Húsnæðisstofnun ríkisins

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 19:18:50 (4760)

1996-04-15 19:18:50# 120. lþ. 118.11 fundur 407. mál: #A Húsnæðisstofnun ríkisins# (félagslegar eignaríbúðir) frv. 76/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[19:18]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil koma á framfæri nokkrum atriðum við 1. umr. þessa máls. Ég vil í upphafi segja að ég hef mikinn skilning á því að það þurfi að taka á vanda ýmissa sveitarfélaga varðandi félagslega húsnæðiskerfið en ég vil í því samabandi taka undir þau orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem hún lét hér falla í umræðum um reynslusveitarfélögin að við verðum að hafa það í huga að við megum ekki horfa um of á neikvæðu hliðarnar á félagslega húsnæðiskerfinu og þeim erfiðleikum sem einstaka sveitarfélög hafa ratað í heldur ber okkur einnig að minnast þess hve mikill fjöldi fólks hefur komist í gott húsnæði allt frá árinu 1929 eða rétt upp úr 1930 þegar fyrstu félagslegu íbúðirnar voru teknar í notkun og hversu mörgum þetta kerfi hefur veitt úrlausn og jafnframt að horfa á það hver er þörfin fyrir félagslegt húsnæði og hvar hún er. Ég hygg að sá vandi, sem ýmis sveitarfélög hafa lent í, stafi einmitt af því að menn hafi ekki fylgt lögunum sem skyldi, ekki gert nauðsynlegar kannanir og ekki gert sér nægilega vel grein fyrir þróuninni, að ekki sé minnst á það sem stundum hefur verið haldið fram að sveitarfélög hafi einfaldlega þrýst á fjármagn til framkvæmda til að halda uppi atvinnu í sveitarfélögum sínum. Ég hef áður komið að umræðu um þau mál og ætla ekki að endurtaka hana.

Það er mjög athyglisvert að skoða þá töflu sem er að finna yfir fjölda íbúða sem stóðu lausar á þeim tíma sem könnunin var gerð. Eins og menn sjá eru fyrst og fremst tvö svæði sem skera sig úr eða reyndar þrjú svæði og eitt þar sem eru langsamlega flestar auðar íbúðir og það eru Vestfirðirnir. Vegna þeirra orða sem hv. síðasti ræðumaður lét falla um að hugsanlega blasi nú við betri tíð með blóm í haga þá verður auðvitað að horfa á þá staðreynd að hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur íbúum fækkað jafnt og þétt á þessu landsvæði sérstaklega. Það er mjög athyglisvert að sjá hér töluna frá Bolungarvík, frá heimabæ hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þó stærsta fyrirtækið þar hafi gengið í gegnum mikla erfiðleika vildi ég samt sem áður fá skýringu á þessari tölu sérstaklega því að ég hef ekki orðið vör við það í tölum um atvinnuleysi að það hafi verið sem nokkru nemur á Bolungarvík. En það kann auðvitað að vera að það hafi orðið mikill flutningur fólks frá Bolungarvík þótt ég hyggi að reyndar hafi aðrir staðir orðið harðar úti. Mér finnst þetta mjög athyglisverð tala og í rauninni nauðsynlegt að skoða hvað er á bak við hana. Kannski getur hv. þm. Magnús Stefánsson upplýst okkur um hvernig á þessu stendur. Við verðum auðvitað að horfa á þessa þróun í samhengi við byggðaþróun í landinu.

Hæstv. forseti. Þá kem ég að því sem er auðvitað mergurinn málsins. Verða þær úrlausnir, sem hér er verið að veita, til gagns? Ég get tekið undir þær tillögur sem hér er að finna. Við getum að sjálfsögðu velt fyrir okkur hvort ástæða væri til að stytta þennan tíma í fjögur ár eða opna einhverja heimild, það verði breyting á aðstæðum og þá sé hægt að endurskoða þetta eða eitthvað slíkt. En spurningin er sú að fyrst að í þessum bæjarfélögum er það ástand að félagslegar íbúðir ganga ekki út er þá einhver annar hópur þar sem getur nýtt sér íbúðirnar? Er einhver þörf eða eftirspurn eftir þessum íbúðum? Ég skil a-liðinn þannig að það er ætlunin að sveitarfélögin geti nýtt þessar íbúðir eins og leiguíbúðir. Við gætum kannað það í starfi nefndarinnar hvort þarna er þörf og hvort það sé séð fram á að íbúðirnar nýtist. Ég hlýt að álykta sem svo að fyrst nefndin, sem vann þetta mál, leggur þetta til hljóti hún að hafa vonir um að hægt verði að koma þessum íbúðum í leigu, þá væntanlega til kennara eða annarra sem eru hugsanlega tímabundið búsettir þar. Ef þetta á að takast þá lít ég svo á að það verði að miða við rýmri tekjumörk enda er nú alltaf hægt að setja mjög stórt spurningarmerki við þau mörk sem menn hafa sett sér á hverjum tíma. Ég man þegar ég var að vinna í þessu kerfi í stjórn verkamannabústaða í Reykjavík fannst mér tekjumörkin ótrúlega lág. En þá voru líka ótrúlega margir sem voru undir þeim. Það minnir mig að í umræðum um félagslega húsnæðiskerfið vill það stundum gleymast að þetta er kerfi sem þjónar þeim sem verst standa að vígi og á að gera það. Það kann að vera að undantekningar séu á því en hér á Reykjavíkursvæðinu þar sem þörfin er langsamlega mest fullyrði ég að þetta kerfi þjónar fyrst og fremst þeim sem standa mjög höllum fæti og eru með lágar tekjur þó að menn beiti menn ýmsum ráðum til að komast yfir íbúðir og síðan breytast aðstæður að ýmsu leyti. En a.m.k. eins og ég þekki þetta eru aðstæður margra svo ótrúlega slæmar en við horfumst því miður ekki í augu við það.

Virðulegi forseti. Þá kem ég að kannski meginatriði máls míns. Það er það atriði sem kemur fram í skýringum við a-liðinn þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Mikilvægt er að úrræðið, sem í ákvæðinu felst, má ekki leiða til aukinna útgjalda Byggingarsjóðs verkamanna umfram þær fjárveitingar sem um er að ræða á hverju ári. Það þýðir óhjákvæmilega að framkvæmdalánum úr sjóðnum mun fækka sem beitingu ákvæðisins nemur.`` Þarna vil ég koma því sjónarmiði að að það sem mér finnst skipta meginmáli er að aðgerðirnar, svo þarfar sem þær eru, komi ekki niður á þeim sem mesta hafi þörfina. Mér finnst mjög slæmt ef það að koma til móts við ákveðin sveitarfélög verður til þess að þau svæði, og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um höfuðborgarsvæðið, verði eins konar fórnarlömb aðgerðanna og að hér séu framkvæmdir og kaup á félagslegum íbúðum skorin niður á kostnað þeirra aðgerða. Þarna verður réttlátt jafnvægi að ríkja, hæstv. forseti.

Að lokum tvennt. Ég vil í þessu samhengi minna á að það eru fleiri félagsleg kerfi í gangi og þar eru m.a. íbúðir Búseta. Enda þótt það hafi komið fram í máli hæstv. félmrh. í öðru samhengi að sá forgangur eða þeir kostir sem fylgja búseturéttarkerfinu byggjast m.a. á því að það kerfi hefur aðgang bæði að vaxtabótum og húsaleigubótum er þar samt sem áður um kost að ræða sem hefur margar jákvæðar hliðar og ég held að sveitarfélögin í landinu eigi að skoða í öllu þessu samhengi.

Hæstv. forseti. Allra síðast vildi ég koma þeirri spurningu á framfæri annaðhvort til hæstv. félmrh. eða hv. þm. Magnúsar Stefánssonar sem ég hygg að hafi farið býsna djúpt ofan í málið: Hvað hafa menn ástæðu til að ætla að mörg sveitarfélög muni nýta sér þetta? Hefur verið gerð könnun á því hve mörg sveitarfélög muni nýta sér þessar lagabreytingar, þ.e. hve margar af þessum 102 íbúðum mundu hugsanlega ganga út vegna þessara breytinga? Þessar tölur eru frá því í nóvember 1995 og ég bæti þeirri spurningu við: Hefur ástandið eitthvað skánað eða hefur orðið einhver breyting á þessari tölu svo vitað sé? Það er kannski ekki víst að hæstv. félmrh. hafi þær tölur tiltækar og við getum að sjálfsögðu kallað eftir þeim en það væri fróðlegt að fá það fram hvort efnahagsbatinn er að einhverju leyti farinn að skila sér inn í félagslega húsnæðiskerfið.