Húsnæðisstofnun ríkisins

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 19:49:27 (4763)

1996-04-15 19:49:27# 120. lþ. 118.11 fundur 407. mál: #A Húsnæðisstofnun ríkisins# (félagslegar eignaríbúðir) frv. 76/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[19:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur líklega lítinn tilgang að reyna að velta því fyrir sér eða reyna að brjóta til mergjar hvernig sá vandi er til orðinn sem við erum að kljást við hér nema þá til að læra af því og fyrirbyggja að slíkt gerist aftur. Ég get hins vegar ekki stillt mig um vegna orða hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að minnast þess að ég var formaður húsnæðismálastjórnar ríkisins þegar fyrst var úthlutað kaupleiguíbúðum. Þá átti að vanda mjög til verksins. Haft var samráð við Byggðastofnun um hvert stefndi í málefnum sveitarfélaga, reynt var að meta hver þróunin væri fram undan og þessi fyrsta úthlutun tók mið af því. En ég ætla ekki að reyna að lýsa því ramakveini sem upphófst frá þeim sveitarfélögum sem þótti sinn hlutur fyrir borð borinn þannig að allt kapp var lagt á að sanna að forsendur fyrir úthlutun hefðu verið rangar og allt kapp lagt á að tryggja úthlutun í næstu umferð. Að sumu leyti hefur mér staðið nokkur stuggur af því, þótt ég vilji allt gera til þess að þessi mál leysist í sveitarfélögum, hvernig menn hafa oft leyft sér að fara í umræðuna síðar þegar vandinn var til kominn jafnvel í þessu sömu sveitarfélögunum. En eins og ég segi, fyrst og fremst á auðvitað að læra af þessum vanda. Ég held reyndar að ein skýring þess að íbúðir standa auðar á ákveðnum svæðum sé sú að á þeim sömu svæðum hefur oft og tíðum orðið mjög mikið verðfall fasteigna. Það er reyndar staðreynd að það er jafnvel hægt að komast yfir einbýlishús á sama verði og félagslega íbúð og þá horfir fólk á þá tölu en ekki þá mánaðargreiðslu sem húsnæðið kostar. Þetta er líka eitt af því sem hefur áhrif.

Ég ætla að fara fáum orðum um þetta mál, virðulegi forseti, vegna þess að klukkan er orðin margt. Ég er að komast í tímaþrot en hefði gjarnan viljað heyra svör ráðherra við því sem hefur verið sett fram. En ég ætla að spyrja hæstv. félmrh. að því hvers vegna hafi verið ákveðið í 1. gr. að breyta íbúðum í þeirri stöðu sem þar er kveðið á um í félagslegar kaupleiguíbúðir en t.d. ekki í einhverjum tilfellum í almennar kaupleiguíbúðir svo hægt sé að koma til móts við þann vanda sem vikið er að í b-liðnum, einmitt með tilliti til vaxtanna og ákvæðisins sem litið er til þar. Ef maður skoðar b-lið 1. gr. er það t.d. þannig að þegar búið er að breyta eignaríbúð í félagslega kaupleiguíbúð með 1% vöxtum til 50 ára má miða við rýmri tekjumörk en lög kveða á um við endurúthlutun íbúðarinnar annaðhvort til leigu eða sölu. Undanþágan á ekki að hafa áhrif á vexti og þá vil ég geta þess sem kom fram þegar við vorum að breyta lögunum í fyrra og tek undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það er afar slæmt hversu oft við höfum verið að breyta þessum lögum vegna þess að það er svo hætt við að ein breyting rekist á við aðra. Þá var verið að breyta því varðandi úthlutun að húsnæðisnefndir ættu að hafa mjög frjálsa stöðu við úthlutun en áttu þar með að gæta skilyrða um eigna- og tekjumörk. Og þá var lögð mikil áhersla á að kæmi til þess að einstaklingur fengi úthlutað íbúð af hálfu húsnæðisnefndar í blóra við gildandi eigna- eða tekjumörk þá mundi hann sæta vaxtahækkun. Þetta var ákvæði sem var sett í lögin í fyrra. Nú erum við að opna á það að við ákveðnar aðstæður sem ákveðin húsnæðisnefnd metur geti hún í raun og veru úthlutað kaupleiguíbúð sem nýverið er búið að kaupa inn og breytt henni í félagslega kaupleiguíbúð með 1% vöxtum. Hvers vegna á að úthluta félagslegri kaupleigu við þær aðstæður að tekjumörk eru of há þegar það er líka búið að liðka til með tekjumörkin? Ef það á að leigja hana, hver á leigan að vera? Hvað erum við að gera þarna með þessar félagslegu íbúðir og þessa lágu vaxtaprósentu? Ef á að endurselja hana, hver á þá vaxtaprósentan og kjörin að vera? Það er mjög eðlilegt að þessar spurningar vakni núna vegna þess að ég vorkenni bæði húsnæðisnefnd og Húsnæðisstofnun þegar á að fara að bregðast við slíkum vanda. Á vaxtaprósentan í þessum tilfellum að koma sveitarstjórn eða leigjanda eða kaupanda til góða? Það kemur ekki fram hér en þessar andstæður geta skapast.

Ég vil líka nefna að það er í lögum að ef einstaklingur fer yfir ákveðin tekjuviðmið við endurskoðun, þótt þau viðmið hafi verið rýmkuð í fyrra, á að hækka vextina. Hvernig kemur þetta út gagnvart jafnræðisreglunni þegar á við ákveðnar aðstæður að heimila að einstaklingur langt yfir tekjumörkum fari inn í íbúð af þessu tagi af því að það er lögð áhersla á að breyta íbúðinni í félagslega kaupleiguíbúð sem hefur allt önnur tekjumörk? Þetta eru þær spurningar sem mér finnst mest brennandi.

Ég vil líka geta þess að það er nauðsynlegt að það sé ákveðinn sveigjanleiki í lögum varðandi tilflutning milli kerfa. Mér sýnist að sá vandi sem hér er tekið á kosti e.t.v. á bilinu 24 og upp undir 50 millj. kr. Þess er getið að kostnaðurinn við breytingar á hverri íbúð sé 908 þús. kr., ef gengið er út frá því að þurfa að breyta íbúðum sem standa auðar í sex mánuði eða lengur.

Ég vil taka það fram miðað við hvernig þetta lítur út að ef vandinn er upp á 24--50 millj. og framkvæmdalán upp á 5--6 millj. þá erum við að tala um fækkun framkvæmdalána fyrir e.t.v. tíu íbúðum ef ég skil grg. rétt. Það er alveg ásættanlegt út af fyrir sig til að lagfæra vanda, hæstv. félmrh., ef önnur stefnubreyting er ekki á döfinni sem dregur úr því að félagslega íbúðakerfið verði virkt. Og ég óttast að svo geti farið.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að þeir sem fjalla um þessi mál skoði það sem birtist í töflunni á bls. 2--3 vegna þess að þar kemur fram að þéttbýlissvæði á suðvesturhorninu hafa algjöra sérstöðu. Þar standa engar íbúðir auðar og þar hefur það einmitt gerst að íbúðir hafa í miklu magni verið keyptar inn í kerfið en oft hefur skort á það annars staðar.

Við vorum að fjalla um reynslusveitarfélög fyrir stuttu síðan. Þar stendur í grg. á bls. 4 og leyfi mér að vísa til þess, virðulegi forseti: ,,Þannig geti sveitarfélag selt einstaklingi sem fengið hefur lán samkvæmt nýju leiðinni íbúð sem sveitarfélagið hefur áður keypt inn samkvæmt kaupskyldunni, enda hafi lán við Húsnæðisstofnun verið gerð upp.`` Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að ef sveitarfélag með þessari tilhliðrun sem verið er að heimila hér fær að breyta eignaríbúð í félagslega kaupleiguíbúð selji hana aftur, sé það gert í þessu reynslusveitarfélagadæmi. Ég bendi á að það er mjög hætt við því í svona breytingum að við séum að gera breytingar sem setja lögin og lagaákvæði algjörlega í kross miðað við hugsun laganna og anda þeirra. Ég vil því benda á þetta og það er mjög mikilvægt að félmn. skoði einmitt þennan þátt.

Hvað varðar 2. gr. frv. er mjög mikilvægt að taka tillit til hættusvæða. Það hlýtur að gerast að félagslegar íbúðir eins og þarna kemur fram lendi á hættusvæði og það sé brugðist við því. Ríkisstjórnin hefur verið með mjög jákvæðar yfirlýsingar varðandi aðgerðir á snjóflóðasvæðum og ég tel mjög brýnt, virðulegi forseti, að ef fyrirgreiðsla samkv. 2. gr. reynist verða mjög þungur baggi á Byggingarsjóði verkamanna þá verði Byggingarsjóður verkamanna ekki látinn bera þær byrðar. Þar er ég einnig að vísa til þess að við verðum að vera með félagslegt íbúðakerfi sem er sveigjanlegt og stendur undir þeim væntingum sem íbúar í landinu hafa. Við megum ekki sverfa svo að því á mörgum sviðum vegna þess að fyrr á árum hefur það gerst að við fjárlagagerð er fækkað íbúðum og við erum að gera breytingar þarna, væntanlega bara sem nemur um tíu íbúðum út af 1. gr. og svo getur frestun afborgana til byggingarsjóðs orðið þungur baggi. Þetta eru ábendingar mínar og spurningin fyrst og fremst sú sem ég bar hér fram.