Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:51:04 (4723)

1996-04-15 15:51:04# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:51]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Einn helsti vandi fiskveiðistefnunnar er sá að erfitt er að gera tvennt í senn: Að sýna staðfestu og ábyrgð með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga og að bregðast skjótt við mikilvægum tíðindum um lífríki hafsins. Varasamt er að hlaupa eftir pólitískum þrýstingi. Innantóm fyrirgreiðslupólitík á ekki samleið með ábyrgri fiskveiðistefnu. En á hinn bóginn er mikilvægt að stjórn fiskveiða sé nægjanlega sveigjanleg til að mæta aðstæðum hverju sinni.

Nú virðist mönnum bera saman um að ástand þorskstofnsins sé mun betra en áður var talið. Sjómenn hafa lýst þeirri skoðun og rannsóknir Hafrannsóknastofnunar benda til hins sama. Miðað við gildandi aflareglu og áreiðanleika vísindarannsókna á þessu sviði get ég ekki séð að það séu skýr vísindaleg rök með eða á móti því að hækka aflaheimildir, því miður. Því er hér alfarið um pólítíska ákvörðun ráðherra eða framkvæmdarvaldsins að ræða.

Stærsti vandi fiskveiðistjórnunar um þessar mundir er ekki spurningin um það hvort rétt sé að auka aflaheimildir en ef svo væri, hvort miða skuli við 10 eða 20 þús. tonn. Hitt skiptir miklu meira máli frá sjónarmiði löggjafans að fyrirkomulag rannsókna og ráðgjafar tryggi ábyrga stjórn og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Ég er þeirrar skoðunar að tímabært sé að endurskoða ríkjandi skipan í þessum málum.

Í fyrsta lagi eru of náin tengsl á milli fiskirannsókna og hins pólitíska valdakerfis. Ráðgjöf og skoðanaskipti rannsóknarfólks Hafrannsóknastofnunar markast til að mynda um of af því að stofnunin lýtur yfirstjórn sjútvrn. Leidd hafa verið sterk rök að því að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sé að sumu leyti reist á hæpnum forsendum og að óvissan í lífríkinu sé mun meiri en ráðgjöfin geri ráð fyrir. Ekki virðist hlustað nægilega vel á efasemdir og gagnrýnisraddir í hópi fræðimanna utan stofnunarinnar. (Forseti hringir.) Rannsóknir á þessu sviði sem öðrum verða best stundaðar þar sem svigrúm gefst fyrir gagnrýnin efnistök og frjáls og óheft skoðanaskipti. --- Ég er rétt að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. -- En í annan stað þarf að taka mun meiri mið af sjónarmiðum heimamanna og sjómanna. Á þetta hefur Kvennalistinn lagt áherslu í mörg ár með hugmyndum sínum um byggðakvóta, samstarfsnefndir og valddreifingu í sjávarútvegi.