Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:59:55 (4682)

1996-04-12 18:59:55# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:59]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og réttilega hefur komið fram vorum við nokkrir stjórnarþingmenn í sjútvn. sem sömdum drög að þessu frv. fyrir sjútvrn. Það er líka rétt sem hér hefur komið fram að frá því á unga aldri hef ég verið útgerðarmaður og verið í Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þar á ég félaga og vini marga. Ég skil samt ekki, herra forseti, hvernig það má vera að menn sem hafa verið útgerðarmenn megi ekki fjalla um útgerð. Mega bændur þessa lands þá ekki fjalla um landbúnaðarmál eða fólk sem hefur unnið hjá verkalýðshreyfingunni alls ekki tala um verkalýðsmál og opinberir starfsmenn ekki um opinberan rekstur o.s.frv.? Ég held að það væri bara til bóta að fleiri útgerðarmenn væru á þessu háa þingi og kæmi ekki að sök þó að einhverjir sem hefðu nálægt útgerð komið væru að fjalla um málefni útgerðarinnar. Ég get ekki séð nokkurn ljóð á því ráði.

Í sambandi við frv. sem hér er til umræðu er þess fyrst að geta að nefndin fór yfir þetta mjög ítarlega með mjög mörgum aðilum og öllum þeim sem við töldum að þetta mál snerti og um þetta gætu gefið vitnisburð. Niðurstaða okkar var einhlít að því leyti að enginn gat bent á að líffræðilega væri eitthvað sem mælti því gegn að úrkasti væri hent í hafið, hvorki slógi né einhverjum þeim meðafla sem ekki er hægt að nýta, enginn. Allir voru sammála um að það hefði hvergi komið fram annað en þessi úrgangur mundi ganga í samband við náttúruna, að marflær hafsins og aðrar slíkar skepnur mundu sjá til þess að brjóta það niður, það gengi í samband við náttúruna og yrði hluti af henni aftur. Þetta var óumdeilt hjá öllum sem nefndin ræddi við.

Það lá líka fyrir nefndinni að við höfum nú þegar vinnsluskip hér við land sem eru búin fullkomnustu mjölvinnslutækjum. Það lá fyrir að það var hagkvæmara og er hagkvæmara fyrir þá útgerð þó hún hafi fjárfest í þessum búnaði, þó að búnaðurinn sé allur um borð, þá er hagkvæmara að dómi útgerðarmannanna að henda úrganginum og slóginu útbyrðis en henda því í mjölkvörnina. Og ég spyr þá: Eftir hverju eru menn að sækjast? Er það náttúrulögmál að við eigum að hirða þó að afraksturinn sé enginn, þó að tekjurnar séu engar? Er það glæpur að henda krossfisk? Þeim hefur alltaf verið hent, er það glæpur? Nei. Það er eðlilegt að henda því sem upp úr hafinu kemur ef ekki er hægt að gera úr því verðmæti. Og hver getur dæmt um það nema sá sem gerir út og fiskar fisk? Hver getur dæmt um það? Ef þú fiskar grjót eða ost, áttu þá að koma með það að landi? Það getur ekki verið, herra forseti, að við eigum að koma með grjót að landi. Ekki ost heldur frekar en krossfiska. Það hlýtur að vera hagkvæmnin ein sem rekur okkur til þess að stunda sjó. Það er engin önnur ástæða fyrir sjósókn en sú. (Gripið fram í: Mundir þú éta grjót?) Hún er eingöngu til þess að koma með verðmæti að landi, eingöngu til þess. Það er ekkert náttúrulögmál að við séum að róa. Nei. Við erum að gera það til að ná í verðmæti. Sé aflinn ekki verðmæti samanber krossfisk, þá komum við ekki með hann að landi. Þetta liggur alveg fyrir.

Þess vegna var það að nefndinni þótti það einsýnt að úr því að engin líffræðileg rök lágu fyrir því að hirða fisk sem ekki var hægt að nýta til vinnslu eða í ísfisk, þá væri engin ástæða til þess að gera útgerðina óhagkvæmari en hún er með því að krefjast þess að fjárfest yrði fyrir hundruð og aftur hundruð millj. ef það lægi fyrir að jafnvel þó að fjárfestingin væri gefins, mundi það ekki borga sig að framleiða mjölið úr þessum úrgangi. Enda töldu nefndarmenn að það lægi alveg fyrir að ef það væri hagkvæmt að nýta slóg eða úrkast, mundi útgerðin sjálf, hin kapítalísku viðhorf útgerðarinnar að sjálfsögðu fara í að nýta það og fjárfesta til þess. Það getur engin opinber nefnd eða löggjafinn sagt til um það hvað er hagkvæmt í þessu. Það geta aðeins útgerðarmaðurinn og sjómennirnir sjálfir því að þeirra er hluturinn. Þess vegna var það sem okkur þótti það einsýnt að þessi lög þjónuðu engum tilgangi. Við verðum að miða við það að íslensk útgerð nái hámarksafkomu og það er viðleitni okkar með þessari lagasetningu að koma í veg fyrir það að við förum að óþörfu að fjárfesta fyrir stórkostlega fjármuni ef það skilar ekki neinum arði. Nógu mikil er fjárfestingin fyrir á Íslandi sem ekki skilar arði. Nógu illa stöndum við fyrir þó við bætum ekki við. Þess vegna var það að við vorum allir sammála um að breyta þessu, koma með þessa kúvendingu sem menn kalla og hætta við það að skylda skipin til að vera búin þessum dýru verksmiðjum vegna þess að það þjónaði engum tilgangi. Ef menn sjá það síðar að það er hægt að græða á þessu, þá gera menn það. Þeir gera það sjálfir. Við lifum í kapítalísku landi. Sovét-Ísland kom aldrei og kemur aldrei. Þetta er kapítalískt land. Það getur enginn dæmt um þetta nema útgerðarmennirnir. Þess vegna lögðum við til að svona yrði farið að, þ.e. að við féllum frá þessu ákvæði. Það var ekkert varðandi mengun hafsins, það var ekkert varðandi umgengnina sem rak á eftir því að gera þetta. Þetta var eingöngu til þess að forða útgerðinni og þar af leiðandi þjóðfélaginu frá stórkostlegum fjárfestingum þar sem það lá fyrir að þær mundu ekki skila okkur neinum arði. Það er ástæðan fyrir því að við komumst að þessari niðustöðu og frv. er flutt í þessari mynd.