Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 13:53:17 (4771)

1996-04-16 13:53:17# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[13:53]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það sætir furðu að á þessum tímum sífellt aukinnar kröfu um opnun þjóðfélagsins og upplýsingaskyldu, ekki síst frá stjórnvöldum, skulum við standa frammi fyrir því að fjmrn. gefi út reglugerð sem koma á í veg fyrir að hægt sé að fá eðlilegan aðgang að skattskránni og að mönnum sé bannað að reikna eins og formaður Blaðamannafélagsins orðaði það. Þetta eru þvílík vinnubrögð að verði þessu ekki breytt, þá verður Alþingi að grípa í taumana. Við vitum að lífsstíll margra í þjóðfélaginu fer oft ekki saman við hvað viðkomandi greiðir í skatta til samfélagsins og við því hefur verið reynt að bregðast. M.a. hefur verið stofnuð eftirlitsnefnd í einu sveitarfélagi til að bera saman skatta og lífsstíl, einmitt í því skyni að veita aðhald og reyna að hafa áhrif til varnar skattsvikum í þjóðfélaginu. Eins hafa fjölmiðlar á margvíslegdan hátt reynt að veita aðhald gegn skattsvikum og m.a. nýtt skattskrána og álagningarskrána í því skyni sem ég tel tvímælalaust að hafi ákveðin varnaðaráhrif gegn skattsvikum. Með reglugerð ráðherrans er komið í veg fyrir þetta aðhald sem ég hélt satt að segja að ráðherranum væri fengur að í baráttunni við skattsvikin.

Ég geri ekkert með það hver hefur lögsögu í málinu, hvort það sé tölvunefndarinnar að gefa út úrskurð eða fyrirmæli í þessu máli eða fjmrh. að setja reglugerð. Ef tölvunefndin eða hæstv. fjmrh. getur hengt sig á einhvern lagabókstaf í lögum um meðferð og skráningu persónuupplýsinga, þá ber þegar í stað að fella úr gildi þetta ákvæði og taka þennan kaleik frá hæstv. fjmrh. Aðalatriðið er að þetta mál verði leiðrétt nú þegar og eðlilegur aðgangur verði að álagningarskránni og skattskránni. Treysti ráðherrann sér ekki til þess þarf umsvifalaust að leggja fram lagafrumvarp í málinu og láta Alþingi taka af skarið. Annað verður ekki liðið í þessu máli.