Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:40:47 (4745)

1996-04-15 17:40:47# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hér er til umræðu um Schengen-samkomulagið en þessi skýrsla er mjög gagnleg og tekur á mörgum þáttum málsins og auðveldar því þinginu að taka afstöðu til málsins. Hitt verð ég þó að segja að mér finnst líkt og hv. 4. þm. Austurl. skýrslan ekki vera nægjanlega gagnrýnin, þ.e. hún tekur og veltir ekki upp göllum þessa samkomulags sem eru vissulega nokkrir. Það er ástæða til þess að velta upp neikvæðum hliðum þessa máls og að skýrslan taki á þeim þáttum sem eru gagnrýniverðir þannig að í skýrslunni komi fram helstu kostir og gallar fyrir íslensku þjóðina að gerast aðilar að þessu samkomulagi. Ýmislegt sem kom fram í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar varðandi gagnrýnina á þetta samkomulag er vissulega allrar athygli vert og við hljótum að vega og meta það þangað til að því kemur að við þurfum að taka endanlega afstöðu til aðildar að þessu samkomulagi. En að öllu samanlögðu verður að líta svo á að eins og málið blasir nú við eru kostirnir það miklir að Ísland gerist aðili að samkomulaginu að ég tel rétt að vinna áfram að framgangi þess. Vissulega geta þau atriði komið upp í ferlinu að rétt sé að endurmeta þá stöðu en ég tel að ríkisstjórnin hafi að mörgu leyti haldið skynsamlega á þessu máli og eins og málið blasir nú við eigi að vinna áfram að aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu.

Norræna vegabréfasambandið hefur reynst farsælt en forsenda þess að Íslandi og Noregi er boðin aðild að samstarfinu og kannski veigamesti þátturinn er einmitt norræna vegabréfasambandið en margir telja þó að ekki hafi fengist fyrir því óyggjandi rök og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom einmitt inn á það áðan að það hafi ekki fengist fyrir því óyggjandi rök að verðum við ekki aðilar að þessu samstarfi sé það endirinn á norræna vegabréfasambandinu og mun ég koma að því lítillega síðar í máli mínu.

Það kemur fram í skýrslunni að með áheyrnaraðild að Schengen sé því lýst yfir að stefnt sé að fullri þátttöku í Schengen-samstarfinu. Því er það skref sem nú er stigið með áheyrnaraðild afar þýðingarmikið og það er verið að taka veigamikið skref í átt til þess að við gerumst aðilar að þessu samkomulagi. Engu að síður er sá öryggisventill mikilvægur að áheyrnaraðild feli ekki í sér að ákvæði samningsins komi til framkvæmda að einu eða öðru leyti þannig að Ísland geti þrátt fyrir áheyrnaraðildina hvenær sem er hætt við þátttöku. Ég tel það mikilvægt þó að vissulega sé það erfiðara eftir því sem líður á þetta ferli því að það er ljóst eins og fram hefur komið í máli margra í dag að enn eru nokkrir mikilvægir endar lausir í þessu máli.

Fyrst vil ég fara nokkrum orðum um kostnaðinn við þetta samstarf. Varðandi kostnað við framkvæmdir sem í þarf að ráðast verður að ætla að nokkuð vel hafi tekist til, þ.e. standist sú áætlun miðað við það sem áður var gert ráð fyrir. Eins og fram hefur komið er að áætlað að beinn byggingarkostnaður vegna Schengen-samstarfsins sé 150 millj. kr. og verður að telja að það sé nokkuð vel sloppið standist sú áætlun. Fram til þessa hefur minna verið rætt um ýmsan annan kostnað við þetta samstarf sem ég vil gera að umtalsefni og reyndar hafa nokkrir ræðumenn fyrr í dag gert það einnig. En meðan sá kostnaður liggur ekki fyrir höfum við ekki heildarmyndina af öllu málinu. Mikilvæg forsenda sem gengið hefur út frá, m.a. gagnvart samkeppnishæfni Flugleiða er að tengiflugið gangi upp og tímaáætlanir raskist ekki frá því sem nú er en í skýrslunni kemur fram að flugstöðin verði sú ytri landamærastöð Schengen sem langflestir farþega fara um til og frá landinu og aðildin hlýtur því að hafa áhrif á rekstur flugstöðvarinnar og þar með starfsemi Flugleiða.

Mér þætti mjög gott, herra forseti, ef ég vissi til þess að hæstv. dómsmrh. væri að hlýða á mál mitt vegna þess að ég hef áhuga á því að leggja fyrir hann nokkrar spurningar. Ég sé að hann er á öðrum fundi í hliðarsal þannig að ég geri mér ekki ljósa grein fyrir því hvort hann hlusti á mál mitt eða þær spurningar sem ég hef í hyggju að leggja fyrir hann.

(Forseti (GÁ): Hér gengur hæstv. dómsmrh. í salinn og hv. þm. óskar eftir því að ráðherrann hlýði á ræðumann.)

Já, ég taldi ástæðu til þess, virðulegi forseti, af því að ég hafði í huga að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Það snýr m.a. að starfsemi Flugleiða en eins og hæstv. ráðherra veit hefur verið gengið út frá þeirri forsendu, m.a. gagnvart samkeppnishæfni Flugleiða, að tengiflugið gangi upp og tímaáætlanir raskist ekki frá því sem nú er. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem viðkemur kannski þessu tengiflugi hvort fyrir liggi á hverjum sá kostnaður lendir sem til fellur til að tengiflug Flugleiða gangi upp og þá hvort hægt sé að greina þann kostnað sem fellur sérstaklega til vegna þessa. Spurningin snýst um það hvort hann muni lenda á Flugleiðum, hvort afstaða hafi verið tekin til þess sem þýddi væntanlega hækkun á flugfargjöldum. Hv. síðasti ræðumaður spurði einmitt um afstöðu Flugleiða til þess máls og ég hygg að það hljóti að vera mikilvægur þáttur í því hvaða afstöðu Flugleiðir hafa til málsins, hvort um sé að ræða einhvern sérstakan kostnað sem mun falla á Flugleiðir og þar með flugfargjöldin. Ég geri mér grein fyrir því eftir þær umræður, sem fara fram í dag, að heildarkostnaður liggur ekki fyrir en spurning mín lýtur að því hvort ríkisstjórnin hafi tekið nokkrar ákvarðanir í því hvort sá kostnaður sem til fellur vegna tengiflugsins muni með einum eða öðrum hætti þýða hækkun á fargjöldum og hvort hann muni lenda á Flugleiðum.

[17:45]

Vissulega hefði það verið mjög mikilvægt innlegg í þessa umræðu sem fram fer í dag ef hægt hefði verið að gefa einhverjar hugmyndir um þann heildarkostnað sem af þessu samkomulagi hlýst þegar við erum að stíga svo veigamikið skref sem áheyrnaraðild er og þá á hverjum hann mun lenda. Og það er vissulega mjög miður að svo sé ekki, ef ég skil orð forsrh. rétt í máli hans áðan, en ég geri ráð fyrir því að hæstv. dómsmrh. muni koma eitthvað nánar inn á það í sínum svörum vegna þess að það er ljóst af þeim ræðum sem hafa verið fluttar að þetta eru spurningar sem brenna mikið á vörum þeirra sem um þetta hafa fjallað í dag.

Ég vil líka nefna, virðulegi forseti, að kostnaðurinn þarf líka að skoðast í ljósi skuldahalans sem liggur fyrir núna vegna flugstöðvarinnar sem núna er, ef ég man rétt, um 4 milljarðar kr. Það liggur ekkert fyrir, að því er ég best veit, um hvernig mæta eigi þeim skuldahala og hefði verið ástæða til þess að spyrja hæstv. utanrrh., sem því miður er ekki við í dag, hvernig þau mál stæðu og hvaða áætlanir hefðu verið gerðar til þess að gera upp þann halla. En úr því að hæstv. utanrrh. er ekki hér í dag, þá vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. um það mál, hvort það hafi þá verið rætt í ríkisstjórninni hvernig mæta eigi þessum 4 milljarða kr. halla. Mér finnst þetta vera innlegg í umræðuna vegna þess að ef svo fer að það eigi að mæta kostnaði við Schengen-samstarfið t.d. með því að hækka flugfargjöld og ríkisstjórnin er kannski með það í pokahorninu að hækka einhver gjöld varðandi starfsemi Flugleiða eða flugstöðvarinnar vegna þessa mikla halla sem við búum við, eða um 4 milljarða, þá hefði verið brýnt að vita eitthvað um það hvernig það mál stæði og hvort ríkisstjórnin hafi fjallað um það með hvaða hætti eigi að taka á því máli. Því að við erum ekki einungis að ræða hér um kostnað vegna Schengen-samkomulagsins heldur liggur fyrir kostnaðaráætlun vegna nauðsynlegrar stækkunar á flugstöðinni óháð Schengen upp á 250 millj. kr. þannig að þetta eru ekkert einangruð mál, það hangir allt saman hvernig eigi að standa að þessum kostnaði.

Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvaða kröfur eru gerðar vegna Schengen-samstarfsins til annarra flugvalla hér á landi sem notaðir eru til millilandaflugs, t.d. á Akureyri og á Egilsstöðum og Reykjavíkurflugvöllur, og hvort þar þurfi að ráðast í aðgerðir eða aukinn kostnað vegna þessa samkomulags og ef ekki, hvort og þá hvaða Schengen-reglur nái til slíkra flugvalla vegna þess að jafnvel þó það fylgi kannski ekki kostnaður eða breytingar þá hljóta einhverjar af þeim reglum sem gilda varðandi Schengen að gilda um þá flugvelli sem ég nefndi.

Virðulegi forseti. Ég hefði talið æskilegt að betur hefði komið fram í þessari annars ágætu skýrslu hvernig Ísland er í stakk búið til að uppfylla hinar ýmsu reglur og skilyrði vegna aðildarinnar en sjónir manna hafa þangað til í dag með þessari skýrslu kannski fyrst og fremst beinst að kostnaði við framkvæmdirnar sjálfar en síður varðandi ýmsar reglur og rekstrarkostnað og annan stofnkostnað sem fylgir þessu samkomulagi. Vissulega er í skýrslunni í ítarlegu máli getið um þær kvaðir og skilyrði sem á okkur eru sett með þessu samkomulagi, en ég hefði viljað sjá samantekt í skýrslunni eða a.m.k. það kæmi fram í máli ráðherrans hvort við í dag uppfyllum þau skilyrði sem fram eru sett og hver séu erfiðustu úrlausnarefnin varðandi þetta samstarf að mati ráðherrans, hvort hann telji að það séu einhverjir þeir þröskuldir í vegi sem við eigum í erfiðleikum með varðandi reglur og skilyrði sem sett eru fram um aðild að þessu samkomulagi.

Ég nefni t.d. spurninguna um það hvernig við erum í stakk búin til að uppfylla það sem fram kemur í skýrslunni um lögreglusamvinnu, um sameiginlega upplýsingabanka, um óæskilega útlendinga, eftirlýsta einstaklinga og um gagnkvæma réttaraðstoð, svo eitthvað sé nefnt, en samkvæmt skýrslunni virðist vera um mjög umfangsmikil mál að ræða, svo ekki sé sterkar til orða tekið, og því hlýtur að fylgja töluvert mikill kostnaður sem og þær breytingar á reglum sem við verðum að uppfylla. Á bls. 9 í skýrslunni er t.d. vitnað til þess hvað þessi lögreglusamvinna felur í sér, t.d. varðandi öryggis- og afbrotamál en þar kemur fram, með leyfi forseta, að þessi lögreglusamvinna varðar m.a.:

gagnkvæma aðstoð til að fyrirbyggja og upplýsa afbrot,

miðlun upplýsinga í sérstökum tilvikum í þeim tilgangi að fyrirbyggja afbrot eða fyrirbyggja verknaði sem ógna almannaöryggi eða öryggi ríkisins,

miðlun upplýsinga í þeim tilgangi að gera eftirlit á ytri landamærum markvissara,

útsendingu lögreglumanna til að auðvelda samband lögreglu í tveimur ríkjum,

uppsetningu á sameiginlegu upplýsingakerfi.

Síðan er áskilið, virðulegi forseti, að hvert aðildarríki Schengen-samstarfsins setji upp skrifstofu til að miðla milli lögregluyfirvalda upplýsingum sem falla utan þess sem skráð er í upplýsingakerfi Schengen og til að svara fyrirspurnum varðandi upplýsingakerfið og til að hafa umsjón með annarri lögreglusamvinnu sem fellur innan Schengen-samstarfsins. Hér er lítið eitt upp talið. Þetta virðist vera mjög umfangsmikið og ég ítreka aftur að mér fannst margt sem fram kom í máli hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifs Guttormssonar, mjög athyglisvert varðandi þessa þætti og hve umfangsmiklir þeir eru. Við erum ekki bara að tala um breytingar á flugstöðinni heldur erum við að tala um mjög miklar breytingar, reglugerðir, lögreglusamvinnu og ýmsa aðra þætti, setja upp skrifstofur og ýmsa þætti varðandi miðlun upplýsinga.

Því ítreka ég til hæstv. ráðherra hvernig hann metur að við séum í stakk búin til þess að taka á okkur þessar skuldbindingar og hvar helstu þröskuldarnir liggja.

Í skýrslunni kemur fram að auk þess þurfi Schengen-ríkin að reka sameiginlegt upplýsingakerfi sem samanstendur af kerfi í hverju einstöku aðildarríki og miðlægu tæknilegu stuðningskerfi sem skráir staðlaðar upplýsingar um einstaklinga og hluti vegna landamæraeftirlits, rannsókna lögreglu og tollyfirvalda og vegna meðferðar á beiðnum um vegabréfsáritun og dvalarleyfi og framkvæmdar á lögum um útlendinga. Þetta kerfi þarf hvert ríki að setja á stofn og reka á eigin ábyrgð í sínu landi.

Þetta sýnir náttúrlega betur en allt annað hve umfangsmikið það er að gerast aðilar að Schengen og hverju til þarf að kosta og þess vegna er svo mikilvægt, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að þingmenn hafi fyrir sér bæði kostina og gallana af þessu samstarfi. Eins finnst mér vera mjög framandi þær ítarlegu upplýsingar sem nauðsynlegt er að skrá um einstaklinga sem af hinum ýmsu ástæðum eru taldir brotlegir eða varhugaverðir og því mikilvægt að aðgangur að skráðum upplýsingum og það ákvæði um vernd persónuupplýsinga sé með þeim hætti að fyrirbyggð sé misnotkun þeirra. Þar kom hv. þm. Hjörleifur Guttormsson inn á ýmis atriði. Það má raunverulega lesa í skýrslunni að sumpart birtist þetta manni raunverulega eins og um væri að ræða ákvæði sem ættu við um lögregluríki og um persónunjósnir þannig að mér finnst að ýmsu að hyggja í þessu máli.

Ég vil í lokin fara nokkrum orðum, virðulegi forseti, um það ákvæði í Schengen-samningnum sem fjallar um samstarf í baráttunni gegn fíkniefnum sem ég viðurkenni að ég hef töluverðar áhyggjur af. Um það hafa verið skiptar skoðanir hvort aðildin að Schengen feli í sér hættu á að flæði fíkniefna muni aukast eða ekki. Um það eru mjög skiptar skoðanir og við höfum meira að segja í dag heyrt það á ræðumönnum að þeir leggja mjög mismunandi mat á það hvort aðildin að Schengen feli í sér aukna hættu gagnvart flæði fíkniefna. Það er vissulega brýnt að sú áhætta verði metin sérstaklega og væri mjög gott að fá álit dómsmrh. um það mikilvæga mál.

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt Schengen-samningnum eigi að setja á fót vinnuhóp þar sem m.a. eru fulltrúar frá lögreglu og tollyfirvöldum til að rannsaka sameiginleg vandamál í baráttunni gegn fíkniefnabrotum og til að gera tillögur um að bæta hagnýt og tæknileg viðhorf vegna samvinnu aðildarríkjanna á þessu sviði. Ég spyr hæstv. dómsmrh., af því að mér finnst það ekki vera nægilega skýrt í skýrslunni, hvort um sé að ræða sérstakan sameiginlegan hóp með aðild allra Schengen-landanna eða hvort átt sé við sérstaka hópa í hverju landi fyrir sig. Mér finnst það ekki koma nægilega skýrt fram í skýrslunni. Ef um er að ræða sameiginlegan hóp allra landanna þá spyr ég hvort Ísland eigi fulltrúa í þeim starfshópi. Ég tel líka mjög mikilvægt, sérstaklega þar sem skiptar skoðanir eru um það mál og menn leggja á það mjög mismunandi mat, að fyrir liggi álit fíkniefnalögreglu og lögregluyfirvalda í þessu efni. Telja þeir að hætta sé á auknu flæði fíkniefna til Íslands með Schengen-samkomulaginu? Hvert er mat þeirra á því? Ég spyr hæstv. dómsmrh. --- nú stend ég enn í þeim sporum að ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra er að hlýða á mál mitt eða ekki. Á hann er lagt að sitja undir þessari umræðu og vera líka staðgengill annars ráðherra þannig að hann verður að bera þann kross að sitja undir þessari umræðu. --- En ég spyr hæstv. ráðherra: Liggur fyrir álit eða mat fíkniefnalögreglunnar og lögregluyfirvalda á því á hvaða áhrif aðild okkar að Schengen mun hafa á flæði fíkniefna til landsins og hvort við verðum í betri stöðu eða verri í baráttunni gegn fíkniefnavandanum? Ef ekki liggur fyrir mat fíkniefnalögreglunnar í því máli þá spyr ég hvort hæstv. dómsmrh. muni beita sér fyrir því að fyrir þingið verði lagt álit fíkniefnalögreglunnar og lögregluyfirvaldanna á því máli.

[18:00]

Í lokin, virðulegi forseti, óska ég eftir að fá nánari upplýsingar frá hæstv. dómsmrh. um þrennt:

Í fyrsta lagi ítreka ég það sem ég sagði áðan, þ.e. hvaða atriði það eru helst í Schengen-samkomulaginu sem enn eru uppi álitamál um gagnvart Íslandi af hálfu samstarfslandanna. Og hvort og hvernig þá við getum framkvæmt það ef þeir þættir eru á annað borð uppi.

Í öðru lagi. Ef teknar verða upp nýjar reglur varðandi Schengen eftir að samkomulag hefur verið gert, hvernig snýr ákvörðun þeirra reglna að Íslandi og þá Noregi einnig?

Í þriðja lagi spyr ég um misvísandi skoðanir sem hafa verið uppi sem ég vil skýra aðeins nánar. Fyrir liggur að Norðurlöndin hafa öll upplýst að það þjónaði best hagsmunum norræna vegabréfasambandsins, og þau hafa öll sameiginlega jákvæða afstöðu til Schengen-samstarfsins, að Norðurlöndin fari öll í það samstarf. Eftir því sem ég skil málið hafa Norðurlöndin komið fram sem allir fyrir einn og einn fyrir alla í þessu máli og eins og sumir segja að sett sé skilyrði að allar Norðurlandaþjóðirnar verði með í samkomulaginu. Ég spyr því hæstv. dómsmrh.: Hefur það verið rætt milli Norðurlandaþjóðanna hvaða áhrif það hefur ef eitt land skorast undan aðild? Og hvert er álit hæstv. ráðherra á því hvaða áhrif það hefur á norræna vegabréfasambandið? Og hver er afstaða hinna Norðurlandaþjóðanna til þess ef eitt land skorast undan vegna að þær hafa allar lagt mikla áherslu á að Norðurlöndin gerist öll aðilar að þessu samkomulagi? Ég minni á það sem fram kom hér fyrr í dag, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði, að uppi hafa verið ýmsar skoðanir um það á þingum t.d. í Svíþjóð sem hann nefndi sem væri ástæða til að spyrja um hvort að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér eða viti af.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu eru nokkrir veigamiklar gallar á þessu samkomulagi og ýmislegt óljóst varðandi framkvæmdina. Ég nefni í því sambandi ekki síst það sem ég hef áhyggjur af, sem eru fíkniefnamálin. Þetta er nokkuð sem við þurfum að skoða vel í þessu ferli. Það hafa ýmis álitamál komið fram í dag sem raunverulega mega ekki bíða þar til við erum komin svo langt að ekki verði aftur snúið. Það eru ýmis atriði í þessu samkomulagi enn óljós sem ég treysti að ráðherrarnir reyni að fá svör við sem allra fyrst og gera þinginu grein fyrir. Ef við værum komin mjög langt í þessu ferli varðandi framkvæmdir og annað og síðan færi að liggja fyrir mat hinna fróðustu manna um fíkniefnavandamálin sem gerðu þinginu grein fyrir að með samkomulaginu værum við að opna fyrir flæði fíkniefna til landsins og við hefðum miklu minni tök á því en áður að berjast gegn fíkniefnum, þá hygg ég að það rynni nú gríma á marga hér inni að þurfa að standa að þessu samkomulagi og vera komnir í þau spor að það væri erfitt að snúa aftur. Þá er það einnig óviðunandi að mínu mati að ekki sé hægt að fá fram heildarmyndina, heildarkostnaðinn í þessu máli fyrr en kannski einhvers staðar á lokadögum eða vikum þegar nauðsynlegt er að þingið taki afstöðu til málsins.

En þrátt fyrir þetta er ég jákvæð fyrir þessu samstarfi með þeim fyrirvörum sem ég hef lýst og með þeim fyrirvara að ekki komi upp neitt óvænt í þessu samstarfi sem þýðir það að við verðum að endurskoða afstöðu okkar til þessa máls. Ég vil í lokin þakka fyrir þessa skýrslu sem hér er á dagskrá.