Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 14:01:01 (4774)

1996-04-16 14:01:01# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[14:01]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu, sem hér hefur farið fram, og þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Þó svo að hann reyndi að sjálfsögðu að skýra aðstæður og verja málið fannst mér örla á því í lokin að hann gæti hugsað sér að breyta reglugerðinni enda held ég nú að vilji þingmanna standi til þess að það verði svo og ég skora á hæstv. ráðherra að hlusta á það.

Mér fannst kannski að hann hefði mátt lesa pínulítið betur það sem liggur fyrir skrifað í málinu, m.a. þann ítarlega úrskurð sem umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér um þetta mál, þ.e. úrskurð nr. 1299/1995. Af því að hæstv. ráðherra bar tölvunefnd fyrir sig þá ætla ég líka að vitna í tölvunefnd því að hér segir í niðurstöðu umboðsmanns, með leyfi forseta:

,,Taldi nefndin það ekki á valdi sínu að takmarka birtingu fjölmiðla á efni skránna þennan sama tíma``, þ.e. þann tveggja vikna tíma sem álagningarskrárnar liggja frammi. Það er a.m.k. niðurstaða umboðsmanns að þetta sé afstaða tölvunefndar. Ég bið hæstv. fjmrh. að setja sig aðeins betur inn í það og síðan það sem segir í úrskurði umboðsmanns neðst á bls. 16, með leyfi forseta:

,,Ég er sammála tölvunefnd um að á grundvelli þessa lagaákvæðis verði aðgangur fjölmiðla að álagningarskránni hvorki takmarkaður né skorður reistar við heimild þeirra til að birta efni álagningarskrár meðan hún er á annað borð aðgengileg almenningi á grundvelli þessara lagaheimilda.`` Ég tel það alveg augljóst mál að lesa þetta dæmi þannig, líka eftir að ég hef lesið umræðurnar frá Alþingi á sínum tíma þar sem við áttumst m.a. við, ég og hæstv. núv. fjmrh., að það er útilokað að gefa út reglugerðina á þessum grundvelli. En ég vil síðan bæta því við af hverju nefndi ég Verslunarráðið, hæstv. forseti, og hæstv. fjmrh. mótmælti því. Það er vegna þess að það var lögmaður Verslunarráðsins sem sneri sér til þessara aðila, tölvunefndar og umboðsmanns, á sínum tíma og óskaði eftir íhlutun þeirra um málið. Varðandi túlkun Alþingis á málinu ætla ég bara að lokum, hæstv. forseti, af því að sá forseti situr nú þarna sem þar er akkúrat núna að leyfa mér að vísa til ummæla hv. þm. Ragnars Arnalds í efri deild á sínum tíma þegar þetta mál og nákvæmlega þetta ákvæði var til meðferðar. Ég er sammála því, hæstv. forseti, að Alþingi verður að grípa í taumana eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði og það er skynsamleg ábending hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni að gera það á grundvelli upplýsinga lagafrv.