Húsnæðisstofnun ríkisins

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 20:00:32 (4764)

1996-04-15 20:00:32# 120. lþ. 118.11 fundur 407. mál: #A Húsnæðisstofnun ríkisins# (félagslegar eignaríbúðir) frv. 76/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[20:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góðar umræður um þetta mál og jákvæðar viðtökur í stórum dráttum. Það eru örfá atriði sem beint hefur verið til mín og ég vil reyna að svara eða koma inn á.

Út af fyrir sig er sjálfsagt hægt að segja að úthlutun framkvæmdalána hafi ekki í öllum tilfellum verið af mikilli fyrirhyggju en eins og hér hefur komið fram eru ýmsar skýringar um breyttar aðstæður sem menn hafa sér til málsbóta.

Aðalatriðið er það að þetta er búið og gert. Vandinn er fyrir hendi og ég treysti því að húsnæðismálastjórn sýni varfærni í framtíðinni og menn læri af reynslunni. Því má bæta við að ásóknin í félagslega kerfið hefur hraðminnkað á síðasta ári. Ég kynnti mér það sérstaklega í tilefni fjárlagagerðar fyrir þetta ár. Mig minnir að ekki hafi verið byrjað á nema um helmingi eða rúmum helmingi af þeim íbúðum sem úthlutað var á síðasta ári og ég hygg að það fé sem ætlað er í félagslega kerfið muni duga til þess að fullnægja þeirri þörf sem er fyrir hendi. Það brá svo við þegar hækkað var lánshlutfallið til fyrstu íbúðar að stórdró úr ásókninni í félagslega kerfið. Margir af þeim sem voru á leiðinni inn í félagslega kerfið lögðu í að kaupa á almennum markaði. Ég vona sannarlega að það verði uppsveifla á landsbyggðinni varðandi þetta með sex ára frestinn en það er þá hægt að bregðast við því í framtíðinni. Hitt er svo annað mál að mér finnst að það þurfi að vera einhver hemill svo að sveitarfélög hafi ekki neina sjálfsafgreiðslu með að fá tekjumörkin hækkuð. Ég hygg að það sé eðlilegt að það sé einhver bremsa en að sjálfsögðu er hægt að bregðast við því í framtíðinni ef þetta kemur mjög illa við.

Þegar tillaga nefndarinnar kom fram um að hafa sex ár velti ég því dálítið fyrir mér að stytta þennan tíma því að mér fannst þetta sjálfum nokkuð strangt en hvarf frá því en beini því til hv. félmn. ef nefndinni sýnist að athuguðu máli að þarna sé um að ræða of ströng skilyrði. Ég vitna til þess að það er verið að tala um frá síðustu úthlutun. Nú hafa t.d. ekki farið fram úthlutanir á Bolungarvík um einhvern tíma og það getur vel verið að menn megi ekki taka það svo að það séu sex ár inn í framtíðina sem verið er að tala um heldur sex ár frá því að síðast var úthlutað. En það er ekki í blóra við mig þó að þetta verði eitthvað mýkt upp.

Það hefur verið komið inn á það af hverju er verið að breyta þarna í félagslegar kaupleiguíbúðir en ekki að færa til öðruvísi. Eftir því sem mér hefur skilist var það sjónarmið nefndarinnar að leiguhúsnæði vantaði víða um land. Ég held að ekki sé neinn vafi á því og við sem þekkjum mjög vel til í dreifbýlinu þekkjum það nákvæmlega að leiguhúsnæði vantar þar víða. Fólk veigrar sér við að fjárfesta stórlega en vill gjarnan koma og prófa að búa þarna um einhvern tíma og það þarf að vera leiguhúsnæði og það meira að segja talsvert framboð af leiguhúsnæði til þess að fullnægja eftirspurninni. Sums staðar er um skólanemendur að ræða eða aðra tímabundna búsetu. Ég held einmitt að þó að séreignastefnan sé góð og blessuð eigum við að hafa auga á því að styrkja leigumarkaðina. Það er hentugt fyrir marga að geta fremur leigt en binda sér óbærilegar skuldbindingar til framtíðar, jafnvel þó að leigan sé e.t.v. upp undir það eins há og afborganirnar.

Ég hef ekki sjálfur á reiðum höndum skýringar vegna Bolungarvíkur en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er búinn að gefa þær a.m.k. að einhverju leyti.

Varðandi Byggingarsjóð verkamanna tel ég að fjárhagur hans þarfnist sérstakrar athugunar. Það þarf að hafa aðgát að klyfja ekki Byggingarsjóð verkamanna um of. Ég er að láta skoða það hvort það gæti ekki gengið upp að sameina Byggingarsjóð verkamanna, sem stendur ekki vel, Byggingarsjóði ríkisins, sem stendur mjög vel, eða a.m.k. að koma þar á nánara sambandi eða streymi á milli. Ég hef varpað þessari hugmynd fram og það er verið að skoða hana. Ég hef rætt þetta lauslega við fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands og mun gera það betur í framtíðinni. En þetta er a.m.k. ein leiðin til þess að tryggja Byggingarsjóð verkamanna. Verkalýðshreyfingin á faðernið en hún er hætt að borga meðlagið ef svo mætti segja.

Reynslusveitarfélögin eða félögin, sem taka þátt í reynslusveitarfélagaverkefninu, eru yfirleitt ekki í vandræðum með auðar íbúðir. Þau vilja prófa sig áfram með aðra útfærslu á félagslega kerfinu en í reynslusveitarfélögunum er ekki verulegt vandamál út af auðum íbúðum. Þetta er fyrst og fremst í öðrum sveitarfélögum.

Ég held að þetta verði að duga enda er orðið áliðið kvölds og ég ætla ekki að orðlengja þetta meira.