Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 13:55:38 (4772)

1996-04-16 13:55:38# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[13:55]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég sé ekki hvernig hjá því er komist að hæstv. fjmrh. endurskoði þessa reglugerð. Ég ætla að leyfa mér í því sambandi að vitna í 4. gr. reglugerðarinnar en þar er hvorki meira né minna en kveðið á um að öll úrvinnsla upplýsinga úr skránum, þ.e. álagningar-, virðisauka- og skattskrá sé óheimil, svo sem umreikningur álagðra gjalda yfir í tekjur og veltufjárhæð, samanburður milli ára o.s.frv. Þarna er ekki talað um að upplýsingar sem byggjast á slíkum útreikningum séu óheimilar heldur að mönnum er bannað að framkvæma slíka útreikninga hvort sem það er gert í því skyni að upplýsa um þá eða ekki. Og hvaða refsiákvæði skyldu liggja við því ef menn færu út í það að stunda svona reikning án þess að ætla sér að birta hann opinberlega? Nú er þetta gert t.d. í fjmrn. Þar bera menn saman tölur á milli ára úr álagningar- og skattskrá þó að það sé eingöngu ætlað í vinnu hæstv. ráðuneytis. Nú á að banna það. Hvaða refsing liggur við því ef fjmrn. heldur engu að síður áfram að stunda slíkan samanburð?

Menn vita það líka að það er vani skattstjóra, þegar þeir leggja slíkar skrár fram, að láta þess getið hvað breyst hefur í niðurstöðum milli ára og gera samanburð á ýmsum upplýsingum úr þessum skrám frá fyrra ári og birta það í fréttatilkynningu. Nú er þetta bannað. Samkvæmt þessu er þetta bannað því að þetta er alveg afdráttarlaust. A.m.k. er þeim bannað að birta þessar upplýsingar sem þeir hafa þó getað birt hingað til því það stendur hér svart á hvítu að öll úrvinnsla sé bönnuð, svo sem umreikningur, samanburður milli ára og framreikningur. Og þetta er fortakslaust bannað.

Ég flutti fyrir nokkru ásamt þingmönnum tillögu um að upplýsingar yrðu heimilaðar úr álagningar- og skattskrá. Ég hef ekki breytt minni skoðun í því. Ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ef í gildandi lögum eru ákvæði sem koma í veg fyrir það, þá ber að breyta þeim lögum.