Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 16:13:35 (4734)

1996-04-15 16:13:35# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[16:13]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hinn 28. nóv. sl. gerði ég Alþingi munnlega grein fyrir stöðu mála í viðræðum um hugsanlega þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Þar gerði ég grein fyrir norræna vegabréfasambandinu og því að á fundi sínum 27. febr. 1995 hafi norrænu forsætisráðherrarnir lýst því yfir að það þjónaði best hagsmunum norræna vegabréfasambandsins að Norðurlöndin hefðu sameiginlega jákvæða afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfinu. Þegar Danmörk, Finnland og Svíþjóð sóttu um áheyrnaraðild að Schengen-samstarfinu með fulla þátttöku í huga gerðu þessi ríki þann fyrirvara að fullnægjandi lausn fyndist fyrir Ísland og Noreg sem tryggði áframhaldandi ferða- og vegabréfafrelsi innan Norðurlanda.

Í ræðu minni 28. nóv. sl. gerði ég einnig grein fyrir meginsamningsforsendum Íslands fyrir þátttöku í Schengen-samstarfinu. Þær eru:

Í fyrsta lagi að með samstafssamningi við Schengen-ríkin verði tryggt áframhaldandi ferðafrelsi innan Norðurlandanna ásamt því að taka þátt í stærra svæði þar sem slíkt frelsi ríkir og nær til núverandi Schengen-ríkja.

Í öðru lagi að samstarfssamningur innihaldi fyrirkomulag sem tryggi okkur áhrif í samræmi við þær skyldur sem við tökumst á hendur, þ.e. að Íslandi og Noregi verði tryggður réttur til þátttöku í ákvörðunarferli á öllum stigum Schengen-samstarfsins og að fundin verði lausn sem felur í sér að til að formlegar ákvarðanir verði bindandi fyrir okkur verði þær teknar á vettvagi þar sem við tökum þátt með hliðstæðum hætti og Schengen-löndin þar sem allar ákvarðanir þarfnast einróma samþykkis.

Þriðja samningsforsendan felur í sér að byggja verði á regluverki Schengen-samstarfsins en þar þarf að taka tillit til þess að Ísland og Noregur standa utan tollasambands Evrópusambandsríkjanna og samstarf þeirra um skatta og önnur gjöld, svo og annarra ESB-reglna sem gilda um vörueftirlit. Þarf að semja sérstaklega um hvernig þau vandamál verði leyst sem þessi staða hefur í för með sér.

[16:15]

Í fjórða lagi verður Ísland að vera reiðubúið að greiða hluta í sameiginlegum kostnaði og þeim innlenda kostnaði sem leiðir af þátttöku í Schengen-samstarfinu. Það er enn ósamið um hver kostnaðarhlutdeild Íslands verður í rekstri Schengen-skrifstofunnar í Brussel en samningsforsendur okkar eru að kostnaðarhlutdeildin verði sambærileg og í öðru alþjóðlegu samstarfi.

Síðastliðinn föstudag var dreift hér á Alþingi skýrslu dóms- og kirkjumrh. og utanrrh. um Schengen-samstarfið. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að í öllum megindráttum liggur fyrir viðunandi lausn fyrir Ísland á þeim samningsforsendum sem ég rakti hér áðan fyrir þátttöku í Schengen-samstarfinu. Þeim ráðherrum á Norðurlöndum sem fara með málefni Schengen hefur verið boðið til fundar með framkvæmdanefnd Schengen nk. fimmtudag þar sem fyrirhugað er að bjóða norrænu ríkjunum formlega þátttöku í Schengen-samstarfinu sem áheyrnaraðilum. Með áheyrnaraðild felst réttur til þátttöku í öllum fundum á vegum Schengen með málfrelsi og tillögurétti. Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum 9. þessa mánaðar að fallast á boð um þátttöku í Schengen-samstarfinu með áheyrnaraðild. Í framhaldi af þessu er stefnt að því að ljúka gerð samstarfssamnings um þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu og aðildarsamningi fyrir Danmörku og Finnland og Svíþjóð fyrir árslok. Í framhaldi af því verður samningur lagður fyrir Alþingi til umfjöllunar. Það verður í fyrsta lagi um mitt ár 1998 sem þátttaka Norðurlandanna getur orðið að raunveruleika gangi þau tímaplön eftir sem hér hefur verið lýst.

Í skýrslunni er auk þess fjallað um þau helstu áhrif sem þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu hefur auk þess sem meginefnisatriði Schengen-samstarfsins eru rakin í fylgiskjali. Samhliða því sem viðræður hafa átt sér stað um fyrirkomulag á þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu hafa verið haldnir embættismannafundir um ýmis tæknileg atriði í Schengen-samstarfinu auk þess sem Schengen-ríkin sendu íslenskum stjórnvöldum spurningalista þar sem óskað var svara við atriðum varðandi lagalega stöðu og afstöðu til ýmissa atriða sem samningurinn fjallar um. Þessar spurningar vörðuðu niðurfellingu eftirlits á innri landamærum, eftirlit á ytri landamærum, flughafnir, tölvuvæðingu lögregluskráa og vernd gegn þeim, fíkniefni, vegabréfsáritanir, endurviðtöku og hæli flóttamanna, innflytjendur, gagnkvæma aðstoð í sakamálum og samstarf lögregluyfirvalda.

Í framhaldi af svörum Íslands við þessum spurningum bárust viðbótarspurningar sem flestar fjölluðu um gagnkvæma aðstoð í sakamálum og framsal sakamanna og þá sérstaklega spurningar er vörðuðu skýringar á þeim fyrirvörum og yfirlýsingum sem Ísland gerði er samningur Evrópuráðsins um þessi atriði var fullgiltur.

Schengen-ríkin leggja mikla áherslu á að samstarf vegna rannsóknar og meðferðar sakamála gangi snurðulaust fyrir sig, en fyrirvarar og yfirlýsingar við samninga á þessu sviði geta takmarkað gildissvið þeirra, en áhersla er lögð á að samræmdar reglur gildi. Í flestum tilvikum var hér um að ræða tæknileg atriði sem ég tel ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um nú nema sérstakt tilefni gefist til.

Norræna vegabréfasambandið hefur verið flaggskip norrænnar samvinnu. Eftir að Danmörk sótti um áheyrnaraðild að Schengen-samstarfinu árið 1994 með fulla þátttöku í huga var ljóst að samstarf innan norræna vegabréfasambandsins var í hættu. Það var því sem forsætisráðherrar Norðurlandanna lýstu því yfir á fundi sínum 27. febr. 1995 að það þjónaði best hagsmunum norræna vegabréfasambandsins að Norðurlöndin hefðu sameiginlega jákvæða afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfinu. Á þessum forsendum hófu Norðurlöndin viðræður við Schengen-ríkin um hugsanlega þátttöku. Það varð fljótlega ljóst að Schengen-ríkin voru ekki tilbúin til að gera samstarfssamning við Norðurlöndin í heild þar sem þrjú þeirra voru aðilar að ESB og því leiddi það til þess að Finnland og Svíþjóð sóttu um áheyrnaraðild að Schengen í júní 1995 með fulla þátttöku í huga. Norrænu ESB-ríkin gerðu þann fyrirvara í umsóknum sínum að unnt yrði að viðhalda norræna vegabréfasambandinu. Það er áratuga náin samvinna norrænu ríkjanna innan norræna vegabréfasambandsins sem er forsenda þess að Schengen-ríkin tóku ákvörðun um að gefa Íslandi og Noregi kost á samstarfssamningi. Schengen-ríkin hafa lagt áherslu á að samstarfssamningur við Ísland og Noreg að Schengen-samstarfinu verði ekki fordæmi fyrir önnur ríki utan ESB og að samstarfssamningurinn byggist einungis á áratuga nánu samstarfi Norðurlandanna á þessu sviði. Þau hafa jafnframt lagt áherslu á að slíkur samningur verði ekki heldur fordæmi fyrir núverandi eða verðandi aðildarríki ESB um að þau geti gert samstarfssamning með svipuðum hætti um þátttöku í samstarfinu og vilja þannig tryggja að gangi Ísland eða Noregur í Evrópusambandið verði þessi ríki aðilar að Schengen-samningnum en starfi ekki áfram innan samstarfsins á grundvelli samstarfssamningsins. Ekkert Norðurlandanna hefur skuldbundið sig til þess að viðhalda norræna vegabréfasambandinu utan Schengen-samstarfsins óski einn aðili samstarfsins þess. Samstaða Norðurlandanna hefur gengið út á að finna viðunandi lausn fyrir þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu og að þannig yrði unnt að viðhalda norræna vegabréfasambandinu.

Við stöndum á þeim tímapunkti nú að pólitísk lausn á því er í sjónmáli. Ég tel alveg ljóst að norrænu ESB-ríkin telja hagsmunum sínum betur borgið innan Schengen-samstarfsins en utan og að þau muni gerast aðilar að því samstarfi án tillits til þess hvort Ísland gerir það eða ekki. Ákveði Ísland að ganga ekki til samstarfs við Schengen-ríkin nú erum við jafnframt að taka ákvörðun um að slíta samstarfi innan norræna vegabréfasambandsins. Allsendis er ólíklegt að Ísland geti vænst þess að verða aðili að Schengen-samstarfinu síðar líði norræna vegabréfasambandið undir lok. Að standa utan norræna vegabréfasambandsins getur haft víðtæk áhrif á stöðu okkar innan norræns samstarfs í framtíðinni bæði pólitískt og varðandi samstarf um málefni útlendinga og lögreglusamvinnu og reyndar á fleiri sviðum.

Rómarsáttmálinn, stofnskrá Evrópubandalagsins, kvað þegar í upphafi á um frjálsar ferðir fólks á landsvæði þess. Að því hefur verið unnið í áföngum. Atvinnu- og búseturéttindi hvar sem er á svæðinu hafa verið tryggð, flest próf njóta gagnkvæmrar viðurkenningar, landamæraeftirlit með ríkisborgurum aðildarríkjanna hefur alls staðar verið einfaldað, reglur um tollfrjálsan farangur ferðamanna samræmdar o.s.frv. Flest þessara atriða, nema varðandi tollskoðun og tollareglur, er einnig að finna í samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Eitt hefur vantað á til að frjálsar ferðir fólks væru sú staðreynd sem að var stefnt. Innan Evrópusambandsins hefur ekki náðst samkomulag um að tryggja frjálsar ferðir fólks um landsvæði sambandsins með því að leggja niður landamæraeftirlit og skoðun skilríkja þeirra sem ferðast frá einu landi til annars. Flest ríki sambandsins leggja þá túlkun í hugtakið frjálsar ferðir að allir þeir sem innan svæðisins ferðast skuli geta gert það án þess að sæta einhverju persónueftirliti vegna þess. Aftur á móti er það ágreiningslaust að hvert ríki getur leyft skoðun skilríkja hvenær sem er á landsvæði sínu. Þessi ágreiningur um skilning á hvað væru frjálsar ferðir er ástæða fyrir gerð Schengen-samningsins. Hefðu reglur Schengen-samningsins gilt á öllu svæði Evrópusambandsins þegar samið var um Evrópska efnahagssvæðið er lítill vafi á því að þær hefðu komið þar á borðið líka. Í bókun við EES-samninginn lýsa ríkisstjórnir allra samningsaðila reyndar yfir því að til að efla frelsi fólks til flutninga skuli aðildarríki ESB og EFTA hafa samvinnu í samræmi við framkvæmdareglur sem kveðið verður á um á viðeigandi vettvangi um að auðvelda eftirlit á landamærum. Beiting ákvæða Schengen-samningsins skal vera samrýmanleg rétti Evrópusambandsins. Þetta þýðir að ákvæði samningsins víkja fyrir reglum ESB sem eru ósamrýmanleg ákvæðum samningsins.

Í Schengen-samningnum er kafli sem fjallar um vöruflutninga. Ákvæðum hans er ekki beitt í samskiptum Schengen-ríkjanna þar sem reglur ESB um frjálsa vöruflutninga svo og um tollasamband og samstarf um skatta og önnur gjöld hafa yfirtekið ákvæði kaflans með þeirri undantekningu að nokkur ákvæði um skotvopn og skotfæri eru enn í gildi. Í viðræðum um samstarfssamning milli Íslands og Noregs annars vegar og Schengen-ríkjanna hins vegar hefur komið fram að ákvæði EES-samningsins um vöruflutninga muni gilda áfram í samskiptum þessara ríkja við Schengen-ríkin. Það er ekki gerð krafa um að Ísland taki þátt í tollasambandi ESB og því verður áfram unnt að beita óbreyttri framkvæmd við tolleftirlit.

Á vegum ESB hefur verið gerður samningur um hæli flóttamanna, svokallaður Dyflinarsamningur og er hann nú til meðferðar hjá ESB-ríkjunum til fullgildingar. Þegar hann öðlast gildi falla ákvæði Schengen-samningsins um meðferð á beiðnum um hæli úr gildi. Gerð hafa verið drög að samhliða samningi við Dyflinarsamninginn sem fyrirhugað er að Ísland gerist aðili að.

Í tengslum við ríkjaráðstefnuna hafa nokkur ríki komið fram með hugmyndir um að ESB setji reglur um atriði sem eru í Schengen-samningnum. Á þessari stundu er ekkert hægt að segja til um hvaða hljómgrunn slíkar hugmyndir fá. Setji ESB reglur sem víkja ákvæðum Schengen-samningsins um viðkvæm atriði til hliðar verður það sjálfstætt samningsatriði milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar með hvaða hætti þessi ríki taka þátt í því samstarfi.

Það álitaefni sem til umfjöllunar eru þegar meta á hvort Ísland eigi að taka þátt í Schengen-samstarfi eru bæði hagnýt og pólitísk. Hagnýtu álitaefnin eru fyrst og fremst sá kostnaður sem þátttakan leiðir af sér. Bæði er þar um að ræða stofnkostnað og rekstrarkostnað. Það er auðveldara að meta þann beina kostnað sem samstarfið hefur í för með sér heldur en það fjárhagslega hagræði sem af samstarfinu getur leitt.

Um 95% af farþegaflutningum milli Íslands og annarra landa fara um Keflavíkurflugvöll og af því leiðir að þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu mun hafa áhrif á rekstur og starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Flugstöðin verður sú ytri landamærastöð Schengen sem langflestir farþegar til og frá landinu fara um. Flugstöðin var hönnuð með það fyrir augum að þjóna árlega um einni milljón farþega. Á þessu ári mun farþegafjöldinn í fyrsta sinn fara yfir eina milljón og áætlanir gera ráð fyrir að sá fjöldi muni aukast um a.m.k. 50 þús. farþega á ári. Flugstöðin er því orðin of lítil fyrir þá ört vaxandi umferð sem um Keflavíkurflugvöll fer. Nauðsynlegt er því að ráðast í byggingarframkvæmdir við flugstöðina hvort sem Ísland tekur þátt í Schengen-samstarfinu eða ekki. Ljóst er hins vegar að kostnaður fylgir því að gerast þátttakandi í Schengen og felst hann fyrst og fremst í breytingum á flugstöðinni svo og auknum kostnaði við vegabréfaeftirlit.

Gerðar hafa verið athuganir á því hvaða breytingar þarf að gera á flugstöðinni til að uppfylla ákvæði Schengen-samningsins um nauðsynlegan aðskilnað farþega sem ferðast innan Schengen-svæðisins og þeirra sem eru á leið til og frá ríkjum utan þess. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur gert tillögu um að reist verði við enda núverandi landgangs ný bygging sem þjóni bæði þeim tilgangi að mæta stækkunarþörf vegna aukinnar umferðar og til að mæta kröfum um aðskilnað farþega vegna ákvæða Schengen-samkomulagsins. Kostnað við þessa byggingu hefur Framkvæmdasýslan áætlað um 400 millj. kr., þar af vegna aðildar að Schengen um 150 millj. kr. Skýrslu stofnunarinnar hefur verið dreift til þingmanna og frá því að hún var gerð hefur stofnunin farið nánar ofan í þær forsendur sem hún byggist á og er það mat stofnunarinnar að þær áætlanir sem þar koma fram séu fyllilega raunhæfar.

Frá árinu 1989 hafa Flugleiðir notað flugstöðina sem flugskiptistöð fyrir farþega milli Evrópu og Norður-Ameríku. Fyrir fyrirtækið skiptir það meginmáli að vegabréfaeftirlit í samræmi við Schengen-reglur verði ekki til að tefja áætlanir félagsins, en vélar félagsins hafa mjög stuttan viðverutíma á Keflavíkurflugvelli á ferðum sínum yfir Atlantshafið. Það er ljóst að skilvirkni vegabréfaeftirlits þarf að vera mjög mikil og munu stjórnvöld sjá til þess að það muni ekki leiða til þess að tafir verði á áætlunum félagsins vegna vegabréfaeftirlits.

Í þeirri byggingu sem gerð hefur verið tillaga um er gert ráð fyrir að farþegar komi beint inn í þjónusturými og getur það leitt af sér aukna verslun á Keflavíkurflugvelli. Farþegaflutningar um aðra flugvelli og um hafnir eru óverulegir. Schengen-reglur gera ekki ráð fyrir að þar þurfi að koma upp sérstakri aðstöðu vegna aðskilnaðar farþega. Vegabréfaeftirlit verður að framkvæma þar gagnvart þeim sem koma frá ríkjum utan Schengen-svæðisins í samræmi við Schengen-reglur en það eftirlit ætti ekki að þurfa að vera meira en nú gerist.

Með þátttöku í Schengen-samstarfinu er fellt niður persónueftirlit með þeim sem ferðast innan svæðisins. Skipir þar ekki máli hvort viðkomandi er ríkisborgari Schengen-ríkis eða ekki. Þess er þó að geta að heimilt er að taka upp persónueftirlit á innri landamærum til bráðabirgða ef það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu eða öryggis ríkisins. Afnám persónueftirlitsins felur hins vegar hvorki í sér að fella skuli niður hefðbundið tolleftirlit svo sem áður greinir né heldur afnám eftirlits með innflutningi fíkniefna. Þeir sem koma frá löndum utan Schengen-svæðisins skulu hins vegar við komu til landsins og við brottför þaðan til landa utan Schengen sæta persónueftirliti. Þetta eftirlit á að fara fram eftir samræmdum reglum. Því á m.a. að haga þannig að það hafi ekki í för með sér óþarfa tafir. Þannig er gert ráð fyrir að sérstök hlið geti verið fyrir borgara EES-ríkja en þeir eiga almennt ekki að sæta öðru eftirliti en því að staðreynt sé hverjir þeir eru. Ríkisborgarar annarra ríkja munu hins vegar sæta nánara eftirliti og þá sérstaklega þeir sem koma frá ríkjum þaðan sem krafist er vegabéfsáritunar.

Schengen-ríkin hafa sammælst um lista yfir þau ríki þaðan sem ríkisborgarar sem koma vilja inn á svæðið skulu háðir vegabréfsáritun og jafnframt hafa þau samræmdar reglur um veitingu vegabréfsáritunar. Þessar reglur byggja m.a. á því að leitað sé upplýsinga um hlutaðeigandi í sameiginlegu upplýsingakerfi sem rekið er af Schengen. Efnislega eru reglur þessar í samræmi við það sem tíðkast hefur hér á landi. Vegabréfsáritun til eins Schengen-ríkis veitir almennt heimild til að ferðast til þeirra allra. Það er meginregla í því sambandi að sækja skal um vegabréfsáritun hjá diplómatískum fulltrúum þess ríkis sem stefnt er að að heimsækja. Ef heimsækja á fleiri ríki ein eitt er við það miðað að það ríki sem fyrst er heimsótt veiti áritunina. Samningurinn gerir ráð fyrir að ríkin hafi samstarf sín á milli um veitingu vegabréfsáritana í þeim ríkjum þar sem þau hafa ekki öll útsenda fulltrúa. Ríki sem veitir áritunina ber ábyrgð á veitingu hennar.

Hér á landi hefur verið fylgt þeirri vinnureglu að vegabréfsáritun er ekki veitt nema umsókn hafi verið lögð fyrir útlendingaeftirlitið og það samþykkt að áritun skuli veitt. Þátttaka í Schengen-samstarfinu útilokar ekki slíkt verklag.

[16:30]

Schengen-reglur leiða hins vegar til þess að fella verður niður heimildir fyrir kjörræðismenn til að veita vegabréfsáritun. Hafa 18 kjörræðismenn nú slíka heimild. Í staðinn mun koma skipulag byggt á samkomulagi við önnur ríki sem hafa útsenda fulltrúa þar sem Ísland hefur ekki útsenda fulltrúa um að þau veiti áritun sem þá gildir fyrir allt svæðið. Jafnframt þarf sá sem fer til fleiri landa ekki að sækja nema um eina áritun fyrir svæðið í stað sérstakrar áritunar fyrir hvert land.

Schengen-samstarfið felur ekki í sér sameiginlega stefnu að því er varðar veitingu hælis eða afstöðu til flóttamanna. Aðildarríkin veita hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum í samræmi við eigin lög og alþjóðlegar skuldbindingar.

Hins vegar eru í Schengen-samningnum reglur um málsmeðferð varðandi það hvaða ríki hefur skyldu til að fjalla um beiðni um hæli. Eru þannig reglur um það hvaða ríki skuli teljast fyrsta hælisríki þannig að umsækjanda um hæli verði ekki vísað milli margra ríkja sem ekki vilja bera ábyrgð á honum. Þá veitir samningurinn heimild en ekki skyldu til að vísa brott umsækjanda sem fengið hefur synjun um hæli í öðru aðildarríki.

Það hefur þegar komið fram að Schengen-samningurinn gengur út frá þeirri meginreglu að persónueftirlit skuli fellt niður við ferðir milli aðildarríkjanna. Þar sem afnám persónueftirlits getur haft í för með sér skert öryggi eru í samningnum svokölluð stuðningsákvæði til að efla samstarf ríkjanna varðandi öryggis- og afbrotamálefni. Aukin lögreglusamvinna er eitt mikilvægasta stuðningsákvæðið í því sambandi. Lögreglusamvinnan varðar m.a. þessi atriði:

gagnkvæma aðstoð til að fyrirbyggja og upplýsa afbrot,

miðlun upplýsinga í sérstökum tilvikum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir afbrot eða verknaði sem ógna almannaöryggi eða öryggi ríkisins,

miðlun upplýsinga í þeim tilgangi að gera eftirlit á ytri landamærum markvissara,

útsendingu lögreglumanna til að auðvelda samband lögreglu í tveimur ríkum,

uppsetningu á sameiginlegu upplýsingakerfi.

Í tengslum við hið sameiginlega upplýsingakerfi heldur hvert aðildarríki sérstaka skrifstofu sem miðlar upplýsingum milli lögregluyfirvalda, svarar fyrirspurnum um upplýsingakerfið og hefur umsjón með lögreglusamvinnu innan Schengen. Samningurinn fjallar einnig um nána samvinnu lögreglu við landamæri á landi við gæslu landamæra og vegna eftirfarar yfir landamæri. Vegna legu Íslands hafa þessi ákvæði tamarkað gildi hér.

Þá eru í samningnum sérstök ákvæði um samstarf í baráttu gegn fíkniefnum þar sem aðildarríkin skuldbinda sig til í samræmi við samninga Sameinuðu þjóðanna að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja og berjast gegn ólöglegum viðskiptum með ávana- og fíkniefni. Um þessi atriði var ítarlega fjallað í skýrslu minni til Alþingis í lok nóvember. Leyfi ég mér að vísa til þeirrar skýrslu sem og til framlagðrar skýrslu þar sem einnig er nánar fjallað um þessi atriði.

Þátttaka í Schengen-samstarfinu hefur að sjálfsögðu í för með sér kostnað. Þeim kostnaði má skipta í tvennt, þ.e. annars vegar stofnkostnað og hins vegar reksturskostnað. Í skýrslu þeirri sem hefur verið lögð fram á Alþingi er gerð grein fyrir helstu þáttum sem leiða til útgjalda. Varðandi stofnkostnað er kostnaður við uppsetningu Schengen-upplýsingakerfisins viðamestur fyrir utan breytingar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Áætlanir gera ráð fyrir að uppsetning upplýsingakerfis muni kosta allt að 20 millj. kr. Ekki hefur verið hægt að meta alla þætti reksturskostnaðar nákvæmlega en gera má ráð fyrir að aukin útgjöld vegna reksturs verði á bilinu 40--60 millj. kr. á ári. Standi Ísland utan Schengen en hin Norðurlöndin gangi til samstarfsins leiðir það einnig til aukinna útgjalda en erfitt er að meta þau nákvæmlega. Nefna má aukinn kostnað við útlendingaeftirlit, lögreglusamvinnu, þar með talinn kostnað vegna fíkniefnavarna og ýmis fleiri atriði.

Að minni hyggju, herra forseti, er mikilvægt að halda áfram norræna vegabréfasamstarfinu. Það er nokkuð augljóst að það verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að fylgja Norðurlöndunum eftir í þeim samningum sem standa fyrir dyrum um aðild að Schengen-samstarfinu. Kostnaður virðist ætla að verða innan eðlilegra marka.

Þó samningum sé ekki lokið markar það vissulega nokkur tímamót þegar þess má vænta að síðar í þessari viku verði Íslandi og Noregi, ásamt hinum Norðurlöndunum sem eru aðilar að Evrópusambandinu, boðin áheyrnaraðild að Schengen-samstarfinu. Því þótti rétt og eðlilegt að gefa þessa skýrslu til Alþingis um stöðu málsins þó að þessi áheyrnaraðild hafi engar skuldbindingar í för með sér. Við munum að öllum líkindum á þessum grundvelli halda samningum áfram og að því er stefnt eins og áður hefur komið fram að ljúka þeim fyrir árslok og þá mun málið væntanlega koma til afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.