Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:55:45 (4725)

1996-04-15 15:55:45# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:55]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Frá því á sl. vori höfum við alltaf af og til rætt ástand þorskstofnsins og hvernig eigi að haga ákvörðun um veiðiheimildir. Skömmu eftir þingkosningar var ákveðið af núv. ríkisstjórn að móta ákveðna reglu, svokallaða aflareglu, um það hvernig við nýtum stofninn. Ekki minnist ég þess að þeir sem af og til síðan hafa mælt með því að gengið yrði lengra hafi þá haft uppi aðra skoðun á því hvernig bæri að standa að þeirri nýtingu með langtímasjónarmið í huga. Ég tel þess vegna svolítið undarlegt í ljósi þess sem við vitum nú um veiðarnar í ár, um ástand stofnsins, hvers vegna menn ítreka að leggja til sífellt meiri heimildir. Ekki það að stofninn hafi vaxið samfellt í samræmi við þær skoðanir.

Á síðasta vori þegar við mótuðum ákvörðun um aflaheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári þá sagði aflareglan að við mundum ekki fara neðar en í 155 þús. tonn en mat á stærð stofnsins gaf efni til að fara í 140 þús. tonn. Nýlegar upplýsingar um raunafla, raunverulegar veiðar úr stofninum í ár, benda til að hann verði ekki minni en 170 þús. tonn. Þá vil ég spyrja þá sem hafa lagt til að við færum umfram 155 þús. tonn: Við hvað eru þeir þá að miða? Eru þeir að miða við 140 þús. tonn? Eru þeir að miða við 155 eða eru þeir að miða við 170 þús. tonn? Ég tel það skipta nokkru máli því að sumir þeirra leggja í dag til að gengið verði skemmra heldur en 170 þús. tonn, ef þeir hafa gengið út frá að talan 155 mundi standast.

Það er vafalaust afskaplega gott hlutskipti að geta sagt við fólk: Já, sjáið þið, þetta sagði ég. Þetta var svona gott í fyrra. Og svona reynist það gott í ár. En ég held því miður að við verðum að reyna að horfa til lengri tíma þegar við veltum fyrir okkur hvernig við viljum nýta okkar helstu auðlind og stunda þá nýtingu af búhyggindum en ekki skammsýni.