Bætur frá Tryggingastofnun

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:22:22 (4714)

1996-04-15 15:22:22# 120. lþ. 118.2 fundur 245#B bætur frá Tryggingastofnun# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. um reglur og reglugerðir frá heilbr.- og trmrn. Fyrirspurnin er tvíþætt.

Nú er liðið á annan mánuð frá því að bætur úr almannatryggingum voru lækkaðar til þeirra sem samkvæmt mati Tryggingastofnunar geta ekki framfært sig án þeirra, þ.e. frá því að hámarksuppbót var lækkuð til lífeyrisþega með mikinn umönnunar- og lyfjakostnað. Þeir hafa því tvívegis fengið greiddar bætur undir framfærslumörkum. Hæstv. ráðherra lofaði í utandagskrárumræðu að hún hygðist koma til móts við þetta fólk með bættum reglum um endurgreiðslur á læknis- og lyfjakostnaði. Ekkert hefur bólað á nýrri reglugerð um þessar endurbættu reglur þó svo að lífeyrisþegar hafi búið við skertar bætur í tvo mánuði. Því spyr ég: Hvað dvelur orminn langa í ráðuneytinu?

Í öðru lagi spyr ég um ekkjulífeyri eða lengdar dánarbætur. Um áramótin var felldur niður réttur til ekkjulífeyris frá Tryggingastofnun og í staðinn var opnað á heimild fyrir greiðslu dánarbóta í lengri tíma en sex mánuði. Nú eru liðnir rúmir fjórir mánuðir frá því að þessum lögum var breytt en ekki er enn unnt að gefa neinar upplýsingar um það í hvaða sérstöku tilvikum heimilt er að framlengja greiðslu dánarbóta vegna þess að það hafa ekki komið nein fyrirmæli úr heilbr.- og trmrn. um það hver þessi sérstöku tilvik skuli vera. Því spyr ég: Hverjar eru þær sérstöku aðstæður sem geta heimilað framlengdar dánarbætur? Og hversu lengi má búast við því að menn þurfi að bíða eftir þeim reglum sem hér um ræðir?