Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 15:06:36 (4785)

1996-04-16 15:06:36# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[15:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði áðan var að menn hefðu orðið sammála um tillögurnar eins og þær lágu fyrir sem nú er að finna í þessu stjfrv., þær væru málamiðlunartillögur. Ég ætla að lesa það upp undir hvað hv. þm. ritaði. (BH: Hv. þm. veit það vel.) Það er fyrir aðra líka. Hann er ekki einn í salnum. Orðrétt, með leyfi forseta: ,,Sú tillaga sem hér liggur fyrir og nefndin er sammála um er málamiðlun sem skoðað verður í því ljósi.`` Sem nefndin er sammála um. (Gripið fram í: Málamiðlun.) ,,Sú tillaga sem hér liggur fyrir og nefndin er sammála um,`` --- þetta skilst alveg, --- ,,er málamiðlun sem skoðað verður í því ljósi.`` Með öðrum orðum, nefndin gerir tillögu, er sammála um að gera tillögu. Hins vegar undirstrikar nefndin það að þetta sé málamiðlun og hluti nefndarmanna skrifar undir bókun og segir: Við höfum fyrirvara hvað snertir að flytja breytingartillögur. Þetta liggur allt saman fyrir og í bókuninni segir m.a.: ,,Undirrituð telja mikilvægt að hið fyrsta verði skatti á fjármagnstekjur komið á og höfum við unnið í nefndinni að því markmiði að ná víðtækri niðurstöðu.`` Það er alveg ljóst hvað nefndarmennirnir voru að fara og það er í ljósi þessa sem ríkisstjórnin ákvað að taka álit nefndarinnar inn sem stjfrv., breyta því ekki, fór í gegnum þingflokka stjórnarinnar vegna þess að við töldum þetta vera málamiðlun. Við gerðum okkur allan tímann ljóst að það gæti komið fram brtt. við frv. Það er allt annað mál. Niðurstaðan varð hins vegar sú að þrír flokkar kusu að koma með sérstakt frv. og um það snýst þetta mál og þess vegna kemur gagnrýnin fram.