Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 19:22:30 (4691)

1996-04-12 19:22:30# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[19:22]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé óþarfi að gera lítið úr því að fjárfesting þurfi að borga sig. Ég tel þvert á móti að við höfum alls ekki gætt nægilega að því hér á Íslandi að fjárfesting borgi sig. Hins vegar verða menn að gæta fleiri sjónarmiða og það kemur fram í frv. að það eigi að byggja á þeim lögum sem eru í gildi um umgengni um auðlindir sjávar. Þar er fyrsta boðorðið að allur fiskur skuli koma að landi. Það er ekki flóknara en svo. Hins vegar eru samkvæmt frv. sem sjútvn. er að vinna með gefnir ákveðnir afslættir þar á. Þeir afslættir sem þar eru eru ekki hafnir yfir efa. Það kom til umræðu hér þegar það frv. var til 1. umr. Þá voru sett ákveðin spurningarmerki við þær undantekningar sem voru í því frv. varðandi það hvað þyrfti þá ekki að koma með ef allur fiskur á að koma að landi. Svo er það þetta: Hvað eru verðmæti? Það fer auðvitað dálítið eftir því um hvað menn eru að fjalla og hvort það er markaður fyrir. Við höfum oft farið yfir það og ég hef margoft nefnt til sögunnar ýmislegt af því sem einu sinni var ekki talið verðmæti en er nú verðmæti. Við getum tekið grálúðu sem dæmi. Þegar hún kom í rækjutroll áður fyrr var henni fleygt því að hún var ekki talin verðmæti. Nú er slegist um þennan fisk og hann er að verða uppurinn á Íslandsmiðum. Humar var ekki talinn verðmæti einu sinni, honum var hent. Ég tel að fiskmarkaðir hafi gjörbreytt þessari stöðu þannig að það sé mjög einfalt að skylda fiskiskipaflotann til að koma með allan fisk að landi vegna þess að við vitum í rauninni ekki hvað eru verðmæti fyrr en á það er látið reyna og við eigum þann möguleika núna í gegnum fiskmarkaðina.

Síðan vil ég endilega koma að sérstöku áhugamáli mínu. Það eru líklega 12 ár síðan ég varð mikill áhangandi þeirrar hugmyndar að ef útgerðin ekki treystir sér til að hirða að leyfa þá sjómönnunum að eiga. Það getur vel verið að þó að sjómennirnir hafi ekki hag af því að vinna tiltekna tegund um borð eða gera úr henni verðmæti ef þeir eiga að búa við hlutaskiptakerfið þá geti hún verið þeim verðmæti ef þeir fá að eiga hana einir. Ég hef mælt fyrir þáltill. á hinu háa Alþingi sem lýtur í þá átt að sjómennirnir fái að eiga aukaaflann og ég ætla bara að endurtaka það hér að mér finnst sjálfsagt að menn skoði þann möguleika til þess að tryggja það enn frekar að það komi þá allt að landi sem getur mögulega verið verðmæti.