálið. 13. dagskrármálið kemur fyrir að þeim afloknum. Hafi hv. þingmenn eða aðrir misskilið forseta ...)

Ég þakka forseta fyrir þessa ábendingu. Ég hafði misskilið þetta þannig að öll þrjú málin væru undir í einu. En svo er sem sagt ekki. Það hefur komið fram í umræðum fyrr í dag um fyrra dagskrármál, þ.e. breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, að menn höfðu reiknað með því að sú lagabreyting sem gerð var á Þróunarsjóðnum fyrir jól mundi skila okkur tilteknum ávinningi. Síðan eru menn nú komnir fram með frv. til breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða sem eru í rauninni ívilnandi með ákveðnum hætti fyrir smábátana. Þar af leiðir að ég tel minni líkur á því að eigendur þessara báta sjái sér hag í því alveg á næstunni að úrelda þá. Þó svo að hér sé með þessu frv. gert ráð fyrir því að það verði aðeins víkkaður út sá tími sem menn geta sloppið undir og lögin geri ráð fyrir að þorskaflahámarksbátar geti selt sitt hámark auk þess að fara í úreldingu, sem þá verður að hámarki 60%, er ég ekki viss um að það séu svo spennandi tilboð miðað við það sem frv. til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða býður upp á að menn sjái í rauninni þá fækkun í þessum flota sem þeir ella hefðu mátt búast við. Ég vil þess vegna endurtaka að ég tel að menn hefðu átt að hafa þolinmæði til að sjá hverju sú lagabreyting sem farið var í á Þróunarsjóðnum í lok síðasta árs skilaði og jafnvel að setja sér einhver markmið í fækkun þessara báta þegar menn sáu fram á hversu stór þessi floti stefndi í að verða. Þá hefðu menn getað farið að taka aðrar ákvarðanir sem menn hafa síðan snarað sér í að taka nú án þess í rauninni að hafa nægar upplýsingar í höndunum.

Hvað varðar 14. dagskrármálið sem er hér líka á dagskrá þá er þar á ferðinni mjög mikilvægt mál. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að nauðsynlegt er að koma því til nefndar vegna þess að ég held að það væri afskaplega æskilegt að geta rætt þetta mál að hluta samhliða því frv. sem nú er verið að fjalla um í hv. nefnd, frv. sem varðar umgengni um auðlindina. Í þessu frv. gert ráð fyrir því að fullvinnsluskipin lúti sambærilegri löggjöf og önnur skip hvað varðar umgengni um auðlindina. Hvað efnisþætti þessa frv. varðar sýnist mér að menn séu fyrst og fremst að taka mið af þeim veruleika sem þeir hafa rekið sig á. Sú löggjöf sem hefur gilt um þetta efni, þ.e. um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, hefur ekki náð þeim tilgangi sem menn lögðu upp með. Menn eru hér einfaldlega að beygja sig fyrir því að hlutirnir ganga ekki einlægt eftir og eðlilegt að löggjafinn grípi þá inn í til þess að menn geti farið að lögum eða haft þann lagaramma sem möguleiki er að vinna eftir.