Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 13:48:00 (4769)

1996-04-16 13:48:00# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[13:48]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það fer nú að verða spurning hvaða upplýsingar eru birtar og hvernig. Þetta mál sem hér er til umræðu er allsérkennilegt því að um árabil hefur það tíðkast, og ekki veit ég hversu löng saga er þar að baki, að skattskrár hafa verið lagðar fram og birtar almenningi. En um áratuga skeið hefur það tíðkast að blöð hafa farið ofan í þessar skrár og tekið saman lista yfir hæstu skattgreiðendur, skoðað ákveðna hópa o.s.frv. og reiknað auðvitað út frá þeim upplýsingum sem þar hafa birst.

Nú hefur það gerst að fjmrn. tekur af skarið og telur að það sé ekki lögum samkvæmt að birta og nýta sér þessar upplýsingar. Það verður að segjast eins og er að útfærslan er mjög sérkennileg af hálfu ráðuneytisins því að þegar einu sinni er búið að birta skrárnar, þá er náttúrlega afar erfitt að takmarka það að menn reikni út hvað býr að baki.

Ég vil vekja athygli á því að á hinu háa Alþingi er til umræðu frv. til laga um upplýsingalög. Þar er í 5. gr. gert ráð fyrir því eins og segir þar, með leyfi forseta: ,,Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.``

Nú er það spurningin að ef þessi lög ná fram að ganga í vor, verður þá í rauninni bannað lögum samkvæmt að birta upplýsingar af því tagi sem við erum að ræða um? Þarna kemur auðvitað að því að skilgreina hvað eru persónulegar upplýsingar. Samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga þá segir einmitt, með leyfi forseta, í 1. gr.:

,,Með persónuupplýsingum er átt við upplýsingar sem varða einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni einstaklinga ...`` þannig að spurningin er náttúrlega: Hafa lög verið þverbrotin um árabil með birtingu skattskráa eða er þar um að ræða eðlilegar upplýsingar til almennings? Þetta er spurning sem við þurfum að svara á hinu háa Alþingi og það gefst tækifæri til þess við meðferð frv. til upplýsingalaga.