Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 14:40:43 (4779)

1996-04-16 14:40:43# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[14:40]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki undarlegt að hv. þm. kveinki sér undan ræðu minni áðan. Það er hárrétt sem hann sagði að nefndarmenn og þar á meðal hann áskildu sér þann rétt að styðja brtt. eins og hann sagði réttilega. En það kemur hvergi fram, hvorki í hans máli né annarra þeirra sem nú hafa sameinast um að flytja hér önnur frv., að þeir ætluðu að flytja nýtt frv. Það skiptir auðvitað öllu máli í þessu.

Varðandi frv. til fjárlaga þá lá það fyrir í haust. Það byggðist á sjónarmiðum sem komu fram vegna yfirlýsingar ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. á þeim tíma sem gengið var til kjarasamninga. En þá var bókað alveg sérstaklega af hálfu manna --- og viðstaddir þar voru þeir félagar sem sitja hér í salnum og ræðast nú við, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Jón Baldvin Hannibalsson. --- Þeir skrifuðu undir þá yfirlýsingu að skatturinn skyldi vera með lágu hlutfalli og í þeim anda sem lýst var í fjárlagafrv. þannig að það ætti ekki að koma neinum á óvart.

Aðalatriði málsins er þetta, virðulegi forseti, að það segir í nál. sem þessir hv. þm. skrifuðu undir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Nefndarmenn komu að þessari umræðu með ólík sjónarmið, jafnt um það hvort taka beri skattinn upp, hvaða leiðir skuli fara og hvort hann eigi að vera mikilvæg tekjulind fyrir ríkissjóð. Sú tillaga sem hér liggur fyrir og nefndin er sammála um er málamiðlun sem skoða verður í því ljósi.``

Bókunin vísar til flutnings brtt. og þess vegna eru það undarleg vinnubrögð þegar maður sér að menn koma með sérstök ný frv. en bíða ekki eftir því að stjfrv., málamiðlunarfrv. sé lagt fram. Það er í ljósi þessa sem nauðsynlegt er að íslenska þjóðin fái að kynnast þessum vinnubrögðum á morgun þegar útvarpsumræður verða í þessum sal.