Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:43:47 (4720)

1996-04-15 15:43:47# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:43]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Allar ákvarðanir sem varða hámark á veiði úr okkar mikilvægustu fiskstofnum eru þýðingarmiklar. Það er því ábyrgðarhlutur að ganga þar lengra heldur en rök standa til um. Og okkur ber varðandi okkar meginfjöregg, ekki síst varðandi þorskstofninn, að vera varúðarmegin þegar ákvarðanir eru teknar um hámarksafla.

Sú samþykkt sem ríkisstjórnin gerði eftir síðustu kosningar, og ekki var þá sérstaklega mótmælt af stjórnarþingmönnum að mig minnir, miðaði við að tekið yrði ákveðið hlutfall, 25% að jafnaði, úr veiðistofni. Mér finnst eftir atvikum að þar hafi verið skynsamlega að máli staðið þó alltaf megi deila um nákvæma prósentutölu í þessu sambandi. Á undan hafði farið fram veruleg vinna í þessum málum.

Nú hefur það hins vegar gerst að einn stjórnarþingmaður af öðrum hefur gengið fram og yfirboðið hver annan með áskorunum á hæstv. sjútvrh. að auka aflahlutdeild í þorski á þessu fiskveiðiári. Ég er þeirrar skoðunar að ekki liggi fyrir fullnægjandi rök til þess að auka veiðar úr þorskstofninum og engin áhætta sé tekin með því að bíða til næsta fiskveiðiárs með að taka nýjar ákvarðanir í þessum efnum. Auðvitað er það svo að rekstrarskilyrði fiskvinnslu í landinu eru víða nánast á heljarþröm. Í öllu falli stendur fiskvinnslan víða mjög illa og af þeim sökum væri auðvitað mjög æskilegt að taka ákvörðun. En við megum ekki láta slíkt ráða ferðinni í þessum efnum. Þess vegna er ég ánægður að heyra hæstv. sjútvrh. mæla fyrir því að kvika ekki frá áður tekinni ákvörðun um hámarksafla og vænti að sú ákvörðun hans standi.