Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:17:36 (4747)

1996-04-15 18:17:36# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:17]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að víkja að því álitaefni sem hv. 4. þm. Austurl. og reyndar nokkrir aðrir hv. þm. hafa varpað fram í umræðunni. Það lýtur að því hvort afstaða Íslands muni ráða því hvaða afstöðu hinar Norðurlandaþjóðirnar taka gagnvart Schengen-samstarfinu. Það liggur fyrir að Norðurlandaþjóðirnar hafa allar sótt um aðild að Schengen, með þeim fyrirvara að viðunandi samningar náist fyrir Ísland og Noreg sem standa utan Evrópusambandsins, þannig að unnt verði að viðhalda norræna vegabréfasambandinu. Ég lít svo á að ef kostur er á viðunandi samningum um aðild telji hin löndin sig hafa uppfyllt það skilyrði. Flest bendir til þess nú að slíkur kostur sé fyrir hendi. Því met ég þessa aðstöðu á þann veg að ef við skorumst undan og hættum við þá þýði það endalok norræna vegabréfasambandsins og þátttöku okkar í því og einangrun okkar frá hinum Norðurlöndunum að því er þessa samvinnu varðar sem lýtur auðvitað ekki bara að þeim þætti að þurfa ekki að sýna vegabréf á landamærum heldur snýst líka um mjög mikilvæga samvinnu varðandi útlendingamálefni og lögreglumálefni sem verður æ þýðingarmeiri á komandi árum. Þetta sýnist mér vera augljós staða þessa máls.

Hv. 4. þm. Austurl. spurði um mat á heildarkostnaði við breytingarnar og fram hefur komið hjá nokkrum öðrum hv. þm. hvort það muni ekki liggja fyrir endanlega áður en Alþingi tekur lokaafstöðu til málsins. Það mun að sjálfsögðu liggja fyrir þegar til lokaákvarðana kemur. Það liggja fyrir tölur um kostnaðarmat varðandi þær umbætur sem þarf að gera í flugstöðinni. Vitaskuld er það svo að þar er um að ræða breytingar sem við þurfum að ráðast í að stórum hluta til óháð aðild að Schengen-samkomulaginu. Það er gróft mat að rekstrarkostnaður muni nema 40--60 millj. kr. á ári. Þar er ekki um neinar lokaniðurstöður sem fyrir liggja að ræða en einhvers staðar á því bili þykir okkur líklegt að það verði, 40--60 millj. kr. Auðvitað verður að hafa ákveðinn fyrirvara á þessum tölum bæði stofnkostnaðartölunum og rekstrartölunum því að frekari vinna í þeim efnum getur skýrt þau mál betur. En þessir kostnaðarþættir blasa við eins og sakir standa. En að sjálfsögðu geta orðið þar á breytingar.

Hv. þm. vék svo að því hvort sérstök greining hefði farið fram á möguleika okkar á eftirliti með fíkniefnum. Sú aðstaða sem við erum í varðandi baráttu gegn fíkniefnum hlýtur að vera ein af áleitnustu spurningunum sem uppi eru í þessu efni. Reyndar hefur það komið fram í máli allra þeirra sem hér hafa talað að þar er um atriði að ræða sem við verðum að gefa mikinn gaum. Samstarfsþjóðir okkar á Norðurlöndum leggja enn fremur mjög ríka áherslu á að samvinnan innan Schengen-samkomulagsins fullnægi kröfum þeirra í baráttunni gegn fíkniefnum. Við erum vissulega að missa niður persónuskoðun á landamærunum hér ef þannig má taka til orða en við höldum óbreyttu tolleftirlit og fáum þar að auki aðild að miklu víðtækara upplýsingakerfi en okkur hefur gefist kostur á til þessa. Ég er sannfærður um að slík alþjóðleg upplýsingamiðlun er ein meginforsendan fyrir því að það takist að vinna af afli gegn fíkniefnunum. Afbrot af þessu tagi eru alþjóðleg og þau lúta fyrst og fremst því lögmáli hver eftirspurnin er í hverju landi og áhrifamestu aðgerðirnar sem við getum beitt eru auðvitað þær að draga úr eftirspurninni. En alþjóðlegt samstarf er okkur óhjákvæmilegt og upplýsingamiðlun sem við getum átt þarna kost á hygg ég að muni síður en svo draga úr möguleikum okkar til þessarar baráttu.

Vegna fyrirspurnar frá hv. 4. þm. Austurl. vil ég segja að gert er ráð fyrir að tilhögun á tollskoðun farþega frá Schengen-löndunum verði með sama hætti og verið hefur. Það verður engin tilslökun í því af þessu tilefni.

Hv. 9. þm. Reykv. vék að þeim kafla skýrslunnar sem fjallar um vöruflutninga og tolleftirlit og spurði að því hvort Ísland ætti kost á að semja um tollasamband við ESB. Þeir samningar sem hér eru á ferðinni eru ekki við Evrópusambandið heldur Schengen-ríkin þannig að sú spurning hefur ekki komið upp í þessum samningum og er þeim alveg óháð. Varðandi vegabréfsáritanir þá spurði hv. þm. hvaða ríki það væru sem við þyrftum að segja upp samningum við. Þau eru þessi: Bahama, Barbados, Botsvana, Dóminíka, Fídji, Gambía, Grenada, Gvæjana, Kíribatí, Lesótó, Márítíus, Salómonseyjar, St. Lúsía, St. Vinsent og Grenadín, Seychelleseyjar, Svasíland, Tansanía, Trínidad og Tóbagó og Túvalú. Á árinu 1994 komu 52 ferðamenn frá þessum löndum til Íslands en á síðasta ári 23.

Þá var spurt að því hvort yfirlýstri stefnu um málefni flóttamanna yrði haldið. Þessir samningar gera ekki ráð fyrir neinni breytingu á yfirlýstri stefnu í þeim efnum. Þá spurði hv. þm. hvort ég væri sáttur við þann grunn að lögreglusamvinnu sem gert væri ráð fyrir í samningnum. Mér sýnist að sú lögreglusamvinna sem hér er verið að ræða um eigi að geta styrkt okkur mjög verulega og sé mikilvæg forsenda fyrir því að við getum tekist hér á við ýmis viðfangsefni, svo sem baráttuna gegn fíkniefnum, að við getum átt aðgang að þessari Evrópusamvinnu.

Það er sjálfsagt erfitt að kveða eitthvað upp úr um það hvort við verðum betur í stakk búin til að takast á við fíkniefnin, það eru svo mörg önnur atriði sem hljóta að hafa áhrif á það hver þróunin verður í þessum efnum. Mín skoðun er sú að við ættum síst að vera verr í stakk búin til að takast á við þau. Samstarfsþjóðir okkar á Norðurlöndum leggja einnig höfuðáherslu á að geta tekist á við þessi verkefni af fullri einurð og festu og að aðild að Schengen veiki ekki þá baráttu. Upplýsingamiðlunin sem um er að tefla mun ugglaust bæta stöðu okkar að þessu leyti og er mikilvæg forsenda í þessari baráttu.

Hv. 2. þm. Vestf. spurðist hér fyrir um sameiginlega kostnaðinn og eftir hvaða reglum sá kostnaður yrði greiddur. Það er okkar samningsforsenda að hann verði greiddur eftir hefðbundnum reglum. Það kunna svo sem að koma upp einhver önnur sjónarmið en það er mjög ákveðin stefna okkar að hann eigi að greiða eftir venjulegum reglum um kostnaðarskiptingu í alþjóðlegu samstarfi. Þetta er eitt af þeim atriðum sem þarf að útkljá í þeim samningaviðræðum sem fram undan eru og það hefur auðvitað áhrif á lokaniðurstöðu okkar.

Að því er varðar spurningar hv. þm. um Flugleiðir þá liggur alveg ljóst fyrir að þær breytingar sem gerðar verða og það eftirlit sem þarf að framkvæma á ekki að raska aðstöðu Flugleiða á nokkurn hátt. Það er mikilvæg forsenda af okkar hálfu að geta framkvæmt þetta með þeim hætti. Flugleiðir verða auðvitað að svara fyrir sig um afstöðu til álitaefnisins en ríkisvaldið gengur út frá þeirri forsendu að skiptifarþegar þeirra verði afgreiddir hér á þeim tíma sem er til stefnu og allar aðgerðir við það miðaðar og þær kannanir sem gerðar hafa verið af hálfu Framkvæmdasýslu ríkisins benda eindregið til þess að það verði unnt að gera.

Hv. 13. þm. Reykv. spurði svo á hverjum kostnaðurinn vegna tengiflugsins mundi lenda. Auðvitað greiðir íslenska ríkið kostnað af vegabréfaeftirliti. Það er svo aftur spurning hvort lendingargjöld eða önnur gjöld sem leggjast á þau flugfélög sem hér lenda komi til með að breytast með einhvern veginn í takt við þær breytingar sem hér er verið að gera. Það er alveg sjálfstæð ákvörðun sem ekki hefur verið fjallað um. En ég bendi á í þessu sambandi að Flugleiðir eru fyrst og fremst að flytja farþega milli Evrópu og Ameríku og þeir þurfa að ganga í gegnum þetta eftirlit einhvers staðar í Evrópu, ef ekki hér þá annars staðar í Evrópu og það hefur kostnað í för með sér. Ég sé því ekki að það hafi nein teljandi áhrif á kostnað Flugleiða hvort það eftirlit fer fram hér eða annars staðar þar sem Flugleiðir hafa viðskipti.

[18:30]

Varðandi núverandi skuldir flugstöðvarinnar þá er það alveg sjálfstætt mál sem ekki kemur til afgreiðslu í tengslum við aðild okkar að Schengen.

Varðandi kröfur sem gerðar eru til annarra flugvalla hér á landi þá þurfum við ekki á þeim varaflugvöllum að gera ráðstafanir til þess að aðskilja farþegaflug en þurfum auðvitað að getað framkvæmt vegabréfaskoðun og hafa þar tölvur þar sem menn hafa aðgang að upplýsingakerfinu en það þarf ekki að koma til sérstakrar aðgreiningar á farþegum.

Hv. þm. spurði hvort við uppfylltum þau skilyrði sem eru fyrir hendi. Þær athuganir og könnunarviðræður sem hafa farið fram til þessa benda til þess að við gerum það.

Varðandi spurningu hv. þm. um það hvernig samstarfsnefndin um fíkniefni sé hugsuð þá er þetta samstarfsnefnd landanna og við munum eiga aðild að henni. Fíkniefnalögreglan hefur ekki lagt sérstakt mat á aðild okkar að Schengen en nú er starfandi sérstakur starfshópur á vegum dómsmrn. sem er að gera tillögur um það hvar bæta megi úr í baráttu okkar gegn fíkniefnum á starfssviði ráðuneytisins og enn fremur starfshópur á vegum þeirra ráðuneyta sem um þessi mál fjalla. Ég vænti þess að þessir hópar munu í starfi sínu taka tillit til þeirra nýju viðhorfa sem kunna að koma upp og koma með tillögur um áherslubreytingar eða aðgerðir sem mundi leiða af hugsanlegri Schengen-aðild.

Þá spurði hv. þm. hvort við stæðum frammi fyrir einhverjum sérstökum álitamálum í komandi samningum. Á þessu stigi sjáum við ekki fyrir neina sérstaka örðugleika sem upp kunna að koma en auðvitað er ekki hægt að sverja fyrir það. Tíminn einn getur leitt í ljós hvort einhverjir þeir ásteytingarsteinar koma upp í þessum viðræðum sem gera okkur ókleift að halda áfram og þá verðum við að meta það þegar þar að kemur.

Varðandi spurningu um það hvernig farið verði með nýjar reglur sem samþykktar verði á svæðinu þurfum við að samþykkja þær áður en þær taka gildi og taka þá afstöðu til áframhaldandi veru okkar hugsanlega í samstarfinu.

Ég hef í meginatriðum svarað spurningum hv. þm. um norræna vegabréfasambandið ef eitt land mundi skorast úr leik í þessum viðræðum. Hv. 19. þm. Reykv. varpaði þeirri spurningu einnig fram um norræna vegabréfasambandið og ég ætla ekki að endurtaka það hér.

Varðandi pólitísk áhrif á stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu er aðildin að Schengen alveg óháð þeim spurningum en við fáum hugsanlega einhverja reynslu í því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessum vettvangi sem gæti komið okkur að notum ef við viljum síðar taka upp það álitaefni hvort við viljum gerast aðilar að Evrópusambandinu. Varðandi þau skilyrði sem þarf að uppfylla fyrir hugsanlegri áheyrnaraðild okkar, sem tekur gildi 1. maí, felur sú aðild ekki í sér neinar skuldbindingar en við lýsum því yfir um leið að við ætlum að halda áfram þessu samningaferli með það að markmiði að ná samningum fyrir árslok. Á næsta ári er gert ráð fyrir því að þau ríki sem gera samninginn taki afstöðu til hans og næsta ár verði þá tími sem þjóðirnar hafa til þess að fullgilda samninginn.