Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:37:34 (4749)

1996-04-15 18:37:34# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:37]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé alveg ljóst að það mikilvæga og umfangsmikla samstarf á sviði lögreglumála og fíkniefnavarna, sem þarna er gert ráð fyrir, muni hjálpa okkur í þeirri baráttu en auðvitað eru ýmis álitaefni þar uppi en ég hygg að þessi aðstaða sé alveg augljós.

Varðandi spurninguna um norræna vegabréfasamstarfið lít ég svo á að ef Norðurlöndin eiga kost á aðild að Schengen með viðunandi kostum, og Ísland og Noregur eiga það einnig, þá sé það sú staðreynd sem gildir. Við slíkar aðstæður mundi ákvörðun okkar um það að vera ekki með engu breyta um áform hinna og við mundum ekki koma í veg fyrir aðild hinna landanna að Schengen-samstarfinu og við værum þar með að brjóta niður norræna vegabréfasamstarfið og einangra okkur. Ég hygg að þetta sé aðstaða sem hverjum manni ætti að vera ljós sem fer yfir þessi mál að ef þær forsendur eru fyrir hendi að við eigum kost á aðild með viðunandi hætti sé aðstaðan þessi sem ég hef lýst og við hljótum að taka afstöðu í málinu í ljósi þess.