Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 14:49:37 (4784)

1996-04-16 14:49:37# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[14:49]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að ítreka það sem fram kom hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og sem skýrlega kemur fram í bókun fjórmenninganna sem mönnum hefur orðið tíðrætt um. Fjórmenningarnir og þeir flokkar sem þeir standa fyrir hafa ekki hafnað öðrum leiðum. Þetta kemur skýrlega fram í bókun fjórmenninganna og ég mun gera nánari grein fyrir því hér á eftir.

Eins og fram kemur í skilabréfi nefndarinnar sem vann að undirbúningi frumvarpanna átti ég sæti í nefndinni og tók því þátt í að undirbúa þær tillögur sem hér liggja frammi.

Það kom fljótlega í ljós í starfi nefndarinnar að þeir sem þar sátu þar voru ekki á eitt sáttir um það hvernig staðið skyldi að tillögunum. Þau sjónarmið heyrðust í nefndinni að ekki væri æskilegt að leggja skatt á fjármagnstekjur, sumir höfðu þá skoðun. En á meðal þeirra sem studdu slíka skattlagningu var einnig ágreiningur um leiðirnar sem fara skyldi.

Niðurstaðan varð eins og kunnugt er samhljóða nefndarálit með fyrirvara fjögurra nefndarmanna sem skiluðu sérstakri bókun þar sem dregin eru fram ýmis atriði er öðruvísi mættu fara að mati þeirra sem undir bókunina skrifuðu.

Nefndarmennirnir fjórir, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á þingi, gerðu nokkrar efnislegar athugasemdir við tillögur nefndarinnar. Að auki er þar bent á atriði sem rekja má til ýmissa aðgerða ríkisstjórnarinnar á meðan á nefndarstarfinu stóð sem ógnuðu þeirri samstöðu sem þó hafði náðst inni í nefndinni um að ná fram meginmarkmiði nefndarstarfsins sem var að koma með raunhæfar tillögur um fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts.

Bent er á í bókun fjórmenninganna að nefndin hafi víkkað út starfsvið sitt og þar er tekið fram að hún hafi m.a. fjallað um breytingar á skattlagningu arðs sem og leigu íbúðarhúsnæðis og söluhagnaði en ekki eingöngu um skatta á vaxtatekjur eins og fyrri nefndir af svipuðum toga gerðu. Þá er tekið fram í bókuninni að það hafi truflað verulega samstarfsviljann í nefndinni að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 hafi fjmrh. tekið af skarið í miðju nefndarstarfi og fullyrt þar hverjar yrðu meginniðurstöður nefndarinnar. Hæstv. ráðherrann talar nú um þetta sem spádóm sinn og að slíkur spádómur hefði ekki átt að trufla neinn sem inn í nefndinni starfaði. En ég get staðfest að þessi spádómur hæstv. fjmrh. hafði veruleg áhrif á starfið í nefndinni og ógnaði þar starfsfriði. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, eins og fram kom hér hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, að þegar verið er að vinna að efnislegum tillögum í nefnd truflar það nefndarstarfið þegar fram kemur í frv. til fjárlaga sem lagt er fyrir þingið að svona muni verða gert. Það er fullkomin ósvífni.

Sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að leggja sérstakan fjármagnstekjuskatt á ellilífeyrisþega og bótaþega almannatryggingakerfisins var ekki til að stuðla að vinnufriði í nefndinni. Eins og kunnugt er var þeirri aðgerð harðlega mótmælt af stjórnarandstöðunni enda fullkomlega óviðunandi að taka þann hóp sérstaklega út úr og leggja á hann fjármagnstekjuskatt fyrstan allra, hóp sem síst skyldi sorfið að.

Ofan á allt fer ríkisstjórnin þá leið að setja á laggirnar nefnd. A.m.k. bárust þau tíðindi á meðan við störfuðum í nefndinni um skatt á fjármagnstekjur að búið væri að skipa aðra nefnd er ætti að vinna að endurskipulagningu tekjuskattskerfisins að því er mér skildist. Ég hef reyndar ekki séð skipunarbréf þeirrar nefndar eða nákvæmlega hvað henni var ætlað að gera en hún átti a.m.k. að skoða skattareglur og þar var stjórnarandstöðuflokkunum ekki boðið að eiga sæti. Sú nefnd átti að vera skipuð fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna og aðilum vinnumarkaðarins. Það kom fram í áliti margra í nefndinni um fjármagnstekjuskatt að starf hinnar nefndarinnar, svo framarlega sem hún hefur hafist handa --- og það væri fróðlegt að heyra það frá hæstv. ráðherranum hvort sú nefnd sé starfandi, mundi að verulegu leyti skarast við það starf sem verið væri að vinna í nefndinni um fjármagnstekjur. Það kom oft upp í nefndinni að það væri á margan hátt óeðlilegt að fjalla sérsteklega um þennan þátt skattkerfisins. Ég veit að hæstv. fjmrh. þekkir þá umræðu og ég get sagt það fyrir mína parta að ég hefði talið eðlilegra að fjalla um þetta heildstætt. Það kemur reyndar fram í bókun fjórmenninganna að þeir voru frekar á því að þetta fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts væri hluti af hinu almenna tekjuskattskerfi og skyldi skoðað í heild við skattlagningu annarra tekna.

Eins og fram kemur í bókun fjórmenninganna höfðu þau atriði sem hér voru nefnd mikil áhrif á nefndarstarfið þótt þau hafi ekki leitt til þess að starfið hafi flosnað upp, sem þó hefði getað orðið niðurstaðan. Það sem réði því að starfið hélt áfram þrátt fyrir ólíkar áherslur um leiðir var sá einlægi vilji flestra nefndarmanna, reyndar ekki allra, að koma á skattlagningu fjármagnstekna eins og tíðkast alls staðar í löndunum í kringum okkur. Skattlagning fjármagnstekna er réttlætismál auk þess sem hún samræmist því sem almennt gerist í skattkerfi okkar. Það hefur hins vegar ekki náðst pólitísk sátt um málið þrátt fyrir að fleiri nefndir hafi áður starfað með svipuð markmið í huga. Það má segja að til þess að ná því grundvallarmarkmiði hafi nefndarmenn verið tilbúnir til að teygja sig nokkuð langt.

Í bókuninni er bent á ýmsar aðrar leiðir sem koma til greina við álagningu fjármagnstekjuskatts. Bent er á að 10% flatur nafnvaxtaskattur kalli á tvískipt tekjuskattskerfi, annars vegar skatta á launatekjur og hins vegar á fjármagnstekjur, en slík aðferð leiðir til ákveðinnar mismununar og óréttlætis. Meginatriðið er þó, segir í bókuninni, að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp eins og í öllum nágrannalöndum okkar. Sú leið sem hér er lagt til að farin verði er að mörgu leyti gölluð en þó ásættanleg að öðrum tilgreindum valkostum frágengnum. Síðan segir í bókuninni:

,,Því vilja undirritaðir nefndarmenn árétta að verði hún að veruleika sé hún aðeins til bráðabirgða, gildi einungis um skamma hríð og verði þannig áfangi á leið til heildstæðrar skattlagningar fjármagnstekna sem taki mið af öðrum megineinkennum íslensks skattkerfis þar sem reynt verði að verja kjör þeirra sem minna mega sín og stuðla að auknum tekjujöfnuði í þjóðfélaginu.``

Með þessum orðum í bókun fjórmenninganna er verið að draga fram þær megináherslur sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu við álagningu skattsins í nefndinni. En þar sem hinn pólitíski vilji ríkisstjórnarflokkanna var ljós í upphafi og kemur fram í þeirri leið sem nefndin á endanum fór, er valið að draga þessar séráherslur fram í sérstakri bókun. Eins og kom hér fram fyrr í dag er jafnframt tekið fram að þeir sem undir bókunina skrifa áskilji sé allan rétt í málinu þegar það kemur til almennrar þjóðfélagsumræðu og Alþingis, sem og þeir stjórnmálaflokkar sem þeir eru fulltrúar fyrir, þar með rétt til að styðja breytingartillögur sem til bóta geta talist.

Það hafa nú verið lögð fram frumvörp af hálfu formanna Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka og í þeim birtast hugmyndir áþekkar þeim sem voru nokkuð mikið til umræðu í nefndinni. Það kom þó skýrt fram í nefndarstarfinu af hálfu fulltrúa stjórnarflokkanna að svo stór skref yrðu ekki tekin af hálfu ríkisstjórnarinnar. Fyrir mína parta var það ljóst að með slíkum tillögum næðist ekki samstaða hér á þinginu. En á það mun væntanlega reyna annað kvöld þegar frv. stjórnarandstöðuformannanna þriggja verða rædd.

Ég tel reyndar fráleitt að halda því fram að þótt fjórmenningarnir hafi skrifað undir nál. með þeim efnislegu fyrirvörum sem fram komu í bókuninni áskilji þeir sér ekki rétt til að geta rætt hér efnislega um aðrar tillögur, hvort sem þær eru í formi frumvarpa sem eru lögð fram eða ekki. Ég tel það fráleita túlkun.

Það er rétt að benda líka á það líka að þótt hæstv. fjmrh. hafi áðan verið að reyna að snúa út úr því, þá eru þær tillögur sem þar koma fram að mestu leyti í þeim anda sem talað er um í bókun fjórmenninganna, þ.e. heildstæð skattlagning fjármagnstekna sem tekur mið af öðrum megineinkennum íslensks skattkerfis þar sem reynt er að verja kjör þeirra sem minna mega sín og stuðla að auknum tekjujöfnuði í þjóðfélaginu.

Ég vil árétta og tel mjög brýnt að fjármagnstekjuskatti verði komið á. Það er sú afstaða sem ég gekk út frá þegar ég skrifaði undir nál. Þótt sú leið sem hér er farin í áliti nefndarinnar sé ekki sú besta sem ég hefði viljað sjá, tel ég hana þó betri en enga. Eins og fram kemur í bókun nefndarinnar og engum hefði átt að koma á óvart, telja þeir sem undir bókunina skrifa þessa leið að mörgu leyti gallaða. Þar er sérstaklega bent á nokkur atriði sem fjórmenningarnir telja að betur mætti fara. Þeir tala um að það hefði verið æskilegra að hafa sérstakt frítekjumark þannig að þeir sem hafa litlar fjármagnstekjur sleppi við skattinn. Upphaflega var ekki gert ráð fyrir neinum slíkum undanþágum í nefndinni en vegna fram kominnar gagnrýni var komið til móts við kröfuna um frítekjumark með því að gera ráð fyrir að þeir sem það á við geti nýtt persónuafslátt sinn til frádráttar. Þetta er skref í rétta átt en eigi að síður getur skatturinn komið illa niður á fjölda fólks með lítinn sparnað sem ég tel eðlilegra að nytu skattleysis. Slíkar hugmyndir koma fram í frumvörpunum sem formennirnir þrír lögðu hér fram og verða rædd annað kvöld og mun ég fara efnislega nánar ofan í þau mál þegar þar að kemur. Þar er gert ráð fyrir ákveðnu frítekjumarki.

[15:00]

Sú leið sem farin er í tillögu nefndarinnar og birtist í stjfrv., þ.e. að hafa ekki sérstakt frítekjumark, er í raun rökstudd með því að skatthlutfallið sé það lágt að það sé of viðurhlutamikið að hafa miklar undanþágur frá greiðslunum. Það að heimila nýtingu persónuafsláttar er hins vegar skref í rétta átt til hins betra en eins og ég hef nefnt áður að með því að hafa fjármagnstekjuskattinn sem hluta af almenna tekjuskattskerfinu hefði verið tryggilegast fyrirkomið að tillit væri tekið til annarra þátta í efnahagslegu umhverfi fólks eins og tekna annars staðar frá.

Annað atriði sem ég vildi gjalda varhug við er lækkun skatthlutfalls á arðgreiðslum, einkum með tilliti til þess að í öðrum löndum eru þær víðast hvar skattlagðar að fullu. Ég tel hins vegar rétt að minna á að meginrökin fyrir lækkuninni eins og þau eru rakin í áliti nefndarinnar eru þau að eðlilegt sé að allar fjármagnstekjur séu skattlagðar með sömu skattprósentu, auk þess sem lækkunin sé líkleg til að glæða fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Síðastnefndu rökin tel ég eiga nokkurn rétt á sér og vera vel frambærileg en þau fyrri hljómuðu ekki að mínu mati sannfærandi. Það mætti allt eins halda því fram eins og tekið er fram í bókun fjórmenninganna að eðlilegra væri að samræmingin ætti að felast í því að allar tekjur, almennar launatekjur og fjármagnstekjur, eigi að lúta sömu lögmálum eins og víða tíðkast. Þetta er einmitt áréttað í bókun fjórmenninganna.

Kjörorðin í skilabréfi nefndarinnar eru lágt skatthlutfall og einföld framkvæmd, nokkuð sem er vissulega pólitískt umdeilt atriði. Það eru til fleiri leiðir um fyrirkomulag skattsins sem færar eru og það eru til leiðir sem eru meira í takt við aðrar meginreglur íslensks tekjuskattskerfis. Ég tel að þær tillögur, sem hér hafa verið lagðar fram af formönnum flokkanna þriggja, séu meira í tengslum við það sem íslenskt tekjuskattskerfi gerir almennt ráð fyrir. Ég vil hins vegar ítreka það sjónarmið að ég tel það vera mjög mikið réttlætismál að skatt á fjármagnstekjur verði komið á þannig að fjármagnstekjur verði skattlagðar eins og aðrar tekjur. Ég tel að annað verði algjörlega óviðunandi og hróplega óréttlátt. Þess vegna verður að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur að slíkar tekjur séu skattfrjálsar meðan launatekjur fólks eru skattlagðar að fullu. Eins og fram hefur komið fyrr í umræðunum hafa fleiri nefndir unnið að tillögum um fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts og það hefur ekki verið nægilega pólitískur vilji til að koma málinu í gegn sem ég tel vera slæmt. Það er hins vegar ekki svo að hvaða tillögu sem er séu betri en engar og vissulega eru ýmis atriði í tillögum nefndarinnar umdeilanleg en auk breytinga á arðgreiðslunum, sem ég nefndi áðan, má nefna það hvort og að hvaða marki eigi að veita undanþágu frá skattgreiðslum. Nefndin leggur til að skattlagningin sé almenn en þó verði fjármagnstekjur lífeyrissjóða og söluhagnaður íbúðarhúsnæðis ekki skattlagt auk þess sem lögð er áhersla á að tekið verði sérstaklega á skattlagningu ávöxtunar skaðabóta vegna líkamstjóns. Við útreikning þessara bóta hefur verið gengið út frá ákveðnum forsendum um skattfrjálsa ávöxtun og nefndin leggur til að gefinn sé ákveðinn aðlögunartími að því að slíkar tekjur, þ.e. tekjur af skaðabótagreiðslum verði skattlagðar, og lagði nefndin til að sá aðlögunartími yrði fimm ár. Um þetta var nokkuð skeggrætt í nefndinni og komu ýmis sjónarmið fram, m.a. þau að þessar tekjur ætti að skattleggja að fullu en aðrir töldu að þær ættu að vera algjörlega undanþegnar. Nefndin fer hins vegar þá leið að gefa ákveðinn aðlögunartíma en gerir jafnframt þá tillögu að fjmrh. beini þeim tilmælum til allshn., sem fjallar um skaðabótamálin, að hún skoði hvernig farið skuli með skaðabótauppgjör vegna eldra kerfis.

Að lokum, herra forseti, vegna orða hæstv. fjmrh. í upphafi um að hann hafi kynnt málið í herbúðum sínum, ef ég skildi mál hans rétt, á þeim nótum að hér væri um samkomulagsmál að ræða, þá vil ég taka það fram að bókun fjórmenninganna segir svo ekki verður um það efast að þeir sem skrifa undir hana áskilja sér allan rétt í málinu svo og þeir flokkar sem þeir eru fulltrúar fyrir, þar með talið að leggja fram aðrar tillögur. Þessi fyrirvari er tilkominn í ljósi þess sem áður hafði komið fram hjá okkur að við teldum aðrar leiðir vænlegri. Hæstv. ríkisstjórn kaus að flytja tillögur nefndarinnar óbreyttar þrátt fyrir að hún hafi vitað um þennan áskilnað fjórmenninganna og því er ekki sanngjarnt að gera að því skóna í þinginu að ríkisstjórnin hafi ekki vitað betur, eins og mér þótti hæstv. fjmrh. vera að gefa í skyn í upphafi, en fullt samkomulag hafi verið um málið því það var ekki einhugur um þessa tilteknu leið. Þetta vissi hæstv. ráðherra þótt fjórmenningarnir hafi farið þá leið að skrifa undir álitið með fyrirvara og bókun í stað þess að vera með sérálit. Það hefði alveg eins verið hægt að fara þá leið. Þetta er matsatriði þegar ágreiningur er um leiðir á hvern hátt ágreiningi eru gerð skil. Við kusum að gera það á þennan hátt og ég tel það beinlínis rangt að hæstv. fjmrh. hafi ekki vitað betur en að hér væri um fullt samkomulagsmál að ræða þegar hann kemur málinu síðan í gegnum þingflokk sinn eins og það kemur út úr nefndinni vegna þess að bókunin, með þeim fyrirvörum sem í henni felast, er lögð fram um leið og gengið er frá áliti nefndarinnar. Svona málflutningur er út í hött og sæmir ekki hæstv. fjmrh. í þingsölum.