Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:38:39 (4743)

1996-04-15 17:38:39# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:38]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða dálítið dýrt þjóðarstolt sem er hér á ferðinni. Hv. þm. vék ekki einu orði að því að rökstyðja frekar niðurstöður sínar í sambandi við fíkniefnin, (Gripið fram í: Það er dýrt að vera Íslendingur.) hvernig hann kæmist að þeirri niðurstöðu að þarna væri fundið þjóðráð í sambandi við að verjast fíkniefnum með því að gerast aðili, hvað þá að það væri eitthvað rýmra alþjóðlegt samstarf við Íslendinga við umheiminn. Við þrengjum möguleika okkar til alþjóðlegs samstarfs með því að rígbinda það í auknum mæli við Evrópusambandssvæðið. Það er það spor sem verið er að þræða hér. Það er ekki leiðin til þess að auka svigrúm Íslendinga til alþjóðasamskipta sem ég held að eigi að vera keppikefli okkar og horfa þar til heimsins alls.