Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:00:43 (4803)

1996-04-16 17:00:43# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:00]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt Morgunblaðinu 10. mars var hv. þm. Pétur Blöndal, einn af höfundum þess frv. sem hér er á dagskrá, á fundi með ungum sjálfstæðismönnum. Hann var spurður hvaða rökfræði lægi að baki þessum skatti frv. Svar hans var samkvæmt Morgunblaðinu að rökfræðin væru engin. Það væri hins vegar einhver sálfræði og orðrétt: ,,Það væru engin rök fyrir því að byggja upp heilt skattkerfi fyrir 600 millj. kr. tekjur.`` Það vill svo til að ég er alveg sammála hv. þm. en ég bendi á að þaðan af síður eru rök fyrir því að byggja upp heilt skattkerfi, sem hér er verið að gera, sem um leið veldur ríki og sveitarfélögum umtalsverðu tekjutapi, sem öllum sérfræðingum sem málið hafa skoðað ber saman um, til þess fyrst og fremst að lækka skatta á þau 10% framteljenda sem eiga yfir 60% af fjármagnstekjunum á Íslandi. Rökin í málflutningi hv. þm. eru þau að þetta sé nauðsynlegt til þess að hvetja þessi 10% til að fjárfesta meira í fyrirtækjum. Svarið við því er að hann hefur enga tryggingu fyrir því að þetta sé skynsamlegasta leiðin til þess að örva menn til arðbærrar fjárfestingar í fyrirtækjum. Það sem verið er að gera er að hvetja fyrirtækin með uppfærslu á nafnverði hlutabréfa til þess að greiða út hærra hlutfall í skattfrjálsum arði. Hver er kominn til með að fullyrða að þeim arðgreiðslum til hinna ríkustu verði varið til nýsköpunar í atvinnulífi fremur en til neyslu? Jafnvel þótt ég sé sammála því sem hv. þm. er að segja að skattkerfið okkar er tóm þvæla og flækja og eins og hann benti ágætlega á að þegar menn eru með mismunandi skattlagningu bregðast auðvitað fjármagnseigendur við og færa tekjur sínar úr hásköttuðum formum í lágskattasmugur. Það er það sem er hættulegast við það sem hv. þm. er að leggja til í frv.