Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:58:11 (4726)

1996-04-15 15:58:11# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), StG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:58]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram miðast núverandi aflamark við 25% nýtingarregluna, þ.e. að veiða ekki meira en fjórðung úr veiðistofni eins og hann mælist á hverjum tíma. Mín skoðun er sú að við eigum að fylgja vísindalegum forsendum hvað veiðarnar varðar. Ég treysti fiskifræðingum okkar og tel þá hina hæfustu vísindamenn með mikla þekkingu á hafinu og lífríki þess. Það geta ekki talist ásættanleg rök þeirra er nú vilja auka aflaheimildir að þeir sem búnir eru með úthlutaðar þorskaflaheimildir skorti nú aukinn rétt vegna meðafla. Það eru óásættanleg rök.

Ég er andvígur því að auka aflann nú. Ég tel hins vegar mjög sterkar líkur á að aflaheimildir verði auknar á næsta fiskveiðiári en að auka aflann nú tel ég að engar forsendur standi til.