Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 15:34:21 (4790)

1996-04-16 15:34:21# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[15:34]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði sjálfur að það hefðu verið mikil átök í þessari nefnd í byrjun. Menn hefðu tekist mikið á. Það voru sem sagt átök og það var samið. Ég var í upphafi og er mjög efins og set spurningarmerki við það hvort eðlilegt sé að leggja skatta á vexti þegar sparnaðurinn er ekki meiri en við sjáum í dag. Það voru sem sagt átök og ég sem fulltrúi míns þingflokks í nefndinni féllst á að leggja skatta á vexti sem málamiðlun og þetta er eins og þegar maður sest niður. Ef ég ætla að selja hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni bíl semjum við um verðið. Okkur kemur saman um að verðið eigi að verða 500 þús. kall fyrir þennan bíl. Þegar við erum búnir að semja um verðið og gera samning kemur hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og segir: Nei, heyrðu, við skulum byrja að semja aftur. Ég legg til að ég borgi 250 þús. kr. Og þá segir hann: Út frá 500 kallinum. Þetta gerir maður ekki, alls ekki. Og ég get sagt að ég hef aldrei upplifað aðra eins stöðu. Menn eru búnir að takast á í tíu mánuði um mál. Það er komin málamiðlun sem allir eru sammála. Það var beðið um fyrirvara. Þeir koma ekki. Það var beðið um fyrirvara ef vera skyldi. Þeir komu ekki. Svo þegar menn eru búnir að skrifa undir málamiðlunina, málin eru tilbúin, þá kemur bókun. Og nú kannast þessi hv. þm. ekki við neitt.

Mér hefur verið sagt að þetta sé pólitík. Ef svo er, langar mig ekki til að læra pólitík. Ég kalla þetta óheilindi.