Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 14:42:41 (4780)

1996-04-16 14:42:41# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[14:42]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg brýn nauðsyn á því að íslenska þjóðin fái að kynnast mismunandi sjónarmiðum til þessa grundvallaratriðis sem hér um ræðir, nefnilega þeirra að það er vilji okkar jafnaðarmanna að nýta sérstakan vaxtaskatt, fjármagnstekjuskatt, til þess að jafna kjörin í landinu og til þess að afla tekna fyrir ríkissjóð til samfélagsþjónustu. Þar kannski fyrst og síðast skilja leiðir. Þar eru hin efnislegu ólíku sjónarmið sem annars vegar má finna hjá hæstv. ríkisstjórn dagsins í dag og hins vegar í þeim viðhorfum sem stjórnarandstaðan stendur fyrir.

En enn og aftur til að það sé nú alveg á hreinu, þá hvet hæstv. ráðherra til þess að lesa sitt eigið fjárlagafrv. og rifja upp hvað í því stendur upp á punkt og prik því þar er nefnilega vitnað til þeirrar nefndar sem þá var að fjalla um þessi mál og sagt efnislega í þá veru að allt benti til þess að niðurstaðan yrði á þennan eða hinn veginn, þegar það lá alls ekkert fyrir á þeim tímapunkti hver yrði meginniðurstaða þessarar nefndar. Það var raunar ekki fyrr en á síðustu vikum þess nefndarstarfs að meiri hluti nefndarinnar ákvað að fara þessa leið en ekki aðra. Ævinlega lá fyrir viðhorf mitt a.m.k. í þessum efnum sem hér er drepið á í þessari séstöku bókun sem ég sé að ráðherra hefur nú fundið eftir að ég benti honum á hana.