Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 15:39:13 (4793)

1996-04-16 15:39:13# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GMS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[15:39]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Ég átti ekki sæti í þessari frægu nefnd þannig að ég get ekki tekið þátt í því að láta bóka hvað standi í bókunum. En ég hef reynt að lesa frv. og hef minn skilning á því, þótt aðrir hafi e.t.v. einhvern annan skilning á því. Ég ætla að leyfa mér að fjalla um efnisatriði þessa frv. en sleppi umfjöllun um bókanir einstakra manna.

Ísland hefur um nokkurt skeið haft þá sérstöðu ásamt örfáum löndum öðrum í Evrópu að skattleggja ekki vaxtatekjur sem verða til af innstæðum í innlendum bönkum. Þetta hefur að mínu mati verið af hinu góða, ekki síst á tímum óðaverðbólgu eins og við bjuggum við til skamms tíma. Með árunum hefur þó sú krafa ýmissa afla í þjóðfélaginu um að komið sé á fjármagnstekjuskatti orðið háværari þó oftar en ekki sé ekki byggt á öðrum rökum en þeim að um sé ræða ákveðið jafnrétti milli þegnanna sem felst víst í því að þeir greiði sem græði eins og það er oft kallað.

Þeir sem hugsað hafa dýpra um þessi mál hafa þó haft af því áhyggjur að með tilkomu slíkrar skattlagningar samhliða því að nú eru fjármagnsflutningar milli landa frjálsir og óhindraðir gæti slíkur skattur leitt til fjárflótta úr landi og hækkandi vaxtastigs en hækkað vaxtastig hefur óumdeilanlega í för með sér samdrátt í nýjum fjárfestingum. Almenningur og margir stjórnmálamenn sem setja fram kröfur um vaxtaskatt gera sér litla grein fyrir því samhengi sem er á milli sparnaðar og vaxtastigs og vaxtafjárfestingar og atvinnustigs. Það er þannig engan veginn nægjanlegt ef við viljum viðhalda fullri atvinnu að fjárfestingin í þjóðfélaginu sé jöfn frá ári til árs heldur verður hún að aukast jafnt og þétt. Það má e.t.v. best orða þetta með því að vitna í ágætt bókmenntaverk þar sem segir að hagkerfið verði að hlaupa hraðar og hraðar til þess eins að ná að standa kyrrt.

Í þessu ljósi hafði ég af því nokkrar áhyggjur þegar ákveðið var að leggja nú á enn einn skattinn, fjármagnstekjuskatt, en við nánari skoðun á því frv. sem hér liggur fyrir held ég að ég geti sagt að ég sé sæmilega sáttur við þær breytingar sem verið er að gera og tel að ef litið er heildstætt á málið séu breytingarnar mjög til bóta. Því miður er það svo að það er nánast regla að skortur á víðsýni ríður ekki við einteyming þegar samin eru frumvörp um skatta og nýjar álögur. Og þegar skattar eru einu sinni komnir á hefur reynslan sýnt að þeir eru fáir, fjármálaráðherrarnir, sem hafa kjark til þess að afnema skatta. Löngu er vitað að mismunun í skattlagningu ólíkra sparnaðarleiða hér á landi hefur dregið úr vilja almennings til að leggja fé í atvinnulífið að ekki sé minnst á fjármagn til nýsköpunar og áhættusamari verkefna. Einstaklingar jafnt og fyrirtæki velja sér mismunandi sparnaðarleiðir. Meðan einn vill hafa sparifé sitt á bankareikningi kýs annar að kaupa hlutabréf og sá þriðji að kaupa húsnæði til útleigu. Í sjálfu sér er ekki eðlismunur hér á. Einungis er um að ræða mismunandi leiðir að sama marki, þ.e. að varðveita sparifé og helst að sjá það vaxa og dafna.

Í dag er æðimikill munur á skattalegri meðferð á hinum ýmsu sparnaðarleiðum og fráleitt að taka upp skatt á sparifé án þess að samræma skattlagningu hinna ýmsu sparnaðarforma í leiðinni eins og hér er reyndar lagt til. Slík samræming er réttlætismál auk þess sem mismunandi skattaleg meðferð vaxta og arðs býður misnotkun heim og hamlar gegn eðlilegri eiginfjármyndun í íslenskum fyrirtækjum.

Í þeim tillögum sem fulltrúar allra þingflokka og ASÍ hafa lagt fyrir ríkisstjórnina er lagt til að hin ýmsu og um margt mismunandi sparnaðarformi fái sömu skattalegu meðferð, þ.e. að 10% flatur skattur komi á allar fjármagnstekjur hvaða nafni sem þær nefnast jafnhliða því sem felld verði niður sérstök frítekjumörk á arðgreiðslur. Þetta eru að mínu mati óvenjuróttækar hugmyndir af skattfrv. að vera og bera jafnvel með sér vott af víðsýni. Mér er að vísu ljóst að þeir fáu einstaklingar sem fá miklar arðgreiðslur greiða á eftir 10% skatt af öllum arðtekjum í stað þess að greiða almennan tekjuskatt af arði sem er umfram frítekjumark. Skattgreiðslur þessa hóps munu lækka meðan skattgreiðslur aukast lítillega hjá þeim sem áður voru innan frítekjumarks. En þetta er í mínum huga einfaldlega það verð sem við greiðum fyrir að fá einfaldara og skilvirkara og betra skattkerfi sem þjónar heildarhagsmunum landsmanna betur en það skattkerfi sem við höfum haft til þessa. Á hitt ber þó einnig að líta að í frv. ríkisstjórnarinnar um fjármagnstekjuskatt er ákvæði sem heimilar einstaklingum að nýta persónufrádrátt sinn til greiðslu á fjármagnstekjuskatti sem ég tel mjög mikilvægt með tilliti til þess að stór hluti sparifjáreigenda er fólk með ellilífeyri og ekki aðrar tekjur.

Þá er og afar mikilvægt það ákvæði í frv. sem heimilar þeim sem fjárfesta í hlutabréfum að jafna í allt að fimm ár tap sem verða kann á kaupum á hlutabréfum í einu félagi á móti arði sem verður á öðrum hlutabréfum. Hér er um mikilvægt ákvæði að ræða þar sem hlutabréfaviðskipti eru í eðli sínu áhættuviðskipti og ef löggjöfin verður ekki lagfærð með þessu móti búum við enn um ókomin ár við að mismunun í skattlagningu vaxta og annarra fjármagnstekna vinnur gegn nauðsynlegri eiginfjármyndum í fyrirtækjum. Þessi breyting er einkar áhugaverð fyrir þá sem lagt hafa sig eftir nýsköpun íslensks atvinnulífs og glímt við það að afla hlutafjár fyrir áhættusöm verkefni á sviði nýsköpunar þar sem vitað er fyrirfram að allt eins miklar líkur eru á því að fjárfesting sú sem fé er lagt í tapist. Það er ekki nokkur vafi á því að auðveldara verður að afla áhættufjár til slíkra verkefna ef fjárfestar geta dregið töp sem verða kunna á fjárfestingum frá öðrum fjármagnstekjum næstu fimm árin. E.t.v. má taka svo djúpt í árinni að segja að verði slíkt ákvæði að lögum sé það stærri áfangi að örvun íslenskrar nýsköpunar og atvinnulífs en það fjármagn sem stjórnvöld hafa til þessa veitt til slíkra verkefna og er ég þá að líta til baka til allmargra ára.

Undanfarinn áratug hafa flest ný störf bæði hér á landi og í nágrannalöndum orðið til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum og er almennt viðurkennt að hagvöxtur komandi ára verði fyrst og fremst til fyrir það frumkvæði og þá nýsköpun sem á sér stað í slíkum fyrirtækjum. Engu að síður er ljóst að áhætta fjárfesta við að leggja fé í rekstur slíkra fyrirtækja er býsna mikill. Það er gamall og nýr sannleikur að tiltölulega lítill hluti nýrra fyrirtækja nær því að lifa í fimm ár. Stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir og aðrir slíkir eru í eðli sínu áhættufælnir og forðast að leggja fé í slík fyrirtæki meðan þau hafa ekki enn sannað tilveru sína. Í flestum tilvikum kemur stofnfé því frá fjölskyldu og vinum stofnenda auk einstaklinga sem eiga fé aflögu og eru tilbúnir til að taka vissa áhættu til að ná þeirri ánægju sem því fylgir að vera með í verkefni sem e.t.v. nær að vaxa og dafna. Heldur hefur farið lítið fyrir slíkum einstaklingum hér á landi þó vissulega séu þeir til en þeim mun örugglega fjölga til muna ef frv. verður lögleitt.

Annað grundvallaratriði fyrir örvun nýsköpunar sem er að finna í þessu frv. ríkisstjórnarinnar er það ákvæði að gengishagnaður skuli skattleggjast eins og aðrar fjármagnstekjur með 10% flötum skatti. Því aðeins mun það takast að fá óviðkomandi eða utanaðkomandi fjárfesta til að leggja fram áhættufé til nýsköpunar að menn eigi von á gengishagnaði á hlutafé. Að óbreyttum lögum er hvati fjárfestis til að taka áhættu næsta lítill. Honum er þá boðið upp á að leggja fram fé í rekstur þar sem vitað er með tilvísun til tölfærðilegra staðreynda að næsta litlar líkur eru á að fyrirtækið nái að lifa í fimm ár og ef svo vel tekst til að reksturinn gangi og fjárfesti takist að selja hlutabréf með hagnaði er það þannig í dag að gengishagnaðurinn er skattlagður með allt að 47% skatti. Við þessar aðstæður er ekki að furða þó að menn kjósi heldur að leggja fé sitt á bankareikninga.

Verði frv. hins vegar að lögum horfir dæmið allt öðruvísi við. Fjárfestir greiðir þá einungis 10% skatt verði hagnaður af fjárfestingu en tap má draga frá arði annarra fjárfestinga næstu fimm ár. Þau tvö grundvallaratriði, sem ég hef farið yfir, hafa að mínu mati svo mikla þýðingu fyrir framþróun íslensks atvinnulífs að þó ég sé ekki hrifinn af nýjum sköttum tel ég að þessi atriði réttlæti ein og sér þetta frv. um fjármagnstekjuskatt, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, og ég vona að það verði afgreitt sem fyrst sem lög frá Alþingi.