Fæðingarorlof

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:11:37 (4702)

1996-04-15 15:11:37# 120. lþ. 118.2 fundur 241#B fæðingarorlof# (óundirbúin fsp.), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:11]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vek athygli á því að við kvennalistakonur höfum lagt fram þingsályktun þar sem við mælum með að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði og að feður fái þriggja mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. En ég vil eindregið vara við þeirri stefnu sem kemur fram í áðurnefndu frv. Það má telja mjög líklegt að ef kjör fólks verða það slæm í fæðingarorlofi eins og þarna kemur fram, þá velji fólk þann kostinn að hætta að eiga börn og viðkoma þjóðarinnar verður álíka og gerist sums staðar í Evrópu, t.d. á Ítalíu og Frakklandi en þar eru næstum því hætt að fæðast börn. Í öðru lagi ef kjör fólks í fæðingarorlofi verða svona léleg, þá má búast við því að í fyrsta lagi verði frekar sá aðilinn sem hefur mjög lág laun, þ.e. mæðurnar, sem taki fæðingarorlofið og í öðru lagi að foreldrar hreinlega nýti ekki fæðingarorlofið og börnin fari strax í gæslu. Það eru ekki góðar uppeldisaðferðir og algjört grundvallaratriði fyrir þroska barna og tengsl að þau fái að vera með foreldrum sínum á fyrsta æviárinu.