Minning Björns Pálssonar

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:01:44 (4698)

1996-04-15 15:01:44# 120. lþ. 118.1 fundur 235#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:01]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Björn Pálsson, fyrrverandi alþingismaður og bóndi, andaðist á Héraðshælinu á Blönduósi fimmtudaginn 11. apríl. Hann var níutíu og eins árs að aldri. Björn Pálsson var fæddur 25. febrúar 1905 á Snæringsstöðum í Svínavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru hjónin Páll Hannesson bóndi og Guðrún Björnsdóttir húsmóðir. Hann fluttist á barnsaldri með foreldrum sínum að Guðlaugsstöðum í Svínavatnshreppi og ólst þar upp við sveitastörf fram á fullorðinsaldur. Hann lauk búfræðiprófi í Bændaskólanum á Hólum vorið 1923 eftir tveggja vetra nám, innritaðist í eldri deild Samvinnuskólans í Reykjavík 1924 og lauk þar burtfararprófi vorið 1925. Veturinn 1927--1928 var hann við nám í Voss í Noregi og ferðaðist um Noreg og Danmörku. Haustið 1928 fór hann á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga til Nýja-Sjálands til að kynna sér flokkun og meðferð á frystu lambakjöti. Á heimleið kom hann við í Ástralíu, ferðaðist þar um og kynnti sér meðal annars sauðfjárbúskap. Hann kom heim sumarið 1929 og ferðaðist um haustið milli frystihúsa. Næstu árin vann hann á haustin við kjötmat víða um land. Árið 1930 hóf hann búskap á Ytri-Löngumýri í Svínavatnshreppi. Árið 1979 dró hann úr búrekstri og eftir það bjuggu synir hans með honum á jarðeigninni. Á árunum 1982--1985 dvaldist hann í Reykjavík, en fluttist aftur norður og hafði fjárbú þangað til hann átti skammt í nírætt. Jafnframt búskap var hann kaupfélagsstjóri á Skagaströnd 1955--1960. Um þær mundir hófst hann handa um útgerð, stofnaði útgerðarfélagið Húnvetning 1957 og Húna 1962. Útgerðina rak hann allmörg ár.

Björn Pálsson var oddviti Svínavatnshrepps 1934--1958 og sýslunefndarmaður 1946--1958. Hann var árum saman í stjórn Kaupfélags Húnvetninga á Blönduósi og Sláturfélags Austur-Húnvetninga, en lét af þeim störfum þegar hann varð kaupfélagsstjóri á Skagaströnd. Vorið 1959 var hann í framboði fyrir Framsóknarflokkinn við alþingiskosningarnar í Austur-Húnavatnssýslu og náði kjöri. Frá hausti 1959 til vors 1974 var hann þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra. Hann nálgaðist sjötugt og gaf ekki lengur kost á sér til þingmennsku, hafði setið á 16 þingum alls. Á árinu 1963 sat hann fund Þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsríkjanna í París.

Björn Pálsson var af dugmiklum húnvetnskum fjárbændum kominn í báðar ættir. Í frændgarði hans voru auk bænda þjóðkunnir lærdóms- og vísindamenn. Honum var létt um nám, en hann stefndi frá æskuárum að búskap í sveit, nám hans hér og dvöl hans erlendis beindist í þá átt. Hann var um áratugi umsvifamikill stórbóndi, fékkst þó við sitthvað annað jafnhliða. Honum var ekki eiginlegt að fara troðnar slóðir í búskap og þjóðmálum, myndaði sér sjálfur skoðanir. Í viðtali kvaðst hann snemma hafa orðið uppivöðslusamur og stríðinn, stundum hrekkjóttur, en alltaf glaðlyndur, eins og hann orðaði það. Í heimahéraði stóð hann oft í málaferlum og hafði stundum gaman af. Á Alþingi hafði hann ekki alltaf samstöðu með flokksbræðrum sínum í afstöðu til mála. Hann var mælskur maður, flutti ræður sínar blaðalaust, kryddaði þær gamanyrðum til að vekja athygli. Á gamalsaldri rifjaði hann upp ýmislegt úr æviferli sínum, sagði fyrir og Gylfi Gröndal skráði á bók. ,,Skapgerð mín er þannig að ég get haft ánægju af flestu, sem ég geri; gæfan í lífinu byggist að miklu leyti á þeim gullvæga eiginleika,`` sagði Björn. Hann sagði einnig: ,,Ég hef lifað mér til gamans.`` Það er heiti bókarinnar.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að minnast Björns Pálssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]